Evrópumeistaramótið í Apeldoorn
Það fór örugglega ekki framhjá neinum frjálsíþróttaunnanda að Evrópumeistaramótið innanhúss fór fram dagana 6.-9. mars sl. Þar áttum við Íslendingar þrjá flotta fulltrúa.
Það var Daníel Ingi Egilsson sem hóf keppni strax á fimmtudagskvöldinu, 6. mars, þegar forkeppnin í langstökkinu fór fram. Hann átti ágætis stökkseríu þar sem hann gerði öll stökk sín gild og bætt sig í hverju stökki. Niðurstaðan hjá Daníel Inga að þessu sinni var 16. sæti með stökk upp á 7,40 m. Þetta er næstlengsta stökk hans innanhúss.
Næst var það Erna Sóley Gunnarsdóttir, en hún keppti í forkeppni kúluvarpsins á laugardagsmorgninum, 8. mars. Erna Sóley náði sér því miður ekki á strik á mótinu og endaði hún einnig í 16. sæti með kast upp á 16,74 m.
Síðastur af íslensku keppendunum til að stíga inn á völlinn var Baldvin Þór Magnússon, en hann keppti í unanriðlum 3000 m hlaupsins í hádeginu á laugardag, 8. mars. Baldvi Þór fór mjög sterkur af stað og leiddi hlaupið framan af en það tók of mikið úr honum og endaði hann níundi í sínum riðli á tímanum 7:58,56 mín.
Þó svo að íslensku keppendurnir hafi ekki náð sér á strik á þessu Evrópumeistaramóti þá er þetta samt flott reynsla fyrir þau öll og þau vita vel að þau eiga mikið inni og það verður gaman að sjá þau spreyta sig á komandi utanhússtímabili.
Embla Margrét hljóp mílu á móti í Bandaríkjunum
Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) keppti á Southland Conference Indoor Championships sl. mánudag, 3. mars, og keppti þar í míluhlaupi. Hún endaði í 6. sæti í heildina á tímanum 5:01,74 mín, sem er 9. besti tíminn í mílu hjá íslenskri konu.
Hvað er framundan?
Helgina 15.-16. mars er komið að Vetrarkastmótinu (e. European Throwing Cup), en það fer fram í Nicosia á Kýpur. En á því móti er keppt bæði í flokki fullorðinna sem og U23. Nánari frétt um Vetrarkastmótið og íslensku keppendurnar kemur þegar nær líður að mótinu.
Laugardaginn 15. mars fara Héraðsleikar HSK fram í Lindexhöllinni á Selossi en þeir eru fyrir krakka á aldrinum 7-10 ára, sem eru félagar í aðildarfélögum HSK, og hefst mótið kl. 11:00.
Sama dag, laugardaginn 15. mars, fer Héraðsmót HSK fram í Lindexhöllinni á Selfossi. Mótið er fyrir félaga í aðildarfélögum HSK og hefst mótið kl. 13:30.