Kynnumst frjálsíþróttastarfi landsins: Uppbygging í Mosfellsbæ

Penni

5

min lestur

Deila

Kynnumst frjálsíþróttastarfi landsins: Uppbygging í Mosfellsbæ

Stiklað á stóru um sögu frjálsíþrótta í Mosfellsbæ

Frjálsíþróttastarf í Mosfellsbæ á sér langa sögu og hafa frjálsíþróttir verið hluti af starfi Ungmennafélags Aftureldingar nánast frá stofnun þess árið 1909. Frjálsíþróttadeild Aftureldingar var svo formlega stofnuð árið 1976. Mikil stakkaskipti urðu í starfi frjálsíþróttadeildarinnar árið 1989 þegar hafist var handa við að byggja frjálsíþróttavöll á íþróttasvæði bæjarins. Ástæða þeirrar uppbyggingar var Landsmót UMFÍ sem haldið var í Mosfellsbæ 1990. Strax í kjölfar þessa setti stjórn frjálsíþróttadeildar Aftureldingar á laggirnar hið víðfræga og stórskemmtilega barna-og unglingamót Gogga galvaska, en tilgangur þess var að bjóða upp á stórt og flott frjálsíþróttamót við bestu mögulegu aðstæður. Fyrsta árið voru 32 keppendur sem tóku þátt en þátttakandafjöldinn jókst jafnt og þétt og þegar mest lét voru þátttakendur á bilinu 250-370. Þau sem þekkja til muna eflaust mörg hversu skemmtilegt mót Goggi galvaski var, óhætt að segja að það hafi verið einstakt mót á sínum tíma. Enda fékk Goggi galvaski vottun ÍSÍ og FRÍ um að vera einn merkasti viðburður innan frjálsíþrótta fyrir börn og unglinga. Sjá nánar um sögu frjálsíþrótta í Mosfellsbæ hér, þaðan sem ofangreindar upplýsingar eru fengnar.

Þannig að það er óhætt að segja að það hafi verið mikil gróska í frjálsíþróttastarfi í Mosfellsbæ á 10. áratugnum og um og kringum aldamótin síðustu, en svo fór starfið í smá lægð en það er virkilega gaman að sjá og heyra af þeirri uppbyggingu sem á sér stað í frjálsíþróttum í Mosfellsbænum núna.

Frjálsíþróttaafreksfólk úr Aftureldingu

Svo má auðvitað ekki gleyma því að það Mosfellsbær á heldur betur flott afreksfólk í frjálsíþróttum, bæði núverandi afreksfólk sem og fyrrum. Þar ber kannski helst að nefna kastaradúóið Guðna Val Guðnason kringlukastara og Ernu Sóley Gunnarsdóttur kúluvarpara. Þau eru bæði úr Mosfellsbæ og hefja sína frjálsíþróttavegferð þar og hjá Aftureldingu þar til þau skipta svo bæði yfir til ÍR rétt um tvítugsaldurinn. En eins og við vitum þá eru þau tvö af okkar allra fremsta afreksfólki og hafa átt fast sæti í landsliði Íslands í frjálsíþróttum undanfarin ár og miklir reynsluboltar þegar kemur að þátttöku á stórmótum, og hafa þau til að mynda bæði keppt á Ólympíuleikunum. Guðni Valur hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum, í Rio de Janeiro í Brasilíu 2016 og í Tókýó í Japan 2021. Erna Sóley keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum í París, Frakklandi síðastliðið sumar. Eins eiga þau bæði Íslandsmetið í sinni grein. Íslandsmet Guðna Vals í kringlukasti er 69,35 m og er það frá því í september 2020. Erna Sóley á bæði Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss og utanhúss, innanhúss kastaði hún lengst 17,92 m í febrúar 2023 og utanhúss á hún lengst 17,91 m frá því síðastliðið sumar.

Hlaupakempan, Fríða Rún Þórðardóttir, byrjaði sinn frjálsíþróttaferil einnig í Aftureldingu og það hefur sannarlega skilað sér í góðum árangri og er Fríða enn á hlaupum og ennþá að setja aldursflokkamet hægri, vinstri. Fríða Rún var lengi landsliðskona í millivegalengdahlaupum, og gaman að segja frá því að hún á ennþá Íslandsmetið í 2000 m hlaupi, sem hún setti sumarið 1992 og þá sem iðkandi hjá Aftueldingu.

Uppbygging í frjálsum í Mosó

Við heyrðum í, Teiti Inga Valmundssyni, formanni frjálsíþróttadeildar Aftureldingar og spurðum hann út í frjásíþróttastarfið hjá þeim og uppbygginguna sem er í gangi.

Nú er flott uppbygging í frjálsíþróttastarfinu í Mosfellsbæ, hvað kom til að þið ákváðuðað að rífa starfið upp á nýjan leik?

