Medalíuregn á Norðurlandameistaramótinu í eldri aldursflokkum

Penni

3

min lestur

Deila

Medalíuregn á Norðurlandameistaramótinu í eldri aldursflokkum

Það var heldur betur ferð til fjár hjá íslensku keppendunum á Norðurlandameistaramótinu í eldri aldursflokkum sem fram fór í Osló um helgina. Íslensku keppendurnir nældu sér í hvorki meira né minna en 12 gullverðlaun, og þar með 12 Norðurlandameistaratitla, sjö silfurverðlaun og fern bronsverðlaun. Auk þessa voru átta persónulegar bætingar hjá þeim, eitt Norðurlandamet og 11 aldursflokkamet.

Frábær árangur og óskum við þeim öllum innilega til hamingju!

Anna Sofia Rappich (UFA) er tvöfaldur Norðurlandameistari í flokki 60-64 ára, en hún sigraði 60 m hlaupið og langstökkið. Hún hljóp 60 m á 8,88 sek, en það er bæting á eigin Norðurlandameti, og í langstökkinu var hún með aldursflokkamet þegar sem hún stökk 4,29 m.  Auk þessa þá nældi Anna sér í silfur í stangarstökki með stökk upp á 2,00 m.

Liðsfélagi hennar úr UFA, Ágúst Bergur Kárason, átti heldur betur flott mót, en hann vann til fernra verðlauna í flokki 50-54 ára og var með þrjár persónulegar bætingar. Hann varð Norðurlandameistari í 400 m hlaupi á 56,78 sek, sem er hans besti tími til þessa. Hann vann svo til silfurverðlauna í þrístökki með stökk upp á 11,14 m (PB), hástökki með stökk upp á 1,56 m og í 200 m hlaupi á tímanum 25,32 sek (PB).

Árný Heiðarsdóttir (Selfoss) kemur heim með þrenn verðlaun af mótinu. Hún varð Norðurlandameistari í kúluvarpi í flokki 70-74 ára með kast upp á 9,06 m sem er persónuleg bæting. Svo vann hún til silfurverðlauna í lóðkasti með kast upp á 11,57 m og í hástökki með stökk upp á 1,11 m. Allur þessi árangur Árnýjar er nýtt aldursflokkamet.

Bergur Hallgrímsson (Breiðablik) varð tvöfaldur Norðurlandameistari í flokki 40-44 ára, en hann sigraði 200 m hlaupið á 23,94 sek, sem er nýtt aldursflokkamet, og 400 m hlaupið á 52,68 sek.

Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR) varð einnig tvölfaldur Norðurlandameistari í flokki 55-59 ára en hún sigraði 3000 m hlaupið á tímanum 11:04,84 mín og 400 m hlaupið á tímanum 82,20 sek. Auk þessa þá vann Fríða Rún silfur í 800 m hlaupi þar sem hún hljóp á 2:39,33 mín og brons í 1500 m hlaupi með tímann 5:25,45 mín. Tímarnir í 800 m, 1500 m og 3000 m eru allir nýtt aldursflokkamet.

Hafsteinn Óskarsson (ÍR) varð Norðurlandameistari í 800 m hlaupi í flokki 65-69 ára á tímanum 2:26,61 mín og svo vann hans brons í 200 m hlaupi þar sem hann hljóp á 28,90 sek sem er aldursflokkamet.

Helgi Hólm (Keflavík) vann til bronsverðlauna í hástökki í flokki 80-84 ára þar sem hann stökk 1,13 m. Helgi varð síðan fjórði í kúluvarpi með kast upp á 8,92 m.

Jón Bjarni Bragason (Breiðablik) varð tvöfaldur Norðurlandameistari í flokki 50-54 ára. En hann rústaði lóðkastkeppninni með kasti upp á 18,49 m, sem var um 6 metrum lengra en hjá þeim varð í öðru sæti og er árangurinn aldursflokkamet. Svo sigraði hann einnig kúluvarpið með kasti upp á 12,79 m.

Kristinn Guðmundsson (FH) varð þriðji í 3000 m hlaupi í flokki 65-69 ára þegar hann hljóp á 11:49,28 mín og annar í 1500m á 5:31 mín.

Magnús Björnsson (Breiðablik) fékk bronsverðlaun í flokki 55-59 ára í lóðkasti með kast upp á 14,67 m, sem er einnig persónuleg bæting. Hann varð einnig fimmti í kúluvarpi með persónulega bætingu.

Sigurður Konráðsson (FH), hlaut bronsverðlaun í 1500m hlaupi í flokki 70-74 ára en hann hljóp á 7:27,65 mín. Hann varð fjórði í 3000 m og sjötti í 200m. 

Páll Jökull Pétursson (Selfoss) varð þriðji í langstökki án atrennu með stökk upp á 2,14 m og í hástökki án atrennu þar sem hann stökk 1,15 m. Þessar greinar voru partur af norska mastersmótinu sem fram fór samhliða NM, og tók hann þátt í þeim sem gestur og vann því ekki til verðlauna, en flottur árangur engu að síður.

Hægt er að sjá heildarúrslit mótsins hér.

Penni

3

min lestur

Deila

Medalíuregn á Norðurlandameistaramótinu í eldri aldursflokkum

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit