Frábær frjálsíþróttavika að baki um allan heim. Glæsilegur árangur hjá frjálsíþróttafólkinu okkar um allan heim, heldur betur verið að setja tóninn fyrir komandi keppnistímabil.
Baldvin Þór með nýtt Íslandsmet í 3000 m hlaupi
Baldvin Þór Magnússon (UFA) gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Íslandsmet í 3000 m hlaupi innanhúss í gær, 19. janúar, um rúmar tvær sekúndur þegar hann hljóp á 7:45,13 á móti í Sheffield á Englandi. Fyrra met hans er frá því í febrúar 2022 þegar hann hljóp á 7:47,51. Glæsilegur árangur hjá Baldvini og verður mjög spennandi að fylgjast með gengi hans á næstunni, keppnistímabilið er rétt að byrja.
Hlaupið hans Baldvins má sjá hér.
Glæsilegur árangur í hástökki
Hástökkvarinn Helga Þóra Sigurjónsdóttir (Fjölnir) keppti á Corky Classic í Texas um helgina og stökk þar 1,83 m sem er bæting um 5 cm innanhúss, en hún átti best 1,78 m inni, frá því í febrúar 2024. Virkilega vel gert hjá Helgu Þóru!
Sjá má úrslit mótsins hér.
Eva María Baldursdóttir (Selfoss) var einnig með glæsilegan árangur í hástökki á PSU Challenge á vegum Penn State í Bandaríkjunum, en þar stökk hún 1,80 m og bætti sinn besta árangur um 2 cm og sigraði mótið með yfirburðum. Frábær árangur hjá Evu Maríu sem er að koma mjög sterk til baka eftir að hafa verið að glíma við meiðsli í dágóðan tíma.
Sjá má úrslit mótsins hér.
Persónuelgar bætingar á Quality Hotel Games í Vaxjö í Svíþjóð
Quality Hotel Games fóru fram í Vaxjö í Svíþjóð og þar bættu þær Karen Sif Ársælsdóttir (Breiðablik) og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) sinn besta árangur. Karen Sif keppti stangarstökki og stökk þar 3,65 m sem er bæting innanhúss og Guðbjörg Jóna hljóp 400 m á 54,84 sek sem er hennar besti tími í 400 m hlaupi. Frábær árangur hjá þeim stöllum í Svíþjóð.
Sjá má úrslit mótsins hér.
Fjölmennt Stórmót ÍR
Einn af stærri frjálsíþróttaviðburðum hvers ár fór fram í Laugardalshöllinni um helgina þegar Stórmót ÍR var haldið í 28. sinn. 600 þátttakendur mættu til keppni víðsvegar að af landinu auk keppenda frá Færeyjum, Írlandi og Bretlandi. Keppendum fjölgaði um 60 á milli ára, en fjölmennasti keppendahópurinn kom frá gestgjöfunum í ÍR, eða 125, og 116 frá FH. Hvorki meira né minna en 588 persónuleg met voru sett, en sérstök verðlaun voru veitt í öllum greinum 13 ára og eldri til þess keppanda sem bætti sig mest. ÍR-ingar unnu til flestra verðlauna eða 60, FH-ingar komu næstir með 52 verðlaun og Ármenningar í þriðja sæti með 43 verðlaun.
Sett voru sex mótsmet á mótinu og besta afrek mótsins Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) þegar hún stökk 6,30 m í langstökki.
Til að fylgja eftir góðri umfjöllum um Meistaramót Íslands í eldri aldursflokkum um síðustu helgi þá er gaman að segja frá því að það var nokkur fjöldi úr röðum eldri iðkenda sem tók þátt á Stórmótinu. Af þeim var Sigurður Konráðsson (FH) elstur. Hann setti met í M70 flokknum þegar hann hljóp 400 m á 1:25,32. Hafsteinn Óskarsson (ÍR) átti góða helgi og náði að slá Norðurlandametið í 400 í M65 er hann hljóp á 61,66 s. (940 öldungastig) og bæta eigið Norðurlandamet í 800 m frá í fyrra er hann hljóp á 2:22,46 mín. sem gefur 1042 öldungastig og er 4. stigahæsta hlaup hans frá upphafi (hæst 1053 stig fyrir 2:19,60 árið 2023). Þessi árangur setur hann í 34. sæti á heimslistanum frá upphafi í M65 (inni og úti). Virkilega gaman að sjá eldri frjálsíþróttaiðkendur vera meðal keppenda á þessu stórskemmtilega móti sem Stórmót ÍR er.
Heildarúrslit Stórmótsins má sjá hér.