Núna á laugardaginn, 26. október, fer Meistaramót Íslands í maraþoni fram og í ár verður það partur af Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara. Maraþonið verður ræst neðst í Elliðaárdalnum og er svo hlaupið í fallegu umhverfi eftir helstu stígum Reykjavíkur. Hægt er að sjá kort af hlaupaleiðinni hér.
Keppt er um titilinn Íslandsmeistari í kvenna-og karlaflokki, og auk þess gefst tækifæri til þess að bæta í hnappagatið Íslandsmeistaratitli í aldursflokki. Keppt er um Íslandsmeistaratitla í flokknum 18-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára, 60-69 ára, 70-79 ára, 80-89 ára og 90 ára eldri.
Athygli er vakin á að einungis íslenskir ríkisborgarar sem eru skráðir í aðildarfélag innan FRÍ geta orðið Íslandsmeistarar og/eða Íslandsmeistarar í aldursflokki. Þátttakendur sem stefna á sigur eru hvattir til þess að huga að því að vera skráðir í aðildarfélag og að klæðast aðildabúningi á keppnisdegi.
Hægt verður að nálgast keppnisgögn í verslun Sport24 í Garðabæ frá og með mánudeginum 21. október. Keppnisgögn eru einnig afhent við rásmarkið fyrir hlaup. Vinsamlegast mætið tímalega.
Forskráningu lýkur kl. 18 föstudaginn 25. október og fer skráningin fram hér.