Frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna hefur verið virkilega skemmtileg hingað til og íslensku frjálsíþróttakeppendurnir staðið sig ofsalega vel, sjá meira um það hér og hér. Núna er svo komið að síðasta keppnisdeginum og stefnir í mjög skemmtilegan og góðan dag á vellinum.
Fyrstu greinar dagsins eru úrslitahlaupin í 400 m grindahlaupi karla og kvenna, og auðvitað er okkar fólk þar á meðal keppenda. Ívar Kristinn Jasonarson var með besta tímann inn í úrslitin, en hann hljóp á 52,45 sek, en besti tími Ívars í greininni er 51,43 frá því sumarið 2023. Ingibjörg Sigurðardóttir var með þriðja besta tímann inn í úrslitin en hún hljóp á 60,87 sek í undanriðlunum, en besti tími Ingibjargar er 59,48 sek frá því um miðjan júlí sl. Úrslitahlaupin eru kl. 10:30 hjá körlunum og 10:45 hjá konunum.
Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson mætir aftur á stökkbrautina þegar þrístökk karla fer fram kl. 10:40. Guðjón hefur lengst stokkið 14,47 m en hann gerði það í ágúst sl.
Klukkan 11:00 hefst 10.000 m hlaup karla og þar mætir Hlynur Andrésson á brautina en besti tíminn hans í greininni er 28:36,80 mín frá sumrinu 2021.
Næst er komið að reynsluboltanum og kempunni miklu, Erni Davíðssyni, en hann er meðal keppenda í spjótkasti karla sem hefst klukkan 11:30. Hans besti árangur er frá sumrinu 2012 en þá kastaði hann 75,96 m.
Það verða tveir íslenskir keppendur í undanrásum 100 m grindahlaups kvenna sem hefst kl. 11:45, það eru þær María Helga Högnadóttir og Ísold Sævarsdóttir. Besti tími Maríu Helgu í greininni er 14,45 sek frá því síðasta sumar og Ísold hefur hlaupið hraðast á 14,62 sek einnig frá síðasta sumri. Úrslitin í 100 m grindahlaupi eru svo klukkan 13:10.
Svo er komið að úrslitunum í 200 hlaupum karla og kvenna og þar eigum við auðvitað okkar flottu fulltrúa. Eir Chang Hlésdóttir var með annan besta tímann inn í úrslitin en hún hljóp á 24,32 sek en hennar besti tími í greininni er 24,30 sek, úrslitahlaup kvenna er klukkan 12:15. Svo eru þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson og Kristófer Þorgrímsson í úrslitum 200 m hlaups karla kl. 12:25. Kolbeinn hljóp á 21,73 sek í undanriðlunum og er það fjórði besti tíminn inn í úrslitin. Besti tími Kolbeins er 20,91 sek frá því í lok maí 2023. Kristófer var með annan besta tímann í undanriðlunum en hann hljóp á 20,63 sek, en besti tími hans er 21,29 sek frá því í ágúst sl.
Íris Anna Skúladóttir hleypur 5000 m hlaup klukkan 12:40, en besti tími hennar í greininni er 17:04,68 mín frá því í lok júlí 2023.
Þorleifur Einar Leifsson hleypur 110 m grindahlaup klukkan 13:25, en þar eru bein úrslit. Besti tími Þorleifs er 15,48 sek frá því sumarið 2023.
Svo endar keppnisdagurinn á boðhlaupsveislu og er Ísland með sveitir í 4×100 m boðhlaupi karla og kvenna og einnig í 4×400 m boðhlaupi karla og kvenna.
4×100 m boðhlaup kvenna byrjar klukkan 13:40 og íslensku sveitina skipa Birna Kristín Kristjánsdóttir, María Helga Högnadóttir, Ísold Sævarsdóttir og Eir Chang Hlésdóttir.
4×100 m boðhlaup karla byrjar klukkan 14:00 og íslensku sveitina skipa Kolbeinn Höður Gunnarsson, Kristófer Þorgrímsson, Ívar Kristinn Jasonarson og Þorleifur Einar Leifsson.
4×400 m boðhlaup kvenna byrjar klukkan 14:30 og íslensku sveitina skipa Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Eir Chang Hlésdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Ísold Sævarsdóttir.
4×400 m boðhlaup karla byrjar klukkan 14:50 og íslensku sveitina skipa Ívar Kristinn Jasonarson, Sæmundur Ólafsson, Fjölnir Brynjarsson og Þorleifur Einar Leifsson.
Við höldum áfram að senda okkar fólki hlýja og góða strauma fyrir komandi keppni og endilega fylgjast með á live stream frá keppninni.
Þau segja að live úrslit eigi að birtast hér, en það þarf að taka því með fyrirvara, virkaði ekki sem skyldi síðustu keppnisdaga.