Framundan eru mörg spennandi og skemmtileg verkefni fyrir langhlaupara á öllum getustigum, hvort heldur þá sem eru keppnis eða hlaupa langt sér til skemmtunar og hreysti. Fyrir þá sem ekki vita þá eru hlaup utan valla (hlaupabrauta) sem eru lengri en 3000 m langhlaup – þeir eru því margir langhlaupararnir á Íslandi.
Hér fyrir neðan er stiklað á því helsta sem framundan er og verður gert betur grein fyrir sumu á næstu vikum.
Helst ber að nefna Meistaramót Íslands í maraþoni sem fer fram 26. október nk. Sem haldið verður sem hluti af Haustmaraþoni Félags Maraþonhlaupara og með dyggum stuðningi TM, sem jafnframt mun halda Ævintýrahlaup fyrir börn samhliða viðburðinum. Sjá nánari frétt hér um viðburðina
Vertíð Víðavangshlaupa (XC) er bresta á með mótaröðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri auk þess er Norðurlandamóti í XC í Finnlandi rétt handan við hornið. Við eigum ekki von á öðru en þessi rótgróna gamla grein langhlaupa muni vaxa enn frekar á næstu árum í ljósi áhuga hlaupara á að hlaupa utan malbiks. Sjá nánari frétt hér um viðburðina.
Ný og áhugaverð verkefni verða á næsta ári t.a.m. fyrsta Evrópumeistaramótið í götuhlaupum og Íslandsmeistaramót í 100 km götuhlaupi. Evrópumeistaramótið verður haldið í Leuven í Belgíu um miðjan apríl, keppt verður í maraþoni, hálfmaraþoni og 10km götuhlaupi og mun FRÍ senda keppendur á mótið. Ráðgert er að halda 100 km Íslandsmeistaramót í götuhlaupum í ágúst 2025. Nánari upplýsingar um þessi verkefni verða veittar síðar.
Að sjálfsögðu verða Meistaramót Íslands í 5km, 10km , ½ maraþoni og maraþoni haldin á næsta ári. Þessir viðburðir hafa verið haldnir í góðu samstarfi við framkvæmdaraðila hlaupaviðburða og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir sitt framlag til hlaupasamfélagsins.
Heimsmeistaramót í utanvegahlaupum fer fram Canfranc á Spáni í lok september en þangað mun Frjálsíþróttasambandið senda sína sterkustu utanvegahlaupara. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag umsókna í landsliðið verða veittar síðar.
Vottun götuhlaupa gekk vel í sumar og verða næstu mánuðir nýttir til þess að byggja ofan á reynslu sumarsins m.a. slípa til ferla og vinna að því að sem flest vottuð hlaup séu skráð á Label Road dagatal World Athletics. Við höfum náð góðum árangri í að færa úrslit í miðlægt gagnasafn sambandsins, en um nokkur árabil varð stöðnun í viðhaldi gagnasafnsins og erum við því stolt af þeirri elju sem lögð var í að færa inn úrslit vottaðra hlaupa aftur í tímann. Tveir vottaðir hlaupaviðburðir eru eftir á árinu 2024, annars vegar Haustmaraþon Félags um maraþonhlaupara og Gamlárshlaup ÍR.
Við tökum fagnandi á móti haustinu og höldum áfram að hlaupa!