VIKAN: FH-ingar bikarmeistarar, ÍR-ingar bikarmeistarar 15 ára og yngri og EM vikan runnin upp

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: FH-ingar bikarmeistarar, ÍR-ingar bikarmeistarar 15 ára og yngri og EM vikan runnin upp

Þá eru öll stærstu innanhússmót tímabilsins búin hérna innanlands og það er óhætt að segja að þetta hafi verið frábært innanhússtímabil, en við munum birta samantekt frá þessu frábæra tímabili í næstu viku.

En þessi vika var bara ansi góð þar sem Bikarkeppnir FRÍ standa upp úr.

Bikarkeppni FRÍ

Bikarkeppni FRÍ fór fram á laugardaginn, 1. mars, og var líf og fjör í Kaplakrika eins og alla jafna er á bikar. Það voru FH-ingar sem urðu Bikarmeistarar 2025, og vörðu þar með titil sinn frá því í fyrra. En þetta er fimmta árið í röð sem FH sigrar bikarkeppnina. Til hamingju FH!

Það féll eitt mótsmet á mótinu og var það í kúluvarpi kvenna þar sem Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) sigraði með kasti upp á 17,17 m.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Myndir frá mótinu má sjá inn á Flickr síðu FRÍ.

Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri

Bikarkeppni 15 ára og yngri fór einnig fram á laugardaginn og þar voru það ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, en þau urðu einnig bikarmeistarar í fyrra. Til hamingju ÍR!

Það var eitt mótsmet sem féll á mótinu en það var í 300 m hlaupi pilta, þar hljóp Sigurður Ari Orrason á tímanum 38,20 sek, og er það einnig persónuleg bæting hjá honum Sigurði.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Myndir frá mótinu má sjá inn á Flickr síðu FRÍ.

Eva María með flott hástökk í Bandaríkjunum

Eva María Baldursdóttir (Selfoss) keppti íhástökki á ACC Indoor Championship í Louisville í Kentucky í gær, 2. mars og endaði þar í 4. sæti með stökk upp á 1,80 m sem er jöfnun á hennar besta árangri innanhúss. Flott hjá henni Evu Maríu.

Evrópumeistaramótið innanhúss hefst í vikunni

Þá er EM vikan runnin upp og frjálsíþróttaunnendur geta farið að láta sig hlakka til komandi daga. Eins og áður hefur komið fram þá verða þrír íslenskir keppendur á EM í ár, Daníel Ingi Egilsson (FH) keppir í langstökki, Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppir í kúluvarpi og Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppir í 3000 m hlaupi. Næstu daga mun koma ítarlegri umfjöllun um þátttöku þeirra á mótinu ásamt stuttum viðtölum við þau.

Hægt er að sjá frétt um tímasetningar greina íslensku keppendanna hér.

Sýnt verður frá EM á RÚV á eftirfarandi tímum:

Fimmtudagur 6. mars – kl. 18:00 á ruv.is og kl. 22:25 á RÚV2

Föstudagur 7. mars – kl. 17:45 á ruv.is og kl. 22:25 á RÚV2

Laugardagur 8. mars – kl. 09:45 á RÚV og kl. 17:35 á RÚV2

Sunnudagur 9. mars – kl. 15:00 á RÚV

Sjá nánar á viðburðadagatali RÚV.

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: FH-ingar bikarmeistarar, ÍR-ingar bikarmeistarar 15 ára og yngri og EM vikan runnin upp

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit