Silfurleikar ÍR
Silfurleikar ÍR fóru fram núna á laugardaginn, 16. nóvember, í Laugardalshöllinni. Það var fjölmennur hópur barna og unglinga, 17 ára og yngri, sem tóku þátt í mótinu og var mikið fjör í höllinni. Silfurleikarnir eru með fjölmennari frjálsíþróttamótum landsins og í ár voru það 570 börn og unglingar sem tóku þátt, frá 27 félögum alls staðar að af landinu.
Silfurleikar ÍR eru haldnir árlega að hausti til heiðurs Vilhjálmi Einarssyni og silfurverðlaunum hans sem hann vann á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. Í ár var svo Einar Vilhjálmsson, sonur Vilhjálms, heiðursgestur á Silfurleikunum en hann sjálfur á glæstan frjálsíþróttaferil að baki. Sjá nánar hér. Hann stóð vaktina allan daginn og afhenti öllum verðlaunahöfum verðlaunapening Silfurleikanna.
Fjögur aldurflokkamet voru sett á mótinu:
Sigurður Ari Orrason í ÍR bætti aldursflokkametið í 200 m hlaupi í flokki 13 ára pilta og hljóp á 24,76 sek.
Anna Metta Óskarsdóttir í Umf. Selfossi bætti aldurflokkametið í þrístökki í 14 og 15 ára flokki stúlkna og stökk 11.46 m.
Benedikt Gunnar Jónsson í ÍR bætti aldursflokkametið í kúluvarpi pilta 15 ára með kasti upp á 18.28 m með 4 kg kúlu.
Glæsilegur árangur!
Unglingalandslið FRÍ
Unglingalandslið FRÍ var birt í vikunni og eru yfir 50 öflugir og efnilegir íþróttamenn í hópnum að þessu sinni. Sjá nánar hér.
Dómaranámskeið FRÍ og ÍR
FRÍ og ÍR voru með héraðsdómaranámskeið í vikunni og var það mjög áhugavert og flott námskeið sem hann Björgvin Brynjarsson formaður dómaranefndar FRÍ leiddi. Það er gaman að segja frá því að verið er að vinna að fræðsluhluta heimasíðu FRÍ þessa dagana og þar inni verður m.a. hægt að nálgast efni varðandi dómaranámskeið. Meira um þessa viðbót á heimasíðunni síðar.
Hvað er framundan?
Fyrirlestur og verkleg kennsla með frjálsíþróttaþjálfaranum Andrea Uberti verður í Kópavogi mánudaginn 25. nóvember nk. milli kl. 17 og 21. Það er hin fínasta skráning en ennþá er opið fyrir skráningu og hvetjum við öll sem áhuga hafa á að skrá sig. Sjá nánar hér.