“Við höfum gert það sem við getum til að halda starfinu gangandi en það var töluverð lægð í áhuga og eins var og er mjög erfitt að finna þjálfara og bitnaði það á starfinu líka. Við í Aftureldingu vorum svo lánsöm að finna tvö sem hafa gríðarlegan áhuga á frjálsum og þjálfun og það smitar glettilega hratt út frá sér til krakkana sem fara þá að draga vinina með og það fjölgar hægt og rólega í iðkendahópnum. Við erum kannski ekki með kjöraðstæður fyrir frjálsíþróttaþjálfun en þetta byggir svo ótrúlega mikið á því að hafa áhugasama þjálfara.”

Nú koma tvö af okkar helsta afreksfólki úr Mosfellsbæ, hjálpar það þegar kemur að uppbyggingarstarfinu? Að ungir iðkendur hafi þau til fyrirmyndar?

“Það að hafa fyrirmyndir hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Við verðum því miður ekki nógu mikið vör við þau eða annað afreksfólk og spurning hvort ekki mætti reyna að gera meira úr þessu frábæra frjálsíþróttafólki sem við eigum. Fara í heimsóknir til félagana út um allt land og vera sýnileg. Það væri frábært að fá sjálfboðaliða úr þessum röðum til að skipta á milli sín að koma á æfingar hjá yngri iðkendum og dreifa gleðinni.”

Svo eru það virkilega spennandi fréttir um byggingu nýs utanhúss frjálsíþróttavallar í bænum, getur þú sagt okkur meira um þá vinnu allasaman?

“Já við erum að fá fyrsta 200 metra völlinn utandyra á Íslandi. Það var víst ekki pláss fyrir 400 metra braut hér í Mosfellsbæ eins undarlegt og það nú er. En ef vel tekst til með 200 metra völlinn sem allt stefnir að komi upp í sumar (2025) þá yrði það frábær lyftistöng fyrir yngri iðkendur og grasrótarstarfið. Völlurinn verður væntanlega ekki löglegur keppnisvöllur fyrir spretthlaup þar sem ekki verður hægt að lyfta upp beygjunum en þarna verða tvær langstökks/þrístökks- gryfjur, aðstaða fyrir hástökk og stangarstökk og kúluvarpshringur. Eins verður 80 metra braut til hliðar við hringbrautina sem býður uppá ýmsa möguleika. Það á svo eftir að koma fyrir aðstöðu til að kasta spjóti, kringlu og sleggju. Við vinnum áfram í því með bæjaryfirvöldum.”

Svo verð ég að fá að spyrja, er stefnan sett á að endurvekja hið frábæra og eftirminnilega mót, Gogga Galvaska?

“Ég varð nú aldrei þeirrar gæfu aðnjótandi að komast á Gogga Galvaska en ég hef ekkert heyrt nema jákvætt um það mót. Svona mót byggja á ótrúlega mikilli og góðri vinnu sjálfboðaliða og það virðist verða sífellt erfiðara að virkja aðstandendur í að taka þátt í svona starfi. Við nefnum þetta mót á öllum fundum deildarinnar með aðstandendum og vonandi kemur sá tími að fólk verði tilbúið að taka slaginn og endurvekja mótið. Við verðum svo að sjá til hvernig aðstaðan á nýja vellinum mun nýtast í svona mót og hvað verður hægt að gera. En við höldum hugmyndinni amk gangandi og vonandi kemur að því að hægt verði að endurvekja Gogga Galvaska.”

Heimsókn á frjálsíþróttaæfingu hjá Aftureldingu

FRÍ kíkti á frjálsíþróttaæfingu hjá Aftureldingu um daginn og það var virkilega gaman. Við tókum viðtöl við iðkendur og þjálfara og það var ekki annað að sjá og heyra að það sé mikil gleði og ánægja með frjálsíþróttirnar í Mosfellsbæ. Hjá Aftureldingu er tveir æfingahópar, yngri sem er fyrir krakka fædda 2013-2016 og svo eldri sem er fyrir krakka og unglinga fædd 2009-2014. Sjá má upplýsingar um æfingatíma hér.

Við tókum viðtal við Gunnar Ingi þjálfara hópanna beggja sem hefur þjálfað undanfarin ár og hann ræðir m.a. í viðtalinu að iðkendum hjá þeim hefur fjölgað úr þremur í 40 undanfarin tvö ár, sem er frábært að heyra. Eins ræddum við við Siggu Sól, sem er aðstoðarþjálfari og iðkandi og hún talaði svo fallega um félagslega þáttinn í frjálsíþróttum. Sjá má viðtalið við þau Gunnar Ingu og Siggu Sól hér.

Svo spjölluðum við við þau Kristján og Helgu unga og efnilega frjálsíþróttaiðkendur um frjálsíþróttir, æfingar og keppni. Sjá viðtalið við þau Kristján og Helgu hér.

Við þökkum frjálsíþróttadeild Aftureldingar kærlega fyrir að taka svona vel á móti okkur og leyfa okkur og við óskum þeim hins besta í áframhaldandi frjálsíþróttastarfi sínu.

Penni

5

min lestur

Deila

Kynnumst frjálsíþróttastarfi landsins: Uppbygging í Mosfellsbæ

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit