Á Meistaramóti Íslands í eldri aldursflokkum um síðastliðna helgi sást vel að það virðist vera einhver gróska í frjálsíþróttum hjá eldri iðkendum þessa dagana, þar sem metskráining var á mótið og virkilega mikil stemming á vellinum.
En það var ekki bara stemming á vellinum heldur vantaði ekki árangurinn hjá keppendum. Það voru sett hvorki meira né minna en 14 aldursflokkamet á mótinu, í fjölda greina og fjölda aldursflokka.
Fjóla Signý Hannesdóttir (Selfoss) setti aldursflokkamet í flokki 35-39 ára í fimmtarþraut þar sem hún hlaut 2740 stig. Einnig bætti hún aldursflokkametið í 60 m grindahlaupi um tæpa eina og hálfa sekúndu, þegar hún hljóp á 11,17 sek.
Tómas Gunnar Grétarsson (Selfoss) setti aldursflokkamet í flokki 50-54 ára í hástökki þegar hann stökk 1,66 m.
Ólafur Guðmundsson (Selfoss) setti aldursflokkamet í flokki 55-59 ára í þrístökki þegar hann stökk 10,51 m.
Anna Sofia Rappich (UFA) gerði sér lítið fyrir og setti þrjú aldursflokkamet í flokki 60-64 ára. Hún bætti metið í 60m hlaupi þegar hún hljóp á 8,96 sek, í stangarstökki þar sem hún stökk 2,10 og í langstökki þar sem hún stökk 4,26 m.
Agnar Steinarsson (ÍR) bætti aldursflokkametið í flokki 60-64 ára í langstökki um tæpan hálfan meter þegar hann stökk 5,12 m. Hann setti einnig aldursflokkamet í hástökki þar sem hann stökk 1,55 m.
Hafsteinn Óskarsson (ÍR) stórbætti aldursflokkametin í flokki 65-69 ára í 800 m hlaupi og 3000 m hlaupi. Hann bætti aldursflokkametið í 800 m hlaupi um rúma hálfa mínútu þegar hann hljóp á 2:27,44 og í 3000 m hlaupi um tæpa eina og hálfa mínútu þar sem hann hljóp á 11:08,77.
Sigurður Konráðsson (FH) bætti aldursflokkametið í flokki 70-74 ára í 400 m hlaupi þegar hann hljóp á 85,65 sek.
Halldór Matthíasson (Ármann) setti aldursflokkamet í flokki 75-79 ára í 60 m grindahlaupi þegar hann hljóp á 16,11 sek. Hann setti einnig aldursflokkamet í stangarstökki þegar hann stökk 2,00 m.
Fríða María Ástvaldsdóttir (ÍR) bætti aldursflokkametið í flokki 75-79 ára í kúluvarpi um hvorki meira né minna en tæpa fjóra metra þegar hún kastaði 7,08 m.
Svo er gaman að segja frá því að á mótinu núna fékkst í fyrsta sinn staðfestur árangur í boðhlaupi innanhúss í flokkum 30 ára og eldri.
Frábær árangur og ekki leiðinlegt að vera að bæta met langt fram eftir aldri, en þetta sýnir sannarlega að frjálsar eru fyrir alla og ekki þarf að láta aldurinn stoppa sig í að iðka og keppa í frjálsíþróttum.
Eins og komið hefur fram var FH stigahæst félaganna. En FH er eitt þeirra frjálsíþróttaliða sem býður upp á fullorðinsfrjálsar og hefur verið mikil stemming í æfingahópnum undanfarna mánuði og sýndi það sig og sannaði um helgina þar sem þau fjölmenntu á mótið og unnu stigakeppnina með yfirburðum. Hérna má sjá allskyns upplýsingar um iðkun og keppni frjálsíþrótta fyrir iðkendur 30 ára og eldri.
Stigahæsta afrek kvenna á mótinu vann Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR), 54 ára, með 995 mastersstig fyrir tímann 11:15,10 í 3000 m hlaupi. Stigahæsta afrek karla vann Agnar Steinarsson (ÍR), 60 ára, með 943 mastersstig fyrir 5,12 m í langstökki.
Masterstigin eiga að vera samanburðarhæf við WA stigin í einstökum greinum eftir að búið er að margfalda mastersárangurinn með þar til gerðum breytistuðlum sem útgefnir eru af WMA og miðast við hvert aldursár. Ef mastersiðkandi heldur svipaðri mastersstigatölu í sinni grein milli ára eða áratuga má segja að viðkomandi sé að ná jafn góðum árangri að teknu tilliti til aldurs, þ.e. að þó að stökkvegalengd styttist eða hlaupatími lengist skal eingöngu rekja það hærri aldurs en ekki lakara keppnisforms.
Eins og við segjum stundum þá eru frjálsar fyrir alla og það sýndi sig um helgina þegar keppendur á öllum aldri komu saman og kepptu í hinum ýmsum greinum frjálsíþróttanna. Eins var virkilega gaman að sjá gamlar kempur mæta aftur á völlinn og taka þátt í allskyns greinum, því mastersmótið er nefnilega tilvalið til að sækja sér árangur í nýjum greinum.
Vonandi er þessi gróska og stemming komin til að vera í masters frjálsum og verður gaman að fylgjast með næstu misserin.