Laugardaginn 16. nóvember nk. fara Silfurleikar ÍR fram í Laugardalshöllinni.
Mótið var fyrst haldið árið 1996 og hét þá Haustleikar ÍR og var á þeim tíma fyrsta stóra frjálsíþróttamót landsins sem haldið var að hausti til innanhúss fyrir börn og unglinga. Silfurleikarnir hafa því heldur betur fest sig í sessi sem eitt af stærstu barna-og unglingamótunum í frjálsíþróttum og verða haldnir í 28. skipti nú í ár.
Árið 2006 var nafninu breytt í Silfurleikar ÍR, til að minnast þess að þá voru 50 ár liðin frá því að ÍR-ingurinn Vilhjálmur Einarsson vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Með Silfurleikunum vilja ÍR-ingar minnast þessa mikla afreks og þrístökk skipar veglegan sess á mótinu.
Silfurleikar ÍR eru fyrir keppendur 17 ára og yngri. Börn 9 ára og yngri keppa í fjölþraut barna en þeir eldri í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum sem í flokkum 10, 11 og 12 ára eru í formi fjórþrautar eða fimmtarþrautar. Keppendafjöldi í Silfurleikum ÍR hefur verið á milli 500 og 600 undanfarin ár.
Fjöldi skráninga hefur þegar borist allstaðar að af landinu og enn er opið fyrir skráningar og það er 40% afsláttur af skráningargjaldi til 13. nóvember, en skráning er opin til hádegis 15. nóvember.
Nánari upplýsingar um Silfurleika ÍR er að finna hér.