Evrópumeistaramótið í götuhlaupum
Evrópumeistaramótið í götuhlaupum fór fram í Brussel og Leuven í Belgíu um liðna helgi, 12.-13. apríl. Þetta var í fyrsta skipti sem mótið er haldið og heppnaðist það virkilega vel og var mikil ánægja með skipulag og framkvæmd viðburðarins. Keppt var í 10 km hlaupi, hálfu maraþoni og maraþoni og það sem gerði hlaupið sérstakt og mjög skemmtilegt var að það var einnig opið almenningshlaup. Í heildina hlupu því um 28000 hlauparar um götur Brussel og Leuven um helgina.
Ísland sendi flotta fulltrúa til keppni í öllum vegalengdum, í karla-og kvennaflokki.
Það voru þau Arnar Pétursson og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir sem hófu keppni á laugardagsmorgninum þegar hálfa maraþonið fór fram.
Sigþóra Brynja kom í mark á tímanum 1:20,14 klst og endaði í 35. sæti en Arnar kláraði því miður ekki sitt hlaup að þessu sinni.

Nánari frétt um fyrri dag mótsins má sjá hér.
Á sunnudeginum var svo komið að 10 km hlaupinu og maraþoninu. Það voru Hlynur Andrésson, Stefán Kári Smárason og Andrea Kolbeinsdóttir sem kepptu í 10 km hlaupi.
Hlynur kom í mark á tímanum 30:47 mín. og endaði í 63. sæti í karlaflokki. Stefán Kári endaði í 74. sæti á 33:46 mín. Andrea hljóp á 34:24 mín. og endaði í 65. sæti í kvennaflokki, en þessi tími hennar Andreu er bæting um 9 sekúndur, en hún átti best 34:33 mín. frá því í lok desember sl.

Kristján Svanur Eymundsson og Elín Edda Sigurðardóttir kepptu í maraþoninu.
Kristján Svanur hljóp á 2:38,51 klst og endaði í 35. sæti í karlaflokki. Elín Edda endaði í 21. sæti í kvennaflokki á tímanum 2:51,27 klst.


Nánari frétt um seinni dag mótsins má sjá hér.
Myndir frá hlaupinu má sjá hér.
Flott ferð á fyrsta Evrópumeistaramótið í götuhlaupum en næsta mót verður í Belgrad í Serbíu í apríl 2027.
Júlía Kristín með flotta persónulega bætingu í fyrstu sjöþraut tímabilsins
Júlía Kristín Jóhannesdóttir keppti í fyrstu sjöþraut tímabilsins og gerði sér lítið fyrir og bætti sinn persónulega árangur um rétt rúmlega 750 stig á móti í Bandaríkjunum um helgina, þar sem hún hlaut 5396 stig. Hennar besti árangur var 4642 stig frá því á Norðurlandameistaramótinu í fjölþraut sem fram fór í Reykjavík um miðjan júní 2024. Í þrautinni bætti hún sig í öllum greinum nema hástökki, Júlía Kristín greinilega í hörkuformi og verður gaman að fylgjast með henni í sumar.