Í dag eru 60 ár frá því að íslenskar konur tóku í fyrsta sinn þátt í landskeppni í frjálsíþróttum en það var 21. ágúst 1965.
Keppnin, sem var á milli Íslands og Skotlands, fór fram í Edinborg og var hluti af árlegum Hálandaleikum. Í kvennakeppninni var aðeins keppt í fjórum greinum. Tveir kepptu frá hvoru landi í hverri grein og reyndust skosku stúlkurnar sterkari, þótt ekki væri munurinn mikill. Í 100 yarda (91,44 m) hlaupi varð Lilja Sigurðardóttir þriðja á 12,0 sek. og Björk Ingimundardóttir fjórða á 12,4 sek. Í 200 yarda (182,88 m) hlaupi varð Björk þriðja á 27,3 sek. og Halldóra Helgadóttir fjórða á 27,7 sek. Í 80 yarda (73,15 m) grindahlaupi varð Halldóra þriðja á 12,9 sek. og Linda Ríkarðsdóttir fjórða á 13,4 sek. Þær fjórar stóðu svo uppi sem sigurvegarar í 4×100 yarda (91,44 m) boðhlaupi en skoska sveitin var dæmd úr leik. Í karlakeppninni var einnig keppt í mun færri greinum en tíðkaðist en ekki mátti kasta á vellinum, sem var grasvöllur. Kastararnir fengu þó að keppa en þá í keppni sem var hluti af Hálandaleikunum en ekki landskeppninni.
Núna sextíu árum síðar eigum við íslenskar frjálsíþróttakonur í fremstu röð í, konur sem hafa vakið athygli með frábærum árangri á stórmótum þetta sumarið. Það er því viðeigandi að minnast brautryðjendanna frá 1965 um leið og við fögnum því hve sterk staða íslenskra kvenna í frjálsíþróttum er í dag.