Þá hefur Baldvin Þór Magnússon einnig lokið keppni á Evrópumeistarmótinu í Apeldoorn en hann keppti í undanriðlum 3000 m hlaupsins núna um hádegisbil. Hann var í seinni riðli hlaupsins og hljóp þar m.a. með heimsmethafanum í greininni, Norðmanninum Jakob Ingebrigtsen.
Baldvin leiddi hlaupið framan af en náði ekki alveg að halda sig með fremstu mönnum og endaði í 9. sæti í sínum riðli á tímanum 7:58,56 mín.
Ekki sá árangur sem Baldvin Þór var að vonast eftir en samt sem áður stórmótareynsla sem fer beint í reynslubankann góða.
En hvað hefur Baldvin að segja um hlaup dagsins?
“Reynslunni ríkari, hefði vilja útfæra hlaupið öðruvísi en læri af því. Formið er gott og heilsan góð, mjög spenntur fyrir utanhúss til að halda þessu gangandi og mæta á fleiri stórmót í framtíðinni”.
Óskum Baldvini Þór samt sem áður til hamingju með hlaupið sitt og við vitum að hann á nóg inni.
Látum nokkrar myndir úr hlaupinu fylgja hérna með.



