Þá styttist heldur betur í þvílíka frjálsíþróttaveislu, en Evrópumeistaramótið innanhúss hefst fimmtudagskvöldið í næsu viku, 6. mars. Evrópumeistaramótið í ár fer fram í Apeldoorn í Hollandi dagana 6.-9. mars. Í ár eigum við Íslendingar þrjá keppendur, sem öll eru margfaldir Íslandsmeistarar og Íslandsmethafar í sínum greinum.
Daníel Ingi Egilsson (FH) keppir í langstökki á EM, en hann er ríkjandi Íslandsmeistari frá því á MÍ um síðustu helgi. Einnig er hann Íslandsmethafi í greininni utanhúss, en hann stökk 8,21 m á Norðurlandameistaramótinu síðastliðið sumar. Innanhúss hefur hann lengst stokkið 7,63 m og var það á sterku stökkmóti í Póllandi í lok janúar sl.
Forkeppnin í langstökki karla fer fram á fimmtudagskvöldið 6. mars kl. 19:30 að íslenskum tíma (20:30 að staðartíma).
Úrslitin í langstökki karla fara svo fram föstudagskvöldið 7. mars kl. 19:34 að íslenskum tíma (20:34 að staðartíma).
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppir í kúluvarpi á EM, en hún er ríkjandi Íslandsmeistari frá því á MÍ um síðustu helgi. Erna Sóley er einnig Íslandsmethafi í greininni bæði innan-og utanhúss, og er innanhússmet hennar 17,92 frá því í febrúar 2023.
Forkeppnin í kúluvarpi kvenna fer fram laugardaginn 8. mars kl. 9:50 að íslenskum tíma (10:50 að staðartíma).
Úrslitin í kúluvarpi kvenna fara svo fram sunnudaginn 9. mars kl. 16:52 að íslenskum tíma (17:52 að staðartíma).
Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppir í 3000 m hlaupi á EM, en hann er heldur betur búinn að vera á góðri siglingu í þeirr grein undanfarið og hefur bætt Íslandsmetið í greininni tvisvar sinnum undanfarnar vikur, og er gildandi Íslandsmet hans 7:39,94 mín frá því á NM fyrr í febrúar.
Undanriðlar í 3000 m hlaupi karla fara fram laugardaginn 8. mars kl. 11:45 að íslenskum tíma (12:45 að staðartíma).
Úrslitin í 3000 m hlaupi karla fara svo fram sunnudagskvöldið 9. mars kl. 15:50 að íslenskum tíma (16:50 að staðartíma).
Nánari upplýsingar um dagskrá Evrópumeistaramótsins má sjá hér.
FRÍ mun vera með ítarlegri umfjöllun um Evrópumeistaramótið og íslensku keppendurna í byrjun næstu viku.