Afrekaskrá (Sif) og mótaforrit FRÍ (Þór)
Afrekaskrá er gagnagrunnur sem varðveitir upplýsingar um úrslit (afrek) í frjálsum íþróttum þar með talið götuhlaupum. Gögn í Sif eru sótt úr mótaforritinu Þór, hvort heldur innlend eða erlend úrslit.
Í Sif er meðal annars haldið utan um gildandi Íslandsmet á hverjum tíma auk eldri meta. Jafnframt eru “topplistar” sem sýna besta heildar árangur í vegalengd eða innan aldursflokka.
Hvaða úrslit í götuhlaupum eru skráð í afrekaskrá?
Innlend. Úrslit götuhlaupa sem eru vottuð af FRÍ eru færð í Þór-mótakerfið og þaðan í Sif-afrekaskrá. Vottuð hlaup uppfylla skilyrði reglugerðar um framkvæmd götuhlaupa og var sett í apríl 2018. Í reglugerð um framkvæmd götuhlaupa er tilgreint að auk þeirra þá gilda lög og reglugerðir FRÍ, ÍSÍ og keppnisreglur World Athletics.
Fram til 2018 voru kröfur til framkvæmd götuhlaupa og framsetningu úrslita minni, þó síðasta áratugin eða svo hafi verið lögð áhersla á að hlaup þurftu að lágmarki að uppfylla það skilyrði að vera löglega mæld af aðila viðurkenndum af FRÍ. Framkvæmdaraðili hlaups hafði frumkvæði að því skila gögnum um úrslit til FRÍ.
Erlend. Frá og með janúar 2024 eru úrslit erlendra götuhlaupa sem viðurkennd eru af World Athletics og eru birt í Global Calendar þess eru birt. Götuhlaup sem skráð eru í Global Calendar eru viðurkennd af frjálsíþróttasamböndum þessa lands sem þau eru haldin í.
Fram til 2018 voru kröfur til einstakra erlendra úrslita óskilgreind, en frá 2018 – 2024 var það mat að hverju sinni hvort skrá ætti úrslit erlends viðburðar í afrekaskrá. Sem viðmið um skráningar afreka fyrir 2018 er horft til hefða m.a. hvort úrslit úr tilteknu hlaupi hafi verið skráð áður í gagnagrunninn.
Hvaðan fær FRÍ gögn um úrslit?
Innlend: Framkvæmdaraðili vottaðs hlaups ber að senda gögn um úrslit á tilteknu sniði til FRÍ innan sjö daga frá framkvæmd þess.
Erlend: Einstaklingar bera sjálfir ábyrgð á að óska eftir skráningu tíma (úrslita) frá erlendum viðburðum t.d. maraþonum. Senda þarf upplýsingar um úrslit sem óskað er eftir skráningu á hér. Veita þarf upplýsingar á við nafn og kennitölu keppanda, heiti hlaups og stað sem það fór fram, skjáskot af lokatíma auk hlekk í opinbera úrslitasíðu viðburðar.
Hvað er skráð um úrslit einstaka keppanda?
Skráning er tvíþætt. Annars vegar eru úrslit skráð í mótaforrit FRÍ og hins vegar í afrekaskrá, en svo til sömu upplýsingar eru skráðar um keppendur í báða gagnagrunnana. Í báðum tilfellum gildir að framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að senda ekki upplýsingar um úrslit þátttakenda sem heimila ekki framsendingu úrslita til FRÍ.
Í mótaforriti birtast úrslit hlaups þ.e. tímar allra keppanda óháð uppruna þeirra þ.e. erlendir sem innlendir ríkisborgarar. Í afrekaskrá eru eingöngu skráð afrek íslenskra ríkisborgara og erlendra ríkisborgara sem eiga íslenska kennitölu.
Eftirfarandi upplýsingar eru skráðar: Nafn, kennitala, fæðingarár, kyn, ríkisfang, brúttótími, flögutími og aðildarfélag ef við.
Árangur þátttakenda birtist á “prófíl” viðkomandi þ.e. yfirlit yfir öll skráð úrslit viðkomandi sjá t.d. síðu Kára Steins Karlssonar langhlaupara.
Persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga
Við skráningu í vottað götuhlaup skal þátttakandi veita upplýst um samþykki um framsendingu úrslita til FRÍ að öðrum kosti hafna. Mikilvægt er að einstaklingur sem velur þann kost að heimila ekki framsendingu úrslita til FRÍ fær ekki árangur staðfestan t.d. aldursflokkamet eða Íslandsmet.
Framkvæmdaraðila hlaupsins er óheimilt að senda FRÍ úrslit hafi einstaklingur óskað eftir því í skráningarferlinu að persónugreinanlegar upplýsingar auk tíma verði framsendar til FRÍ sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmd götuhlaupa.
Eftir að úrslit hafa verið afhent til FRÍ teljast þau samþykkt til birtingar og eru skráð. Úrslit úr einstaka götuhlaupa viðburðum eru ekki fjarlægð eftir að þau eru birt m.ö.o. hlaupari getur ekki valið eftir á hvaða afrek eiga að birtast og hvað ekki og þar með “lagað til” sögu afreka.
Einstaklingur hefur rétt á að láta fjarlægja öll ummerki um sjálfan sig þ.e. birt úrslit og afrek. Mikilvægt er að hafa í huga að við slíka aðgerð falla niður öll þau met sem einstaklingur kann að hafa sett og röð úrslita kann að breytast. Beiðnir um að vera afmáð/ur úr afrekaskrá skal senda á skrifstofa@fri.is.
Nánari upplýsingar um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá FRÍ eru hér.