Hlynur Andrésson (ÍR) Íslandsmethafi í heilu og hálfu maraþoni tekur þátt í Valencia maraþoninu á morgun, sunnudaginn 1. desember.
Íslandsmet hans í heilu maraþoni er 02:13:37 og setti Hlynur það 21. mars 2021 og Íslandsmetið í hálfu maraþoni er 01:02:47 og er það frá 17. október 2020.
Við höfðum samband við Hlyn til að taka stöðuna á honum fyrir hlaupið á morgun.
„Ég er góður, æfingar hafa gengið vel og ég er spenntur fyrir sunnudeginum“, segir Hlynur, spurður út í það hvernig hann er stemmdur fyrir hlaupinu.
En hvaða markmið er hann með fyrir hlaupið?
„Markmiðið er að hlaupa eins vel og ég mögulega get. Vonandi skilar það persónulegu meti og þar með einnig Íslandsmeti. Er hins vegar ekki að setja of mikla pressu á sjálfan mig. Ég vil að minnsta kosti klára hlaupið, ef það gengur ekki upp að bæta minn persónulega árangur“ segir Hlynur.
Það verður gaman að fylgjast með Valencia maraþoninu á morgun og spurning hvort að það komi nýtt Íslandsmet í maraþonhlaupi.
Fylgjast má með hlaupinu á heimasíðu þess, sjá lið 6.14 á síðunni.