Um síðustu helgi tvíbætti Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir eigið Íslandsmet í lóðkasti á bandaríska innanhúss háskólameistaramótinu (e. NCAA Indoors Championship). Hún bætti það fyrst í sínu öðru kasti þegar hún kastaði 22,83 m og bætti eldra Íslandsmet um 39 cm, en eldra met hennar var 22,44 m frá því í byrjun febrúar 2024. En hún lét sér það ekki nægja og náði risakasti í síðustu umferðinni þegar hún kastði 23,18 m og bætti Íslandsmetið aftur og tryggði sér annað sætið á mótinu.
En auk þess að vera á svaka siglingu í lóðkastinu þá er Guðrún Karítas einnig einn af okkar allra bestu sleggjukösturum og átti hún m.a. Íslandsmetið í sleggjukasti í nokkrar mínútur í fyrra, en hún og Elísabet Rut Rúnarsdóttir áttu í ótrúlega spennandi rimmu á Bobcat Invitational í Texas í lok mars í fyrra. Elísabet Rut var ríkjandi Íslandsmethafi, 69,11 m, en Guðrún Karítas bætti metið hennar í fjórðu umferð þegar hún kastaði 69,76 m, sem er besti árangur Guðrúnar Karítasar í dag, en í sjöttu umferð kastaði Elísabet 70,33 m og endurheimti metið. En þær stöllur voru meðal átta íslenskra keppenda á Evrópurmeistaramótinu í Róm í fyrrasumar. Ekkert smá gaman að sjá þennan frábæra árangur í sleggjukasti hjá þessum frábæru íþróttakonum.

Guðrún Karítas er að æfa og læra líffræði við Virginia Commonwealth University (VCU) í Virginía í Bandaríkjunum og stefnir á útskrift núna í vor. Við ákváðum að heyra í henni og spyrja hana aðeins út í þennan frábæra árangur, háskólalífið í Bandaríkjunum og hvað sé framundan hjá henni.
Til hamingju með frábæran árangur á NCAA um síðustu helgi, Íslandsmet og silfurverðlaun! Hvernig er líðanin?
„Ég er bara alveg ótrúlega ánægð og stolt af sjálfri mér. Það er svo ótrúlega gaman þegar bara eiginlega allt gengur upp á réttum tíma eftir alla vinnuna sem maður leggur inn. Mikilvægt að njóta þess í botn. Það voru alveg allskonar tilfinningar í gangi, þetta var síðasta mótið mitt í lóðinu innan NCAA allavegana, sem er pínu skrítið en ég myndi segja að þetta hafi verið ágæt leið til að enda þennan kafla.“

Fyrir þau sem ekki vita, hvað er NCAA og hversu stórt er þetta mót þarna úti?
„NCAA er kerfið utan um háskóla íþróttirnar hérna í Bandaríkjunum. Þetta mót myndi ég segja að væri alveg ansi stórt það er mikið af alveg ótrúlega flottu íþróttafólki hérna og 16 efstu í landinu sem komast inn í hverri grein.“
Hvernig ertu að fíla bandaríska háskólalífið?
„Sko bandaríska háskóla lífið hjá mér er nú mest bara skóli og æfingar og allt sem fylgir því. Það er alveg allskonar í boði og mikið í gangi en ég er svona meira í því að nýta það sem ég fæ aðgang að frá skólanum og liðinu í tengslum við íþróttirnar. Þann part fíla ég vel.“
Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?
„Hefðbundinn dagur hjá mér er aðallega bara hlaup á milli tíma og æfinga. Flesta daga er ég í tíma, hleypt á æfingu, hleyp aftur í tíma og svo a lyftingaræfingu og svo í treatment í lok dags. Það er nóg að gera.“
Hvað er svo framundan?
„Framundan er pínu óvissa. Er á redshirts hérna úti á utanhússtímabilinu sem þýðir að ég er ekki að fara að keppa fyrir skólann. Svo nú er bara planið að fara að koma sér á einhver mót, ná inn einhverjum köstum og byrja tímabilið og bara sjá hvað gerist.“
