98. Meistaramót Íslands er næstu helgi, 28.-30. júní og verður haldið á Akureyri þetta árið. Okkar fremsta frjálsíþróttafólk kemur saman og keppir um Íslandsmeistaratitla félagsliða og í einstaklingsgreinum. Hægt er að fylgjast með úrslitum í rauntíma hér. Við hvetjum alla til þess að mæta á völlinn.
MÍ er stærsta mót ársins innanlands og getur þetta mót því veitt mikilvæg stig fyrir þá sem eru að reyna að komast á stórmót eins og Ólympíuleikana en auka 100 stig eru gefin fyrir það að vinna grein á MÍ. Lágmarkatímabilið fyrir leikana er til 30. júní og er MÍ því síðasta tækifærið fyrir íþróttamenn okkar að ná lágmarki eða hækka sig á Ólympíulista (Road to Paris). Ólympíulistinn er stigalisti af meðaltal fimm hæstu mótum sem keppt er á. Í öllum tæknigreinum eru það efstu 32 á Ólympíulistanum sem komast á leikana en sem dæmi eru 42 efstu sem komast áfram í 5000m hlaupi. Eins og er er enginn Íslendingur inni en nokkir eru nálægt.
Langstökk kvenna I Kl. 13:00 á laugardaginn
Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) og Irma Gunnarsdóttir (FH) verða meðal keppenda í langstökki kvenna um helgina. Á Smáþjóðameistaramótinu um helgina bætti Birna sig um 23 cm og stökk 6,46 m. Birna er því með næst lengsta stökk kvenna frá upphafi og aðeins 16 cm. frá Íslandsmeti Hafdísar Sigurðardóttur (UFA) sem er 6,62 m. Irma er með þriðja besta árangur frá upphafi, 6,40 m. og er aðeins 22 cm. frá Íslandsmeti Hafdísar en lengsta stökk Irmu á tímabilinu er 6,00 m. og lengsta stökk hennar á árinu 6,45 m. innanhúss.
Spjótkast karla I Kl. 13:00 á laugardaginn
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) og Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) keppa í spjótkasti um helgina. Þeir kepptu báðir á NM í maí. Dagbjartur kastaði 76,05 m. og hafnaði í 6. sæti. Sindri kastaði 78,82 m. og fekk silfur. Einnig kepptu þeir á EM í Róm í byrjun júní en þar kastaði Dagbjartur 70,44 m. og hafnaði í 26. sæti. Dagbjartur á best 79,57 m. frá árinu 2021. Sindri kastaði 77,30 m. á EM og lenti í 20. sæti. Hann á best 81,21 m. sem hann kastaði í byrjun maí á þessu ári á USATF Throwers Elite. Sindri kastaði 80,00 m. á Úrvalsmóti ÍR í vikunni.
1500m karla I Kl. 13:50 á laugardaginn
Arnar Pétursson (Breiðablik) og Baldvin Þór Magnússon (UFA) taka þátt í 1500m hlaupi um helgina. Arnar á best 3:56,59 mín í 1500m hlaupi innanhúss og 4:04,00 mín. utanhúss. Hann á tvö aldursflokkamet í maraþoni, í flokkum 18-19 ára pilta og 20-22 ára pilta. Einnig á hann þrjú aldursflokkamet í flokki 30-34 ára karla; 10.000m, 5km götuhlaupi og 10km götuhlaupi.
Baldvin á Íslandsmetið í 1500m hlaupi, 3:40,36 mín. Hann hefur verið að keppa í 5000m og 3000m hlaupi í sumar. Fyrir rúmri viku keppti hann í 5000m á Boysen Memorial og hljóp á 13:52,44 mín. Einnig keppti hann á Lange Laufnacht í maí og hljóp þar á 13:30,91 mín. Í apríl keppti hann á Meeting Iberomericano en þar sló hann Íslandsmetið í greininni og hljóp á 13:20,34 mín. og var aðeins 34 hundruðustu frá beinu lágmarki á Evrópumeistaramótinu. Hann á einnig Íslandsmetið í 3000m og er það 7:47,68 mín. frá því í fyrra. Baldvin á tvö önnur íslandsmet en það er í 5 og 10 km götuhlaupi. 13:42 mín og 28:51 mín.
