Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram í Laugardalshöllinni um helgina

Penni

3

min lestur

Deila

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram í Laugardalshöllinni um helgina

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram í Laugardalshöllinni um helgina. Það er frábær skráning á mótið en það eru 262 keppendur skráðir til keppni, frá 20 félögum um allt land.

Meðal keppenda í ár er okkar allra besta unga frjálsíþróttafólk og má meðal annarra nefna neðangreind.

Spretthlauparinn Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) er skráð í 60 m hlaup, 200 m hlaup og 400 m hlaup á mótinu, en hún er á svakalega flottri vegferð í þeim greinum og er búin að setja persónuleg met í þeim öllum á þessu innanhústímabili. Hún hljóp 60 m á 7,57 sek á RIG í lok janúar, á sama móti bætti hún einnig tímann sinn í 400 m hlaupi þegar hún hljóp á 54,70 og bætti árangur sinn í 200 m hlaupi á Aðventumóti Ármanns um miðjan desember sl., þar sem hún hljóp á 24,38 sek. Eir var í íslenska liðinu sem tók þátt á Norðurlandameistaramótinu í frjálsíþróttum sem fram fór í Finnlandi um síðustu helgi og keppti þar í 400 m hlaupi. Eir á Íslandsmeistaratitil að verja í öllum þremur greinunum, en hún sigraði þær allar í sínum aldursflokki í fyrra. Það verður gaman að sjá hvað Eir gerir á brautinni í ár.

60 m hlaup 18-19 ára stúlkna er laugardaginn 15. febrúar kl. 11:10

400 m hlaup 18-19 ára stúlkna er laugardaginn 15. febrúar kl. 13:50

200 m hlaup 18-19 ára stúlkna er sunnudaginn 16. febrúar kl. 13:50.

Ísold Sævarsdóttir (FH), fjölþrautakona, er skráð í sex greinar á mótinu um helgina, 60 m hlaup, 200 m hlaup, 60 m grindahlaup, hástökk, langstökk og kúluvarp. Tímabilið hefur farið vel af stað hjá henni, sérstaklega í 60 m hlaupi og kúluvarpi, en hún hefur verið að bæta sig í þeim greinum undanfarið. Hennar besti árangur í 60 m er frá því á Aðventumóti Ármanns í desember sl. en þar hljóp hún á 7,77 sek og í kúluvarpi er hennar besti árangur 13,61 m einnig frá því á Aðventumóti Ármanns. Það verður nóg að gera um helgina hjá þessari frábæru þrautakonu.

Kúluvarp 18-19 ára stúlkna er laugardaginn 15. febrúar kl. 10:00.

60 m hlaup 18-19 ára stúlkna er laugardaginn 15. febrúar kl. 11:10.

Spretthlauparinn Arnar Logi Brynjarsson (ÍR) tekur þátt í 60 m hlaupi, 200 m hlaupi og langstökki mótinu. Arnar er á tímabilinu búinn að hlaupa 60 m á 7,02 sek sem, sem er hann besti tími heilt yfir, en hann hljóp það á Stórmóti ÍR um miðjan janúar sl. Hans besti tími í 200 m innanhúss er 22,29 sem frá því í mars 2024, en á tímabilinu hefur hann hlaupið best á 22,67 sek, einnig á Stórmóti ÍR. Hans besti árangur í langstökki er einnig frá því á Stórmóti ÍR núna í janúar en þar stökk hann 6,30 m. Arnar Logi varð þrefaldur Íslandsmeistari í fyrra, í sínum aldursflokki, en þá sigraði hann 60 m hlaupið, 200 m hlaupið og 400 m hlaupið. Það verður gaman að fylgjast með Arnari Loga um helgina sem hefur byrjað tímabilið af krafti.

60 m hlaup 18-19 ára pilta er laugardaginn 15. febrúar kl. 11:20

Langstökk 18-19 ára pilta er laugardaginn 15. febrúar kl. 15:10

200 m hlaup 18-19 ára pilta er sunnudaginn 16. febrúar kl. 13:20.

Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR), kúluvarparinn knái, mætir að sjálfsögðu í kúluvarpshringinn um helgina. Benedikt er á mikilli uppleið í kúluvarpinu og verður gaman að sjá hvað hann gerir í ár, en hann á Íslandsmeistaratitil að verja en hann sigraði kúluvarpið í sínum flokki í fyrra. Hann er kominn upp um flokk í ár og því þyngist kúlan úr 4 kg í 5 kg. Benedikt Gunnar á aldursflokkametið í flokki pilta 16-17 ára með 5 kg kúlu og er það 17,05 m frá því á RIG í lok janúar sl.

Kúluvarp pilta 16-17 ára pilta er laugardaginn 15. febrúar kl. 12:30.

Þrístökkvarinn Guðjón Dunbar D. Þorsteinsson (Fjölnir) keppir í þrístökki um helgina, en hann er nýkominn heim frá Finnlandi þar sem hann var hluti af íslenska hópnum sem tók þátt á Norðurlandameistaramótinu í frjálsíþróttum. Hann náði sér ekki alveg á strik í þrístökkskeppninni þar ytra en verður gaman að sjá hvernig hann mætir á stökkbrautina um helgina. Guðjón varð Íslandsmeistari í sínum flokki í fyrra, þannig að hann á titil að verja. Innanhúss á Guðjón best 14,46 m frá því á Aðventumóti Ármanns í desember sl.

Þrístökk 20-22 ára pilta er sunnudaginn 16. febrúar kl. 11:30.

Heildarkeppendalistann sem og tímaseðil mótsins má sjá hér, og þarna birtast einnig öll úrslit um helgina.

Penni

3

min lestur

Deila

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram í Laugardalshöllinni um helgina

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit