Á morgun, föstudaginn 20. júní, hefst Meistaramót Íslands 15-22 ára á ÍR-vellinum í Breiðholti og stendur það alla helgina. Rétt um 200 keppendur eru skráðir til leiks frá 20 félögum um allt land og því má búast við skemmtilegu móti. Í fyrra var það lið HSK/Selfoss sem sigraði stigakeppni félagsliða á MÍ 15-22 ára.
Þrjú af þeim fjórum sem kepptu á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum um síðastliðna helgina eru skráð til leiks núna um helgina. Ísold Sævarsdóttir (FH) keppir í spjótkasti og kúluvarpi í flokki 18-19 ára stúlkna, María Helga Högnadóttir (FH) keppir í kúluvarpi 20-22 ára stúlkna og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (Selfoss) keppir í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti 16-17 ára pilta.
Ísold og María Helga eru einnig að fara í landsliðsverkefni í næstu viku, en þær eru í landsliðinu sem mun keppa á Evrópubikar í Maribor í Slóveníu í næstu viku.
Eins eru sex aðrir landsliðsmenn sem munu keppa á Evrópubikar í næstu viku að fara að keppa á MÍ núna um helgina. Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) keppir í 100 m hlaupi í flokki 18-19 ára stúlkna, Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) keppir í 800 m og 1500 m hlaupi í flokki 20-22 ára stúlkna, Hera Christensen (FH) keppir í kringlukasti og sleggjukasti í flokki 20-22 ára stúlkna, Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) keppir í spjótkasti í flokki 20-22 ára stúlkna, Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) keppir í 110 m grindahlaupi í flokki 20-22 ára pilra og Arnar Logi Brynjarsson (ÍR) keppir í 100 m hlaupi í flokki 18-19 ára pilta.
Einnig eru skráð á mótið ungt og mjög efnilegt frjálsíþróttafólk sem hefur verið að bæta aldursflokkamet undanfarnar vikur og mánuði. Bryndís Embla Einarsdóttir (Selfoss) bætti aldursflokkametið í spjótkasti (500 g) í flokki 16-17 ára stúlkna í lok maí þegar hún kastaði 46,32 m, en á MÍ mun hún keppa í 6 greinum, 100 m hlaupi, 100 grindahlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og sleggjukasti. Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) hefur bætt hvert aldursflokkametið á fætur öðru að undanförnu og núna í lok maí bætti hann metið í kúluvarpi (5 kg) í flokki pilta 16-17 ára þegar hann kastaði 18,20 m og mun hann keppa í kúluvarpi og kringlukasti núna um helgina. Sindri Karl Sigurjónsson (UMSB) bætti aldursflokkametið í 5 km götuhlaupi í síðustu viku í flokki 16-17 ára þegar hann hljóp á 15:39 mín og er hann skráður í 800 m, 1500 m og 3000 m hlaup um helgina.
Þessi ofangreind eru bara örfá nöfn úr þeim stóra og flotta hópi sem mun keppa um helgina, en heildar keppendalistann má sjá hér.
Tímaseðilinn má sjá hér.