Baldvin er í Ólympíuhópi ÍSÍ og hefur verið að reyna að komast upp stigalistann í 5000m hlaupi en í því hlaupi komast inn 42 stigahæstu og er Baldvin nr. 66 eins og staðan er í dag, hægt er að sjá það hér. Einnig er hægt að komast inn á lágmarki en lágmarkið er 13:05,00 mín, 36 íþróttamenn hafa náð lágmarki svo að barist er um 6 sæti.
Langstökk karla I Kl. 14:30 á laugardaginn
Daníel Ingi Egilsson (FH) keppir í langstökki karla um helgina. Hann stórbætti Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar á Norðurlandameistaramótinu í maí er hann stökk 8,21 m. Fyrra met Jóns voru sléttir átta metrar. Síðan þá hefur hann keppt á EM í Róm en þar var hann aðeins 3 cm. frá úrslitum er hann stökk 7,92 m. sem var jafnlangt hans besta árangri áður en hann stökk á NM.
Daníel er aðeins 6 cm. frá lágmarki á Ólympíuleikana og þarf að stökkva það um helgina eða komast ofar á Ólympíulistanum. Eins og staðan er í dag er hann nr. 64 á listanum en þarf að vera í topp 32. Hægt er að sjá það hér. Þess má geta að 14 hafa náð lágmarki svo barist er um 18 sæti.
Sleggjukast karla og kvenna – Blönduð keppni I Kl. 15:30 á laugardaginn
Hilmar Örn Jónsson (FH) keppir í sleggjukasti á laugardaginn. Hilmar er búinn að keppa á hinum ýmsu mótum í ár, meðal annars á Kip Keino Classic þar sem hann náði fjórða sæti, Evrópubikarkastmóti, Norðurlandameistaramóti og Evrópumeistaramóti. Hans lengsta kast í ár er 75,79 m. frá því í febrúar en hann á lengst 77,10 m. frá árinu 2020.
Hilmar er í Ólympíuhóp ÍSÍ og er hann í 37. sæti á listanum. Hann þarf því að komast upp um fimm sæti til að tryggja sér sæti á leikana. Hægt er að sjá það hér. Einnig er hægt að komast inn á beinu lágmarki sem er 78,20 m. í sleggjukasti karla. Aðeins tíu hafa náð lágmarkinu og eru því 22 sæti eftir.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) keppa á MÍ um helgina. Þær kepptu einnig báðar á EM í Róm í byrjun júnímánaðar og kastaði Elísabet þar 68,02 m. og var aðeins þremur sætum frá úrslitum eða í fimmtánda sæti, Guðrún Karítas kastaði 67,57 m. og var aðeins tveimur sætum á eftir Elísabetu eða í sautjánda sæti. Frábær árangur hjá þeim á fyrsta fullorðinsmóti, nokkrum dögum fyrir höfðu þær keppt á NCAA, Bandaríska háskólameistaramótinu en þar bætti Elísabet eigið Íslandsmet í þriðja sinn á tímabilinu með kasti upp á 70,47 m. Guðrún Karítas kastaði 69,12 m. og hafnaði í fimmta sæti. Þetta er þriðja lengsta kast hennar á ferlinum en hennar besti árangur er 69,76 m.
Elísabet í 40. sæti á heimslista sem stendur og Guðrún í 49. sæti, hægt er að sjá það hér. Þær þurfa að vera á meðal 32 efstu til að komast á leikana eða með því að ná lágmarkinu sem er 74,00 m. Þrettán konur hafa náð lágmarki svo að barist er um 19 sæti.
