Að bera saman epli og appelsínur – afrek í götuhlaupum.

Penni

2

min lestur

Deila

Að bera saman epli og appelsínur – afrek í götuhlaupum.

Það er svekkjandi að koma í mark á sínum besta tíma og komast að því að hlaupaleiðin reyndist ekki rétt mæld eða að merkingum hafi verið svo ábótavant að þú annað hvort hljópst of stutt eða of langt. Hvað þá ef þinn besti tími í 10 km er í gögnum borin saman við tíma Jóns sem hljóp 9,7 km en er skráður sem 10 km í gögnum.  Hljómar ósennilegt og óalgengt?  Því miður er raunin svo að tilvik sem þessi voru og eru enn algeng í götuhlaupum.

Til að sporna við þessari þróun þá lagðist langhlaupanefnd Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) á eitt að setja reglugerð um framkvæmd götuhlaupa með það að leiðarljósi að auka gæði götuhlaupa og jafna viðmið afreka þannig að ekki væri verið að bera saman appelsínur og epli. Reglugerðin var samþykkt árið 2018 og með gildistöku hennar var lögð sú lína að einungis götuhlaup sem uppfylltu skilyrði reglugerðarinnar skyldu skráð í afrekaskrá FRÍ. Að auki eru skráð erlend afrek sem uppfylla tiltekin skilyrði og ber hver og einn hlaupari ábyrgð á að tilkynna erlend afrek til FRÍ og fá þau skráð. 

Til þess að framkvæmdaraðili fái vottun FRÍ á hlaupi þá þarf hann að uppfylla tiltekin skilyrði um framkvæmd á hlaupadag, gæði skráningar þátttakenda og afhendingu úrslita. 

Frá 2018 hafa rúmlega 50 hlaup (vegalengdir) hlotið vottun FRÍ, sjá hér, og hefur árangur í þeim öllum verið skráður í afrekaskrá.  Alls tóku 22.883 þátttakendur þátt í vottuðum FRÍ hlaupum frá 2018 til 2023, og hefur árangur yfirgnæfandi meirihluta þeirra fengið árangur sinn skráðan. Unnið er markvisst að því að leysa úr villuráfandi hlaupurum sem ekki hafa fengið árangur sinn skráðan, en þar er aðallega átt við hlaupara sem eru skráðir til úrslita t.d. bara með fornafni og ártali. Í ár verður slíkt tekið föstum tökum og framkvæmdaraðilar beðnir um að sýna fram á gæði skráningar áður en vottun er staðfest.

Topplistar hafa tekið stakkaskiptum og nú má sjá fjöldan allan af nýlegum tímum fylla efstu 100 sæti yfir besta árangur heildrænt eða í aldursflokkum. 

Nú þegar hlaupasumarið er rétt handan við hornið þá skorum við á hlaupara að velja sín hlaup af gaumgæfni, gera kröfu um að framkvæmd sé vottuð og árangur viðurkenndur og samanburðarhæfur.

Penni

2

min lestur

Deila

Að bera saman epli og appelsínur – afrek í götuhlaupum.

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit