Frjálsíþróttahluti Reykjavíkurleikanna fór fram í Laugardalshöllinni í gærkvöldi, mánudagskvöldið 27. janúar. Mikil gleði ríkti á vellinum og ekki síður í fullum áhorfendastúkunum, en fjöldi fólks var mættur á svæðið til að hvetja áfram okkar allra besta frjálsíþróttafólk.
Meðal áhorfenda var stór hópur af landsliðsfólki Íslands í frjálsíþróttum sem keppti með landsliðinu á síðustu öld og var virkilega gaman að sjá þann flotta hóp koma saman og rifja upp gamla tíma og hvetja áfram núverandi afreksfólk landsins.
Frábær árangur náðist í mörgum greinum og persónulegar bætingar voru 43, greinilegt að mörg eru í hörkuformi og frábært að ná þessum góða árangri á móti eins og RIG þar sem besta frjálsíþróttafólk hverrar greinar etja kappi.
En hápunktur mótsins í ár, líkt og í fyrra, var að sjálfsögðu glæsilegt Íslandsmet Baldvins Þórs Magnússonar (UFA), en hann bætti eigið Íslandsmet í 1500 m um tæpa eina og hálfa sekúndu þegar hann kom fyrstur í mark á tímanum 3:39,67. Glæsilegur árangur hjá Baldvini, en það eru ekki nema rétt rúm vika síðan hann bætti Íslandsmetið í 3000 m hlaupi. Annar í 1500 m hlaupinu var Englendingurinn Thomas Bridger á 3:40,15 sem er hans besti tími og þriðji, einnig á persónulegu meti, var Englendingurinn William Sean Rabjohns á tímanum 3:48,03.
Í 1500 m hlaupi kvenna var það Englendingurinn Eleanor Strevens sem kom fyrst í mark á tímanum 4:19,21, önnur var Aníta Hinriksdóttir (FH) á 4:21,02 og þriðja var Íris Anna Skúladóttir (FH) á 4:43,57.
Í 60 m hlaupi karla var það Englendingurinn Dylan Williams sem kom fyrstur í mark á nýju persónulegu meti, 6,87 sek, og stuttu á eftir honum komu í mark félagarnir úr FH Kolbeinn Höður Gunnarsson og Gylfi Ingvar Gylfason á tímunum 6,91 sek og 6,95 sek.
Í 60 m hlaupi kvenna sigruðu Englendingar einnig, en það var Jasmine Wilkins sem kom fyrst í mark á nýju persónulegu meti, 7,47 sek. Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) varð önnur, einnig á persónulegu meti, á tímanum 7,57 sek og þriðja var María Helga Högnadóttir (FH) á 7,62 sek.
Sæmundur Ólafsson (ÍR) sigraði 400 m hlaup karla á tímanum 49,15 sek, annar var Englendingurinn Oliver James Parker á 49,58 sek og þriðji var Ívar Kristinn Jasonarson (ÍR) á 49,69 sek.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) setti annað persónulegt met sitt á mótinu þegar hún hljóp frábært 400 m hlaup á tímanum 54,70 sek og bætti sig þar með um tæpa sekúndu. Önnur var Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) en hún hljóp á 54,92 sek og þriðja var Arabella Wilson frá Englandi á tímanum 55,64 sek.
Í hástökki kvenna sigraði Dahlia Corp frá Englandi, á nýju persónulegu meti, en hún stökk 1,73 m, önnur var Marsibil Þóra Í Hafsteinsdóttir (FH) sem stökk 1,63 m og þriðja var Guðrún Hanna Hjartardóttir (UFA) sem stökk 1,60 m.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) sigraði kúluvarp kvenna með miklum yfirburðum en hún kastaði lengst 17,35 m. Í öðru og þriðja sæti, báðar á persónulegu meti, voru þær Hekla Magnúsdóttir (ÍR) og María Helga Högnadóttir (FH) en þær köstuðu 13,46 m og 12,46 m.
Í langstökki karla sigraði Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) en hann stökk 6,97 m, annar var Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson (Fjölnir) með stökk upp á 6,57 m og þriðji var Tobías Þórarinn Matharel (UFA) með stökkk upp á 6,31 m.
Í langstökki kvenna var það Molly Ruth Palmer frá Englandi sem sigraði en hún stökk 6,47 m, önnur var Irma Gunnarsdóttir (FH) með stökk upp á 6,07 m og í þriðja sæti var Christina Alba Marcus Hafliðadóttir (Fjölni) með stökk upp á 5,55 m.
Ísak Óli Traustason (UMSS) sigraði í kúluvarpi karla með kast upp á 14,01 m. Í kúluvarpi pilta 16-17 ára, með 5 kg kúlu, sigraði Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) á nýju persónulegu meti þegar hann kastaði 17,05 m, annar var Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (Selfoss) með kast upp á 14,96 m og þriðji var Garðar Atli Gestsson (UFA) sem kastaði 13,05 m.
Í 60 m hlaupi drengja 16 ára og yngri var það Sigurður Ari Orrason (ÍR) sem sigraði en hann hljóp á 7,61 sek, annar var Dagur Pálmi Ingólfsson (UFA) sem hljóp á 7,86 sek og þriðji var Sigmar Kári Gunnarsson Kaldal (ÍR) sem hljóp á 7,90 sek.
Í 60 m hlaupi stúlkna 16 ára og yngri sigraði Bryndís María Jónsdóttir (ÍR) á tímanum 8,16 sek, önnur var Anna Metta Óskarsdóttir (Selfoss) á tímanum 8,41 sek og þriðja, á nýju persónulegu meti, var Eyrún Svala Gustavsdóttir (Breiðablik) á tímanum 8,44 sek.
Í 800 m hlaupi drengja 18 ára og yngri kom Patrekur Ómar Haraldsson (Breiðablik) fyrstur í mark á tímanum 2:00,83, sem er persónuleg bæting um tæpar fjórar sekúndur. Annar var Hilmar Ingi Bernharðsson (ÍR) á tímanum 2:03,83 og þriðji var Hrafnkell Viðarsson (ÍR) á tímanum 2:08,10.
Í 800 m hlaupi stúlkna 18 ára og yngri kom Helga Lilja MAack (ÍR) fyrst í mark á tímanum 2:21,43, önnur, á persónulegu meti, var Eyrún Svala Gustavsdóttir (Breiðablik) á tímanum 2:28,67 og þriðja, einnig á persónulegu meti, var Áshildur Jökla Ragnarsdóttir (FH) á tímanum 2:31,83.
Stigahæstu íslensku keppendurnir voru 1500 m hlaupararnir Baldvin Þór Magnússon (UFA) og Aníta Hinriksdóttir (FH). Baldvin hlaut 1161 stig fyrir sitt hlaup og Aníta 1062 stig fyrir sitt.
Við óskum keppendum til hamingju með þennan flotta árangur og eins þökkum við öllum sem komu að framkvæmd mótsins innilega fyrir, svona mót gerist ekki að sjálfu sér og komu mjög margar hendur að þessu og gekk framkvæmdin mjög vel. Eins sendum við innilega þakkir til styrktaraðila FRÍ sem og til styrktaraðila mótsins.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.
Myndir af mótinu má sjá hér.