VIKAN: Enn eitt Íslandsmetið, Íslendingar á palli á NM, mikið fjör á MÍ 11-14 ára og aldursflokkamet

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: Enn eitt Íslandsmetið, Íslendingar á palli á NM, mikið fjör á MÍ 11-14 ára og aldursflokkamet

Enn ein frábæra frjálsíþróttavikan að baki.

Norðurlandameistaramótið innanhúss í Espoo í Finnlandi

Norðurlandameistaramótið í frjálsíþróttum fór fram í Espoo í Finnlandi sunnudaginn 9. febrúar og tefldi Ísland fram sameiginlegu liði með Danmörku gegn liðum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi.

Hápunktur mótsins fyrir okkur Íslendingana var án efa glæsilegt 3000 m hlaup Baldvins Þórs Magnússon (UFA), þar sem hann bætti eigið Íslandsmet um rúmar 5 sekúndur og kom í mark á tímanum 7:39,94. Hann sigraði hlaupið og hlaut því Norðurlandameistaratitil, en þetta var alveg virkilega spennandi hlaup og kom Baldvin í mark aðeins þremur sekúndubrotum á undan Norðmanninum Filip Ingebrigtsen, sem var annar í hlaupinu.

Íslendingar unnu til þrennra verðlauna auk gullverðlauna Baldurs. Erna Sóley Gunnardóttir (ÍR) vann silfurverðlaun í kúluvarpi með kasti upp á 17,63 m, Irma Gunnarsdóttir (FH) vann til bronsverðlauna í langstökki með stökki upp á 6,24 m og Aníta Hinriksdóttir (FH) vann til bronsverðlauna í 800 m hlaupi en hún hljóp á 2:03,71.

Meistaramót Íslands 11-14 ára

Mikið fjör var í Kaplakrika helgina 8.-9. febrúar, þar sem Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram. Þar réð gleðin ríkjum og var virkilega gaman að sjá hversu mörg tóku þátt í mótinu í ár. Góður árangur náðist á mótinu og var þvílíkur fjöldi persónulegrar meta settur. Einnig voru sett tvö mótsmet, Daníel Már Ólafsson (HHF) bætti mótsmetið í þrístökki pilta 13 ára þegar hann stökk 9,85 og Sigurður Ari Orrason bætti mótsmetið í 60 m hlaupi þegar hann hljóp á 7,61 sek.

Það voru ÍR-ingar sem sigruðu heildarstigakeppnina en þau hlutu 505 stig, í öðru sæti urðu FH-ingar með 459,5 stig og í þriðja sæti Ármenningar með 411,5 stig.

Júlía Kristín með frábæran árangur í fimmtarþraut um helgina

Júlía Kristín Jóhannesdóttir átti heldur betur góða fimmtarþraut á föstudaginn sl., 7. febrúar, en þá keppti hún á Charlie Thomas Invitational í Texas. Ekki nóg með að hún bætti sinn persónulega árangur í öllum greinum þrautarinnar, þá bætti hún vikugamalt aldursflokkamet sitt í 60 m grindarhlaupi þegar hún hljóp á 8,48 sek, en eldra metið var 8,55 sek. Frábært hjá henni Júlíu Kristínu!

Úrslit mótsins má sjá hér.

Hvað er framundan?

Norðurlandameistaramótið í eldri aldursflokkum fer fram dagana 14.-16. febrúar í Osló í Noregi. Það verður gaman að fylgjast með frjálsíþróttakempunum sem taka þátt þar, enda mikil gróska í fullorðinsfrjálsum eins og sjá mátti á Meistaramóti Íslands í eldri aldursflokkum sem fram fór í byrjun árs.

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram í Laugardalshöll helgina 15.-16. febrúar.

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: Enn eitt Íslandsmetið, Íslendingar á palli á NM, mikið fjör á MÍ 11-14 ára og aldursflokkamet

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit