Fyrri dagur Meistaramóts Íslands

Fyrri degi Meistaramóts Íslands í Laugardalnum er lokið. Nítjan keppnisgreinar fóru fram á fyrri keppnisdegi og voru margir að setja persónuleg met. FH hefur fengið flest gullverðlaun eða níu talsins og ÍR næstflest með fimm. ÍR leiðir hinsvegar stigastöðuna með 39 stig, einu stigi meira en FH.

Erna með sigur í kúluvarpi

Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, sigraði í kúluvarpi með 15,68 metra kast. Erna á best 16,13 metra og er í öðru sæti íslenska afrekalistans. Í öðru sæti var Thelma Lind Kristjáns­dótt­ir, ÍR, sem kastaði 12,70 metra og þriðja var María Rún Gunn­laugs­dótt­ir, FH, með 11,52 metra kast.

Hjá körlunum sigraði Guðni Valur Guðnason, ÍR, með 17,09 metra kasti. Guðni Valur er fyrst og fremst kringlukastari en er einnig góður í kúluvarpi. Besti árangur Guðna er 17,37 metrar og er hann ellefti besti kúluvarpari Íslands frá upphafi.

FH-ingar sterkir í spretthlaupunum

Í 100 metra hlaupinu fengu FH-ingar gull og silfur bæði í karla- og kvennaflokki. Í karlaflokki þjófstartaði Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS og var dæmdur úr leik. Því háðu FH-ingarnir Ari Bragi Kárason og Kolbeinn Höður Gunnarsson mikla báráttu sem endaði með naumum sigri Ara Braga. Ari kom í mark á 10,76 sekúndum og Kolbeinn 10,78 sekúndum. Meðvindur í hlaupinu var 0,8 m/s. Þeir munu mætast aftur á morgun í 200 metra hlaupinu. Kolbeinn Höður á Íslandsmetið í 200 metra hlaupi en Ari Bragi á metið í 100 metrum.

Í kvenna­flokki fékk Dórót­hea Jó­hann­es­dótt­ir, FH gull þegar hún kom í mark á 11,98 sek­únd­um. Það er hennar besti tími í grein­inni og var hún að hlaupa undir 12 sekúndum í fyrsta skipti í löglegum vind. Andrea Torfa­dótt­ir úr FH var önn­ur á 12,14 sek­únd­um sem er jöfnun á hennar besta tíma. Í þriðja sæti varð Agnes Kristjáns­dótt­ir, ÍR á 12,19 sek­únd­um og var hún að bæta sinn besta árangur um tæpa hálfa sekúndu. Meðvindur í hlaupinu var rétt undir löglegum mörkum eða 1,9 m/s.

Í 400 metra hlaupinu sigruðu tvíburarnir úr FH, Hinrik Snær Steinsson og Þórdís Eva Steinsdóttir. Hinrik kom í mark á 48,33 sekúndum sem er hans besti árangur. Annar varð Trausti Stefánsson, FH, á 49,58 sekúndum og þriðji Bjarni Ant­on Theó­dórs­son, Fjölni, á 50,82 sek­únd­um.

Þórdís Eva kom í mark á 56,82 sekúndum. Ingi­björg Sig­urðardótt­ir, ÍR, var önn­ur á 58,18 sek­únd­um og þriðja var Katla Rut Roberts­dótt­ir Klu­vers, Breiðablik, á 58,31 sek­únd­um. Þórdís Eva er á leið á EM U20 í næstu viku þar sem hún mun keppa í 400 metra hlaupi.

Í 4×100 metra boðhlaupi hélt sigurganga FH áfram og fengu gull í kvenna- og karlaflokki. Sveit FH skipuðu Andrea Torfadóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir, Melkorka Rán Hafliðadóttir og Dóróthea Jóhannesdóttir. Tími þeirra var 47,66 sekúndur.

Sveit FH í karlaflokki skipuðu Kormákur Ari Hafliðason, Trausti Stefánsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason. Tími þeirra var 41,55 sekúndur. Með þessum gullverðlaunum var Trausti að vinna sinn tuttugasta Íslandsmeistaratitil.

María Rún með tvö gullverðlaun

Fjölþrautarkonan María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH heldur áfram að safna sér inn verðlaunum en um síðustu helgi keppti hún á Evrópubikar í fjölþrautum þar sem hún fékk brons. Í dag fékk hún tvö gull og silfur. Gullin fékk hún í spjótkasti þar sem hún kastaði 40,97 metra og í 100 metra grindarhlaupi þar sem hún hljóp á 14,00 sekúndum. Það er hennar besti árangur í greininni en meðvindur var 2,3 m/s sem er yfir löglegum mörkum. Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, var einnig að hlaupa vel en hún kom í mark á 14,12 sekúndum. Sá tími er undir aldursflokkameti 16-17 ára og 18-19 ára en Glódís fær ekki skráð á sig met þar sem meðvindurinn var of mikill.

Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni varð Íslandsmeistari í hástökki annað árið í röð þegar hann stökk yfir 1,99 metra. Kristján á best 2,02 metra en hann er sá yngsti í frá upphafi til þess að stökkva yfir 2 metra. Það gerði hann fjórtán ára gamall, árið 2017.

Í 110 metra grinda­hlaupi karla kom Ísak Óli Trausta­son, UMSS fyrstur í mark á 15,14 sek­únd­um. Í 1500 metra hlaupinu sigruðu Sæmundur Ólafsson, ÍR, á 4:04,82 mínútum og Sólrún Soffía Arnardóttir, FH, á 4:53,39 mínútum. Hulda Þorsteinsdóttir, ÍR var að koma til baka eftir meiðsli og sigraði í stangarstökki með því að fara yfir 3,70 metra.

Stigahæsta afrek dagsins í kvennaflokki miðað við löglegar aðstæður átti Dóróthea Jóhannesdóttir. Hún hljóp 100 metrana á 11,98 sekúndum sem gera 995 stig. Í karlaflokki var það Hinrik Snær sem fékk 960 stig fyrir 48,33 sekúndur í 400 metra hlaupi. Ef miðað er við allar aðstæðu þá hlaut María Rún 1018 stig fyrir grindarhlaupið og Glódís Edda 1003.

Öll úrslit dagsins má sjá hér. Keppni hefst aftur á morgun klukkan 11:30 með undanrásum í 200 metra hlaupi kvenna.