Í dag fór Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fram í Vantaa í Finnlandi. Eins og komið hefur fram tóku sex Íslendingar þátt í ár, þau Baldvin Magnússon, Arnar Pétursson, Stefán Kári Smárason, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Íris Dóra Snorradóttir og Helga Lilja Maack.
Hlaupinn var 1,5 km hringur og hlupu karlar og konur 5 hringi eða 7,5 km og U20 hlupu 3 hringi eða 4,5 km. Mótið var haldið á fjölíþróttasvæði þar sem keppt er í skíðagöngu og íshokki. Brautin þótti mjög skemmtileg og innihélt tvær sverar brekkur. Veðuraðstæður voru mjög þægilegar, um 6 gráður, þurrt og logn en nokkur bleyta í brautinni.
Baldvin var fyrstur í mark af íslensku karlkyns keppendunum og kom í mark á tímanum 00:22:42 og endaði hann í 6. sæti og náði þar með bestu árangri Íslendinganna í þessu hlaupi. Arnar var í 16. sæti á tímanum 00:24:26 og Stefán Kári kom 17. í mark á tímanum 00:26:07.
Kvennamegin var það Íris Dóra sem var fyrst Íslendinganna á tímanum 00:28:56 og var hún í heildina í 14. sæti og Sigþóra Brynja kom í mark á tímanum 00:29:44 og endaði í 15. sæti.
Helga Lilja, sem keppti í U20 flokknum, kom í mark á tímanum 00:18:01 og var hún í 12. sæti í sínum flokki.
Sigurvegar í karla-og kvennaflokki voru Joel Ibler Lillesø frá Danmörku sem kom í mark á tímanum 00:22:23 og Ilona Mononen frá Finnlandi á tímanum 00:26:23.
Sigurvegari í U20 í kvennaflokki var Wilma Anna Bekkemoen Torbiörnsson frá Noregi á tímanum 00:15:23.
Einnig var liðakeppni og átti Ísland í fyrsta skipti sveit í karlaflokki í keppni á erlendri grundu og endaði íslenska sveitin í 5. sæti, en það var sveit Danmerkur sem sigraði í karlaflokki. Í kvennaflokki var það sveit Noregs sem sigraði.
Hægt er að sjá heildarúrslit hlaupsins hér.