Norðurlandameistaramótið í frjálsíþróttum fór fram í Espoo í Finnlandi í dag og tefldi Ísland fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.
Í ár voru níu íslenskir keppendur á mótinu og stóðu þau sig með prýði. Íslendingar unnu ein gullverðlaun, ein silfurveðlaun og tvenn bronsverðlaun. Auk þessa þá var sett eitt glæsilegt Íslandsmet á mótinu. Óskum okkar frábæra íþróttafólki til hamingju með þennan árangur.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) hljóp 3000 m hlaupið á 7:39,94 sem er glæsilegt nýtt Íslandsmet, en eldra Íslandsmet hans frá því fyrr á árinu var 7:45,13 og er þetta því bæting um rúmar fimm sekúndur. Hann sigraði hlaupið og er því Norðurlandameistari í 3000 m hlaupi innanhúss. En þess má geta að hann sigraði Norðmanninn Filip Mangen Ingebrigtsen með aðeins þremur sekúndubrotum. Svakalega spennandi hlaup! Með þessum frábæra tíma tryggði Baldvin sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer eftir tæpan mánuð.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) kastaði kúlunni 17,63 m m og endaði í 2. sæti. Flottur árangur hjá henni Ernu Sóleyju en þetta er hennar þriðja lengsta kast innanhúss frá upphafi, en Íslandsmet hennar er 17,92 m og er frá því í febrúar 2023.
Irma Gunnarsdóttir (FH) og Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) kepptu í langstökki og enduðu þar í 3. og 4. sæti. Irma endaði í 3. sæti með stökk upp á 6,24 m og Birna Kristín lenti í 4. sæti með stökk upp á 6,11 m. Hinn fínasti árangur hjá þeim stöllum. Irma á lengst innanhúss 6,45 frá því í janúar í fyrra, en þetta er lengsta stökk hennar á árinu. Birna Kristín á lengst 6,30 m innanhúss frá því í janúar sl.
Aníta Hinriksdóttir (FH) hljóp 800 m hlaup og endaði í 3 sæti á tímanum 2:03,71. Þetta er hennar besti tími innanhúss frá því febrúar 2018, en Íslandsmet hennar frá því í febrúar 2017, 2:01, 18. Virkilega flottur árangur hjá Anítu.
Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson (Fjölni) keppti í þrístökki og stökk hann 14,16 m og lenti í 8. sæti. Hann á best inni 14,46 m, frá því í desember sl.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) hljóp 400 m á 56.75 og endaði í 8. sæti, en hún lendir í því leiðinda atviki að annar hlaupari í riðlinum hennar rífur aftan í hana og truflar hana. En hún stórbætti árangur sinn á RIG um daginn, þar sem hún hljóp á 54,70 sek.
Daníel Ingi Egilsson (FH) endaði í 7. sæti í langstökki með stökk upp á 7,19 m. En hann á best innanhúss 7,63 m, sem hann stökk fyrr á árinu.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) meiddist því miður og náði því ekki að klára 200 m hlaupið sitt.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.
Myndir frá mótinu má sjá hér, en það var hún Marta Siljudóttir fyrrum starfsmaður FRÍ og núverandi starfsmaður Spörtu í Danmörku sem tók þessar myndir og þökkum við henni kærlega fyrir þær.