Íslandsmet, aldursflokkamet, mótsmet, persónulegar bætingar, gleði og stemming. Samantekt af innanhússtímabilinu 2025

Penni

6

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Íslandsmet, aldursflokkamet, mótsmet, persónulegar bætingar, gleði og stemming. Samantekt af innanhússtímabilinu 2025

Núna þegar vorið er handan við hornið og frjálsíþróttirnar fara að færast meira út er ekki úr vegi að líta stuttlega yfir liðið innanhússtímabil sem einkenndist af fjölda persónulegra bætinga, mótsmetum, aldursflokkametum og Íslandsmetum, góðum árangri á mótum erlendis og síðast en ekki síst mikilli gleði og stemmingu.

Tímabilið hófst á meistaramótstvennu í Laugardalshöllinni þegar Meistaramót Íslands í fjölþrautum og Meistaramót Íslands í eldri aldursflokkum fór þar fram helgina 11. og 12. janúar. Í fjölþrautinni sigruðu í fullorðinsflokki Fjóla Signý Hannesdóttir (Selfoss) en hún hlaut  2740 stig í fimmtarþraut kvenna og Birnir Vagn Finnsson (UFA) sem hlaut 4343 stig í sjöþraut karla.

Það voru FH-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppninni á MÍ í eldri aldursflokkum, en þau hlutu 304 stig og sigruðu með miklum yfirburðum. Það sást greinilega á mótinu hvað það er mikil gróska og stemming í frjálsíþróttum hjá eldri iðkendum, en metþátttaka var á mótinu. Árangur lét heldur ekki standa á sér en það voru sett hvorki meira né minna en 14 aldursflokkamet, í fjölda greina og fjölda aldursflokka.

Flottur hópur FH-inga sem sigruðu stigakeppni félagsliða á Meistaramóti Íslands í eldri aldursflokkum.

Um miðjan janúar fór Stórmót ÍR fram í Laugardalshöllinni og eins og áður var um að ræða einn af stærstu frjálsíþróttaviðburðum hvers árs og í ár voru 600 þátttakendur sem mættu til leiks frá öllu landinu auk keppanda frá Færeyjum, Írlandi og Bretlandi. Sett voru sex mótsmet á mótinu.

Fyrsta Íslandsmet ársins leit dagsins ljós 19. janúar þegar Baldvin Þór Magnússon (UFA) gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Íslandsmet í 3000 m hlaupi um rúmar tvær sekúndur þegar hann hljóp á 7:45,13 mín á móti á Englandi.

Í lok janúar var svo komið að RIG, sem er eitt af skemmtilegri mótum ársins þar sem umgjörð þess er með aðeins öðru og stærra sniði en önnur frjálsíþróttamót, og var mættur stór hópur af erlendum keppendum til að etja kappi við okkar allra besta frjálsíþróttafólk. RIG í ár var virkilega skemmtilegt mót og var mikil stemming í Laugardalshöllinni þar sem áhorfendastúkur voru nánast fullar og sýnt frá mótinu á RÚV2. Íþróttafólkið sýndi líka að það var í hörkuformi og náðist frábær árangur í mörgum greinum og voru persónulegar bætingar 43. Hápunkturinn var að sjálfsögðu, líkt og í fyrra, glæsilegt Íslandsmet Baldvins Þórs Magnússonar (UFA), en hann bætti eigið Íslandsmet í 1500 m um tæpa eina og hálfa sekúndu þegar hann kom fyrstur í mark á tímanum 3:39,67 og ætlaði þakið að rifna af Laugardalshöllinni á síðustu metrum hlaupsins. Þvílík skemmtun!

Baldvin Þór að koma í mark í 1500 m hlaupinu á RIG þar sem hann setti glæsilegt Íslandsmet.

Aðra helgina í febrúar var komið að MÍ 11-14 ára en það fór fram í Kaplakrika í ár, og í ár voru það ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppni félagsliða og hlutu þau 505 stig. En það sem er markverðast er að á mótinu voru hvorki meira né minna en 888 persónulegar bætingar. Greinilegt að æfingar haustsins og vetrarins hafi verið að skila sér í frábærum árangri hjá unga frjálsíþróttafólkinu.

Hress hópur ÍR-inga á Meistaramóti 11-14 ára, þar sem ÍR stóð uppi sem sigurvegari í stigakeppni félagsliða.

Sunnudaginn 9. febrúar fór Norðurlandameistaramótið innanhúss í frjálsíþróttum fram í Espoo í Finnlandi og tefldi Íslands þar fram sameiginlegu liði með Danmörku. Íslensku keppendurnir í ár voru níu og unnu þau til einna gullverðlauna, einna silfuverðlauna og tvennra bronsverðlauna. Auk þessa þá setti Baldvin Þór Magnússon glæsilegt Íslandsmet í 3000 m hlaupi þegar hann bætti eigið met, frá í janúar, um rúmar fimm sekúndur og kom fyrstur í mark á tímanum 7:39,94 mín.  

Baldvin Þór á svakalegum lokaspretti í 3000 m hlaupinu á Norðurlandameistaramótinu í Osló.

Um miðjan febrúar, helgina 15.-16. febrúar, fór Meistaramót Íslands 15-22 ára fram í Laugardalshöllinni og þar voru það ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar stigakeppninnar með 353,5 stig.

ÍR-ingar Íslandsmeistarar félagsliða á Meistaramóti Íslands 15-22 ára.

Um sömu helgi, 15.-16. febrúar, fór Norðurlandameistaramótið í eldri aldursflokkum fram í Osló í Noregi og það var heldur betur ferð til fjár hjá íslensku keppendunum sem komu heim með hvorki meira né minna en 12 gullverðlaun, og þar með 12 Norðurlandameistaratitla, sjö silfurverðlaun og fern bronsverðlaun. Þau settu 11 aldurflokkamet og Anna Sofia Rappich (UFA) gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Norðurlandamet í flokki 60-64 ára í 60 m hlaupi þegar hún kom í mark á 8,88 sek.

Anna Sofia í startinu í 60 m hlaupinu á Norðurlandameistaramóti eldri aldursflokka þar sem hún setti Norðurlandamet í sínum aldursflokki.

Síðustu helgina í febrúar, 22.-23. febrúar, var komið að einum hápunkti tímabilsins þegar Meistaramót Íslands fór fram í Laugardalshöllinni og var okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk mætt til keppni. Það voru sett tvö aldurflokkamet á mótinu auk tveggja mótsmeta, en það sem stendur upp úr er að sjálfsögðu frábært Íslandsmet Eirar Chang Hlésdóttur í 200 m hlaupi. Eir hljóp 200 m á 23,69 sek og bætti þar með 21 árs gamalt met Silju Úlfarsdóttur um 10 sekúndubrot. Það voru svo ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppni félagsliða eftir hörkuspennandi keppni við FH-inga, en ÍR hlaut 49 stig, þar með tryggði ÍR sér þriðja og síðasta Íslandsmeistaratitilinn á tímabilinu, frábær árangur hjá ÍR-ingum.

Laugardaginn 1. mars var svo komið að síðasta stóra innanhússmótinu hérna innanlands þegar Bikarkeppnir FRÍ fóru fram í Kaplakrika. Í flokki 15 ára og yngri voru það ÍR-ingar sem urðu bikarmeistarar en þau hlutu 125,5 stig. Sett var eitt mótsmet á mótinu og voru 86 persónulegar bætingar. Í bikarkeppni fullorðinna voru það FH-ingar sem urðu bikarmeistarar með 145 stig. Sett var eitt mótsmet á mótinu og mikill fjöldi persónulegra bætinga.

Evrópumeistaramótið innanhúss fór fram dagana 6.-9. mars í Apeldoorn í Hollandi og þar áttum við Íslendingar þrjá flotta fulltrúa, Daníel Inga í langstökki, Ernu Sóley í kúluvarpi og Baldvin Þór i 3000 m hlaupi.  Þau náðu sér ekki alveg á strik að þessu sinni en engu að síður frábær stórmótareynsla fyrir þau öll og verður gaman að fylgjast með þeim á komandi utanhússtímabili.

Bandaríska innanhúss háskólameistaramótið (NCAA Indoors Championship) fór fram um miðjan mars og þar átti Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) frábært mót. Hún keppti þar í lóðkasti og tvíbætti Íslandsmet sitt og endaði í öðru sæti með kasti upp á 23,18 m. Sjá viðtal við Guðrúnu Karítas í kjölfar Íslandsmetsins.

Guðrún Karítas í lóðkasti á NCCA indoors þar sem hún tvíbætti Íslandsmet sitt í lóðkasti

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið virkilega gott og skemmtilegt innanhússtímabil og frábær árangur hjá okkar flotta frjálsíþróttafólki, sama á hvaða aldri það er. Sett voru fimm Íslandsmet, 30 aldursflokkamet, eitt Norðurlandamet í aldursflokki og persónulegar bætingar telja í þúsundum.

Þá er bara að vona að utanhússtímabilið verði eins skemmtilegt og gjöfult en við viljum sannarlega trúa því enda eigum við virkilega flott íþróttafólk sem mun mæta sterkt til leiks þegar keppnistímabilið byrjar á nýjan leik. En sumarið verður stútfullt af frábærum mótum bæði innanlands og utan og munum við vera með umfjöllun um það fljótlega.

Penni

6

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Íslandsmet, aldursflokkamet, mótsmet, persónulegar bætingar, gleði og stemming. Samantekt af innanhússtímabilinu 2025

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit