Áramót Fjölnis
Áramót Fjölnis var á sínum stað 30. desember, líkt og undanfarin ár, og var þetta fyrsta mót margra á þessu innanhússtímabili. Tímabilið fór vel af stað og flottur árangur náðist á mótinu. Það voru sett fjögur aldursflokkamet á mótinu. Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) setti aldursflokkamet í langstökki í flokki 22 ára en hún stökk 6,15 m. Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) setti aldursflokkamet í kúluvarpi (5 kg) flokki pilta 15 ára með kasti upp á 16,19 m. Svo voru sett tvö aldursflokkamet í 3000 m hlaupi karla, Sindri Karl Sigursjónsson í flokki 15 ára þegar hann hljóp á tímanum 9:24:22 og Baldur Elías Norðfjörð Sveinsson í flokki 12 ára en hann hljóp á 11:08,85. Auk þessa þá voru 39 persónulegar bætingar á mótinu, ekki amalegt það og gefur góða von um frábært innanhússtímabil.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) átti stigahæsta afrek mótsins en hún hlaut 1046 stig fyrir að hlaupa 200 m á 24,41 sek.
Svo er gaman að segja frá því að það virðist sem mikil gróska sé í stangarstökki en á mótinu voru 12 keppendur sem tóku þátt í stangarstökki. Virkilega gaman að sjá það.
Hér er hægt að skoða úrslit mótsins.
Gamlárshlaup ÍR
Gamlárshlaup ÍR fór fram á gamlársdag líkt og venjan er og var hörkuskráning í hlaupið að þessu sinni, en það voru tæplega 2000 einstaklingar sem skráðu sig í hlaupið en einhverjir létu kuldann á sig fá og voru það tæplega 1400 manns sem kláruðu 10 km hlaupið. Stefán Smári Kárason (Breiðablik) sigraði í karlaflokki á tímanum 34:10 og Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) sigraði í kvennaflokki á tímanum 34:33.
Hér er hægt að sjá úrslit hlaupsins.
Íris Grönfeldt fær Fálkaorðuna
Spjótkastarinn Íris Grönfeldt var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessatöðum á nýársdag. Íris hlaut viðurkenninguna fyrir framlag til íþrótta og heilsueflingar barna, unglinga og fullorðinna í heimabyggð. Íris var um árabil einn allra besti spjótkastari Íslands. Hún keppti m.a. á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og í Seoul 1988 og á heimsmeistaramótinu í Róm 187 og í Tókýó 1991. Íris kastaði spjótinu lengst 62,02 metra og er það Íslandsmet sem aldrei verður bætt, því eftir þetta var spjótinu breytt. Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Írisi innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.
Íþróttamaður ársins
Laugardaginn 4. janúar fór fram sameiginlegt hóf Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands og Samtaka íþróttafréttamanna þar sem veittar voru viðurkenningar til íþróttafólks sérsambanda og tilkynnt um kjör íþróttamanns ársins, ásamt fleiri viðurkenningum. Frjálsíþróttirnar áttu að sjálfsögðu sína fulltrúa en þau Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) og Daníel Ingi Egilsson (FH) hlutu þar viðurkenningu sem frjálsíþróttafólk ársins.
Hvað er framundan?
Í dag, þriðjudaginn 7. janúar, fer frá 1. Nike mót FH í Kaplakrika klukkan 18:30-20:00.
Um helgina, 11.-12. janúar er svo meistaramótstvenna í Laugardalshöllini þegar fram fara Meistaramót Íslands í eldri aldursflokkum og Meistaramót Íslands í fjölþrautum.