Hástökk kvenna I Kl. 13:30 á sunnudaginn
Birta María Haraldsdóttir (FH) verður meðal keppenda á MÍ á Akureyri um helgina. Birta María hefur bætt sig mikið í hástökki á síðastliðnu ári. Stökk 1,80 m. á NM U20 í lok júlí í fyrra sem var þá 7 cm. bæting og hefur síðan þá bætt sig um 7 cm. Á norðurlandameistaramótinu í maí stökk hún 1,87 m. og átti góðar tilraunir á 1,89 m. Hún varð Smáþjóðameistari um síðustu helgi og stökk þar 1,85 m. en Íslandsmetið er 1,88 m. og verður spennandi að sjá hvort hún bæti það um helgina.
Kúluvarp kvenna I Kl. 13:50 á sunnudaginn
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppir í kúluvarpi um helgina. Hún varð önnur á NM í maí með kast upp á 17,20 m. Á EM í Róm hafnaði hún í 19. sæti með kast upp á 16,26 m. og á Smáþjóðameistaramótinu um síðustu helgi hafnaði hún í öðru sæti þar sem hún kastaði lengst 17,23 m. sem er hennar lengsta kast utanhúss á árinu en lengsta kast hennar innanhúss á árinu er 17,52 m. Erna á best 17,92 m. sem er Íslandsmetið í greininni frá því í febrúar í fyrra.
Hún er í Ólympíuhópi ÍSÍ og er í 35. sæti á Ólympíulistanum eins og staðan er í dag og þarf því að komast upp um þrjú sæti til að tryggja sér sæti á leikana. Hægt er að sjá það hér. Einnig er hægt að komast inn á lágmarki en lágmarkið í kúluvarpi kvenna er 18,80 m. Nú hafa 14 náð lágmarkinu og er því verið að keppast um 18 sæti.
Kringlukast karla og kvenna – Blönduð keppni I Kl. 14:50 á sunnudaginn
Guðni Valur Guðnason (ÍR) keppir í kringlukasti um helgina. Hann varð Smáþjóðameistari um síðustu helgi með kast upp á 60,40 m. og Norðurlandameistari í maí með kast upp á 60,71 m. Lengsta kast Guðna á ferlinum er 69,35 m. frá árinu 2020 en lengsta kast hans á tímabilinu er 63,59 m. sem hann kastaði í apríl á OK Throw Series í Bandaríkjunum. Guðni keppti einnig á EM í Róm í byrjun júní og kastaði þar 59,15 m. og hafnaði í 24. sæti.
Guðni er í Ólympíuhópi ÍSÍ og er nr. 39 á heimslista sem stendur og þarf því að komast upp um sjö sæti, hægt er að sjá það hér. Einnig er hægt að komast inn á lágmarki en lágmarkið í kringlukasti karla er 67,20 m. Guðni á best 69,35 m. sem er sem er Íslandsmet í greininni rúmum tveimur metrum yfir lágmarkinu en hefur ekki kastað það innan lágmarkatímabils. Þess má geta að 22 eru með lágmark svo að barist er um 10 sæti.
Hera Christensen (FH) og Kristín Karlsdóttir (FH) verða meðal keppenda í kringlukasti kvenna um helgina. Hera er búin að bæta aldursflokkametið í flokki stúlkna 18-19 ára þrisvar sinnum á árinu. Í fyrra skiptið var það í tvígang á Evrópubikarkastmótinu í mars. Fyrst kastaði hún 50,81 m. og svo 51,38 m. Í þriðja skiptið var það á Úrvalsmóti ÍR nr. 1 í maí en þar kastaði hún 52,02 m. Einnig hefur hún náð lágmarki á HM U20 sem fram fer í Perú í lok ágúst. Kristín Karlsdóttir (FH) á best 53,53 m. frá árinu 2020 en hennar lengsta kast á tímabilinu er 51,86 m.
Gaman verður að fylgjast með okkar flotta íþróttafólki um helgina.