Um helgina fór Meistaramót Íslands 15-22 ára fram í Laugardalshöllinni og var hörkuþátttaka á mótinu frjá frjálsíþróttafélögum um allt land.
Það voru ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppni félagsliða og hlutu þau 353,5 stig, FH-ingar urðu í öðru sæti með 299 stig og HSK/SELFOSS í því þriðja með 238 stig.
Flottur árangur náðist á mótinu og voru sett 10 mótsmet og eitt aldursflokkamet.
Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) setti mótsmet í kúluvarpi 16-17 ára pilta þegar hann kastaði 16,72 m með 5 kg kúlunni, en hann á best með henni 17,05 m frá því á RIG í lok janúar sl.
Grétar Björn Unnsteinsson (Fjölnir) setti mótsmet í stangarrtökki 18-19 ára pilta þegar hann stökk 4,61 m. Þetta er einnig flott persónuleg bæting hjá Grétari, en hans besti árangur var 4,55 m frá því um miðjan janúar sl.
Þorsteinn Pétursson (Ármann) setti mótsmet í 60 m hlaupi pilta 18-19 ára þar sem hann hljóp á 7,02 sek, en það er bæting um 10 sekúndubrot hjá Þorsteini, en hann átti best 7,12 sek frá því í febrúar 2024.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) bætti mótsmetið í 400 m hlaupi og 200 m hlaupi stúlkna 18-19 ára. Hún hljóp 400 m á 55,47 sek , en hennar besti tími er 54,70 sek frá því á RIG í lok janúar. Hún hljóp svo 200 m á 24,00 sem er einnig persónuleg bæting, en hennar besti tími var 24,38 sek frá því í desember sl.
María Helga Högnadóttir (FH) bætti mótsmetið í 60 m grindahlaupi stúlkna 20-22 ára þegar hún hljóp á 8,61 sek og er þetta bæting hjá Maríu Helgu, en hennar besti tími var 8,64 sek frá því í byrjun febrúar.
Sindri Karl Sigurjónsson (UMSB) bætti mótsmetið í 3000 m hlaupi pilta 16-17 ára þegar hann hljóp á 9:10,74, sem er heljarinnar bæting hjá honum Sindra Karli en hans fyrri besti tími var 9:22,36.
Anna Metta Óskarsdóttir (HSK/Selfoss) bætti mótsmetið í þrístökki 15 ára stúlkna með stökk upp á 11,59 m. Með þessu stökki bætti hún sinn persónulega árangur og eigið aldursflokkamet um 13 cm, en fyrra met var 11,46 m frá því í nóvember sl.
Birta María Haraldsdóttir (FH) bætti mótsmetið í hástökki stúlkna 20-22 ára þegar hún stökk 1,75 m. Hennar besti árangur innanhúss er 1,83 m frá því í mars 2024. Þetta var hennar fyrsta mót frá því í ágúst sl., en hún er að koma til baka úr meiðslum.
Auk ofangreinds voru hvorki meira né minna en 347 persónulegar bætingar hjá keppendum.
Frábær árangur á flottu móti! Óskum öllum innilega til hamingju með árangurinn sinn.
Heildarúrslit mótsins er hægt að skoða hér.
Myndir frá mótinu munu koma inn á Flickr síðu FRÍ.