Hlaupasumarið er nú rúmlega hálfnað og úrslit allra FRÍ vottaðra hlaupa sem fram hafa farið í ár eru komin í hús. Því er upplagt að líta á stöðuna, bæði á topplistanum og eigin árangri. Á topplista afrekaskrár FRÍ er hægt að skoða bestu afrek ákveðins tímabils í öllum greinum frjálsíþróttanna, og þar á meðal úr FRÍ vottuðum götuhlaupum.
Það er virkilega gaman að leika sér aðeins í að skoða topplistann og sjá hvar maður stendur meðal annarra hlaupara. En það sem er ekki síður áhugavert er að fylgjast með eigin framvindu, bera saman árangur milli ára og sjá hvernig maður er að þróast sem hlaupari. Það er einmitt hægt í afrekaskrá FRÍ. Öll þau sem hafa lokið FRÍ-vottuðu götuhlaupi eiga þar prófíl og geta skoðað eigin árangur, bæði frá yfirstandandi tímabili og fyrri árum. Það er bæði hvetjandi og skemmtilegt að fylgjast með eigin framförum og jafnvel setja sér ný markmið út frá því. Hvetjum alla hlaupara til að kíkja á sinn prófíl og renna yfir topplistann líka.
Athugið að aðeins árangur úr FRÍ vottuðum götuhlaupum er færður í afrekaskrá FRÍ og telst til löggilds árangurs. En hvers vegna er það? Afrekaskrá FRÍ er opinber skrá yfir viðurkenndan árangur í greinum frjálsíþrótta, og þar með í götuhlaupum og til þess að árangur teljist lögmætur og þar með færður í afrekaskrána, þurfa viðburðir að uppfylla ákveðin skilyrði. Þar á meðal eru:
– Rétt mæld vegalengd samkvæmt alþjóðlegum stöðlum
– Tímataka í samræmi við reglur
– Skráning úrslita með fullnægjandi upplýsingum
Þetta kann að hljóma tæknilegt – en tilgangurinn er einfaldur:
Að bera ekki saman epli og appelsínur.
Í FRÍ vottuðum hlaupum er auk þess viðurkenndur dómari á staðnum sem sér til þess að framkvæmd hlaupsins sé í samræmi við reglur sambandsins og alþjóðlega staðla. Þetta er ekki formsatriði heldur lykilforsenda þess að árangur teljist viðurkenndur, bæði á Íslandi og erlendis. Dómgæslan tryggir réttmæti og gildi árangurs og skapar trausta umgjörð utan um hlaupin til hagsbóta fyrir hlaupara, mótshaldara og íþróttina í heild.
Rétt skráning úrslita og afreka tryggir sanngirni, gagnsæi og virðingu fyrir afreki hvers og eins hlaupara.
Það er ekki tilviljun að maraþon og önnur götuhlaup njóta sérstakrar virðingar í frjálsíþróttaheiminum og eru meðal þekktustu frjálsíþróttagreinanna meðal almennings. Saga maraþonsins nær aftur til Forn-Grikklands og var maraþon meðal keppnisgreina á fyrstu nútíma Ólympíuleikunum árið 1896. Í dag eru götuhlaup, hvort sem það eru 5 km hlaup eða heilu maraþonin, í senn aðgengileg og góð leið fólks til að prófa eigin mörk og til að taka þátt í einni vinsælustu almenningsíþrótt í heimi.
Að tryggja að hlaupaafrek séu rétt skráð og metin er því ekki aðeins formsatriði heldur virðingarvottur við þessa rótgrónu grein frjálsíþróttanna. Því skiptir máli að skrá og viðurkenna árangur á réttum forsendum til að heiðra bæði söguna og afrekin sem enn eru að verða til í dag.
Við hvetjum því hlaupara til að:
– Velja götuhlaup sem eru vottuð af FRÍ
– Ganga úr skugga um að réttur tími hafi skilað sér í afrekaskrána
– Og ekki hika við að hafa samband ef eitthvað virðist vanta í afrekaskrána
Eins bendum við á að ef hlauparar vilja fá árangur úr erlendum hlaupum skráðan í afrekaskrána þá þarf að óska sérstaklega eftir því á ákveðnu skráningarformi sem er að finna á heimasíðu FRÍ.
Ef þið viljið kynna ykkur FRÍ vottuð hlaup betur þá er hægt að lesa ýmislegt um þau hér.
Hér er svo hægt að lesa meira um afrekaskrána og afrek í götuhlaupum.