VIKAN: ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára, fjöldi Norðurlandameistaratitla hjá eldri frjálsíþróttaiðkendum og Júlía Kristín með enn eina bætinguna í grindahlaupi

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára, fjöldi Norðurlandameistaratitla hjá eldri frjálsíþróttaiðkendum og Júlía Kristín með enn eina bætinguna í grindahlaupi

Ekki vantaði lífið og fjörið í frjálsíþróttirnar í liðinni viku. Allur aldur keppti hér heima sem og erlendis.

Meistaramót Íslands 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram í Laugardalshöllinni um helgina. Það var flott þátttaka á mótinu og ekki lét árangurinn á sér standa. Það voru sett 10 mótsmet, eitt aldursflokkamet og rétt tæplega 350 persónulegar bætingar.

Það voru ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppni félagsliða og hlutu þau 353,5 stig, FH-ingar urðu í öðru sæti með 299 stig og HSK/SELFOSS í því þriðja með 238 stig.

Stigahæsta afrek mótsins átti Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) en hún hlaut 1083 stig fyrir að hlaupa 200 m á 24,00 sek, sem var einnig persónuleg bæting hjá henni.

Myndir frá mótinu má sjá á Flickr síðu FRÍ.

Norðurlandameistaramótið í eldri aldursflokkum

Norðurlandameistaramótið í eldri aldursflokkum fór fram í Noregi um helgina og þar stóðu íslensku keppendurnir sig heldur betur frábærlega. Ísland eignaðist hvorki fleiri né færri en 12 Norðurlandameistara, auk þess fengu þau sjö silfuverðlaun og fern bronsverðlaun.  Það voru átta persónulegar bætingar hjá þeim, eitt Norðurlandamet og 11 aldursflokkamet.

Júlía Kristín heldur áfram að bæta sig í grindinni

Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) heldur áfram að bæta sig í 60 m grindahlaupi þriðju helgina í röð, en hún keppti á Jarvis Scott Invite í Texas um helgina. Í undanrásum hljóp hún á 8,53 sek, í undanúrslitum hljóp hún á nýju aldursflokkameti í flokki U23 þegar hún hljóp á 8,45 sek og bætti þar með vikugamalt met sitt um þrjú sekúndubrot, í úrslitahlaupinu hljóp hún svo á 8,55 sek.

Auk þess keppti Júlía í langstökk á mótinu og stökk þar 5,77 m sem er aðeins 1 cm frá hennar besta árangri frá því um síðustu helgi.

Júlía Kristín greinilega á svaka siglingu þessa dagana.

Guðrún Karítas með flott lóðkast

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) keppti í lóðkasti um helgina á Darius Dixon Memorial Invitational í Virginía í Bandríkjunum. Hún gerði sér lítið fyrir og setti mótsmet og vallarmet með kasti upp á 22,32 m. Guðrún Karítas á Íslandsmetið í lóðkasti sem er 22,44 m frá því í febrúar 2024.

Hvað er framundan?

Um næstu helgi, 22.-23. febrúar, er einn af hápunktum innanhússtímabilsins þegar Meistaramót Íslands fer fram í Laugardalshöllinni.

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára, fjöldi Norðurlandameistaratitla hjá eldri frjálsíþróttaiðkendum og Júlía Kristín með enn eina bætinguna í grindahlaupi

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit