Þá eru öll stærstu innanhússmót tímabilsins búin hérna innanlands og það er óhætt að segja að þetta hafi verið frábært innanhússtímabil, en við munum birta samantekt frá þessu frábæra tímabili í næstu viku.
En þessi vika var bara ansi góð þar sem Bikarkeppnir FRÍ standa upp úr.
Bikarkeppni FRÍ
Bikarkeppni FRÍ fór fram á laugardaginn, 1. mars, og var líf og fjör í Kaplakrika eins og alla jafna er á bikar. Það voru FH-ingar sem urðu Bikarmeistarar 2025, og vörðu þar með titil sinn frá því í fyrra. En þetta er fimmta árið í röð sem FH sigrar bikarkeppnina. Til hamingju FH!
Það féll eitt mótsmet á mótinu og var það í kúluvarpi kvenna þar sem Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) sigraði með kasti upp á 17,17 m.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.
Myndir frá mótinu má sjá inn á Flickr síðu FRÍ.
Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri
Bikarkeppni 15 ára og yngri fór einnig fram á laugardaginn og þar voru það ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, en þau urðu einnig bikarmeistarar í fyrra. Til hamingju ÍR!
Það var eitt mótsmet sem féll á mótinu en það var í 300 m hlaupi pilta, þar hljóp Sigurður Ari Orrason á tímanum 38,20 sek, og er það einnig persónuleg bæting hjá honum Sigurði.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.
Myndir frá mótinu má sjá inn á Flickr síðu FRÍ.
Eva María með flott hástökk í Bandaríkjunum
Eva María Baldursdóttir (Selfoss) keppti íhástökki á ACC Indoor Championship í Louisville í Kentucky í gær, 2. mars og endaði þar í 4. sæti með stökk upp á 1,80 m sem er jöfnun á hennar besta árangri innanhúss. Flott hjá henni Evu Maríu.
Evrópumeistaramótið innanhúss hefst í vikunni
Þá er EM vikan runnin upp og frjálsíþróttaunnendur geta farið að láta sig hlakka til komandi daga. Eins og áður hefur komið fram þá verða þrír íslenskir keppendur á EM í ár, Daníel Ingi Egilsson (FH) keppir í langstökki, Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppir í kúluvarpi og Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppir í 3000 m hlaupi. Næstu daga mun koma ítarlegri umfjöllun um þátttöku þeirra á mótinu ásamt stuttum viðtölum við þau.
Hægt er að sjá frétt um tímasetningar greina íslensku keppendanna hér.
Sýnt verður frá EM á RÚV á eftirfarandi tímum:
Fimmtudagur 6. mars – kl. 18:00 á ruv.is og kl. 22:25 á RÚV2
Föstudagur 7. mars – kl. 17:45 á ruv.is og kl. 22:25 á RÚV2
Laugardagur 8. mars – kl. 09:45 á RÚV og kl. 17:35 á RÚV2
Sunnudagur 9. mars – kl. 15:00 á RÚV
Sjá nánar á viðburðadagatali RÚV.