NORÐURLANDAMEISTARAMÓTIÐ Í VÍÐAVANGSHLAUPUM
Í gær, sunnudaginn 10. nóvember, fór Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fram í Vantaa í Finnlandi og í ár voru sex Íslendingar sem tóku þátt. Baldvin Magnússon náði bestum árangri Íslendinganna að þessu sinni en hann endaði í 6. sæti í karlaflokki. Sjá nánar um úrslit hlaupsins hér.
ALLIR MEÐ LEIKARNIR
Allir með leikarnir fóru fram í Laugardalnum á laugardaginn en viðburðurinn er partur af verkefninu Allir með sem er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra. Markmið verkefnisins er að fjölga tækifærum í skipulögðu íþróttastarfi fyrir iðkendur með fötlun. Í frjálsíþróttasal Laugardalshallarinnar var mikil gleði og stemming þegar börn og unglingar og fjölskyldur þeirra spreyttu sig í fjölmörgum frjálsíþróttagreinum. Sjá frétt um viðburðinn hér á heimasíðu UMFÍ.
FRÁBÆR ÁRANGUR Í GÖTUHLAUPI Í FLOKKI UNGLINGA 18 ÁRA OG YNGRI
Alltaf gaman að segja frá góðum árangri íþróttafólksins okkar, en í gær sunnudaginn 10. nóvember keppti Bjarki Fannar Benediktsson 18 ára piltur úr FH í 10 km götuhlaupi í Jessheim í Noregi og hljóp hann á 00:34:43 sem er besti tíminn í ár í flokki U18. Fyrr í haust hljóp hann svo í hálfmaraþoninu í Kaupmannahöfn og hljóp það á 01:17:42, sem er einnig besti tíminn í flokki U18 á þessu ári. Virkilega flottur árangur hjá þessum unga og efnilega hlaupara sem gaman verður að fylgjast með næstu misserin.
HVAÐ ER FRAMUNDAN?
Hið rótgróna barna-og unglingamót Silfurleikar ÍR verður næstkomandi laugardag í Laugardalshöllinni og það má búast við hörkufjöri þar enda eitt fjölmennasta barna-og unglingamótið í frjálsum íþróttum. Sjá nánar um Silfurleika ÍR hér.
Svo ber að nefna fyrirlestur og verklega kennslu með ítalska frjálsíþróttaþjálfaranum Andrea Uberti sem verður í Kópavoginu mánudaginn 25. nóvember nk. Hvetjum öll sem áhuga hafa á að taka þátt í því, að skrá sig á viðburðinn. Sjá nánari frétt um þetta hér.