Flottur fyrsti keppnisdagur í frjálsíþróttum á Smáþjóðaleikunum 2025 – eitt gull og þrjú silfur komin í hús

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Flottur fyrsti keppnisdagur í frjálsíþróttum á Smáþjóðaleikunum 2025 – eitt gull og þrjú silfur komin í hús

Fyrsti keppnisdagur frjálsíþróttanna á Smáþjóðaleikunum var í dag og kláraðist keppnin um hálf tíu í kvöld.

Okkar fólk stóð sig með mikilli prýði og komu heim með ein gullverðlaun, þrenn silfurverðlaun og eitt Íslandsmet, ekki amalegur fyrsti keppnisdagur.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp í undanriðlum 400 m hlaups kvenna og kom í mark á persónulegu meti utanhúss þegar hún hljóp á 55,20 sek. Frábært hlaup hjá Guðbjörgu og var hún örugg inn í úrslit með þriðja besta tímann úr riðlunum tveimur. Úrslitahlaupið fer fram á fimmtudaginn kl. 20:20.

Karen Sif Ársælsdóttir gerði sér lítið fyrir og nældi sér í silfurverðlaun í stangarstökki kvenna þar sem hún stökk 3,70 m, og átti hún mjög flotta stökkseríu þar sem hún fór yfir allar sínar hæðir í fyrstu tilraun. Þessi árangur er aðeins einum sentímetra frá hennar besta árangri utanhúss sem er 3,71 m frá því í júní í fyrra.

Karen Sif ánægð með sig í stangarstökkinu í dag, enda ærin ástæða til þar sem hún endaði í 2. sæti.

Sæmundur Ólafsson hljóp 400 m á 50,26 sek og endaði í 11. sæti í heildina.

María Helga Högnadóttir hljóp vel í undanriðlum 100 m hlaupsins og kom í mark þriðja í sínum riðli á tímanum 12,28 sek og flaug í úrslit. Svo hljóp hún ennþá betur í úrslitahlaupinu og kom í mark á 12,04 sek sem er jöfnun á hennar besta árangri, og endaði í 4. sæti.

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp á 10,92 sek í undanriðlum 100 m hlaupsins og komst í úrslit og í úrslitahlaupinu hljóp hann mjög vel og endaði í öðru sæti á tímanum 10,61 sek.

Kolbeinn Höður einbeittur í 100 m hlaupinu í dag.

Kristófer Þorgrímsson hljóp sig líka inn í úrslitin í 100 m hlaupinu þegar hann hljóp á 10,96 í undanriðlunum. Í úrslitahlaupinu hljóp hann á 10,76 sek og endaði í 6. sæti.

Birna Kristín Kristjánsdóttir vann gullið í langstökki með flottu stökki upp á 6,36 m og þar með fyrstu gullverðlaun Íslendinga í frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna 2025 komin í hús. Til hamingju Birna Kristín!

Birna Kristín í langstökkinu í dag sem hún sigraði og nældi þar með í fyrstu gullverðlaun frjálsíþróttafólks á Smáþjóðaleikunum í ár.

Ísold Sævarsdóttir nældi sér svo í silfrið í langstökkkeppninni með frábæru stökku þar sem hún stökk 5,95 m.

Ísold í langstökkinu, einni af þremur greinum sem hún keppti í í dag.

Fjölnir Brynjarsson endaði í 7. sæti í 800 m hlaupi karla þegar hann kom í mark á tímanum 1:54,11 mín.

Ísold Sævarsdóttir fékk nú ekki langar pásu eftir langstökkið heldur skellti sér beint á spjótkastbrautina þar sme hún keppt í spjótkasti kvenna og þar endaði hún í 5. sæti með kast upp á 37,70 m. En þess má geta að þetta er aðeins í þriðja sinn sem Ísold keppir með 600 g spjótinu.

Lokagrein dagsins var svo 4×400 m blandað boðhlaup og íslensku sveitina skipuðu þau Ívar Kristinn Jasonarson, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sæmundur Ólafsson og Ísold Sævarsdóttir. Þetta var svakalega spennandi boðhlaup og þrátt fyrir svakalegan endasprett Ísoldar þar sem hún skutlaði sér yfir marklínuna þá endaði íslenska sveitin í 4. sæti aðeins 3 sekúndubrotum á eftir sveit Andorra sem lenti í 3. sæti. Þvílík barátta samt hjá þeim! En þetta skilaði sér í nýju Íslandsmeti en sveitin kom í mark á 3:29,19 mín en eldra met var 3:29,99 mín frá því á síðasta Evrópubikar. Glæsilegur árangur hjá flottri sveit.

Heilt yfir mjög flottur dagur á frjálsíþróttavellinum og frábær byrjun á mótinu. Það er ekki keppnisdagur á morgun heldur verður dagurinn nýttur í hvíld og æfingar. Svo mætir þetta frábæra lið okkar aftur á völlinn á fimmtudaginn.

Heildarúrslit dagsins má sjá hér.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Flottur fyrsti keppnisdagur í frjálsíþróttum á Smáþjóðaleikunum 2025 – eitt gull og þrjú silfur komin í hús

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit