Íslandsmet og annar frábær árangur á Meistaramóti Íslands um helgina
Meistaramót Íslands fór fram um helgina og heppnaðist það með eindæum vel og árangur keppenda lét ekki á sér standa.
Glæsilegt Íslandsmet Eirar Chang Hlésdóttur (ÍR) í 200 m hlaupinu stendur upp úr. Eir bætti 21 árs gamalt Íslandsmet Silju Úlfarsdóttur þegar hún hljóp á 23,69 sek. Frábært hlaup hjá Eir sem er á mikilli siglingu þessa dagana og hefur verið að bæta sig mikið í 60 m, 200 m og 400 m.
Auk Íslandsmetsins þá féllu tvö mótsmet á mótinu, Eir bætti mótsmetið í 200 m með sínu frábæra hlaupi og Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) bætti mótsmetið í kúluvarpi kvenna þegar hún kastaði 17,41 m.
Eins voru sett tvö aldursflokkamet í flokki 16-17 ára pilta. Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) setti nýtt aldursflokkamet í kúluvarpi með 7 kg kúlunni þegar hann kastaði 13,80 m og bætti þar með 55 ára gamalt met Grétars Guðmundssonar um 3 cm. Svo bætti Sindri Karl Sigurjónsson (UMSB) aldursflokkametið í 3000 m hlaupi þegar hann kom í mark á tímanum 9:07,99 mín, en eldra met átti Hlynur Ólason, 9:10,02 mín og var það frá 2018.
Fríða Rún Þórðardóttir stórbætti eigið aldursflokkamet í flokki 55-59 ára í 1500 m hlaupi en hún hljóp á 5:16,20 mín, en fyrra met hennar var 5.25,45 mín. Þessi tími hennar Fríðu setur hana í 2. sætið á heimslistanum í hennar aldursflokki.
Auk alls ofangreinds þá voru sett hvorki meira né minna en 65 persónuleg met.
Stigahæsta afrek kvenna átti Eir, en það fyrir 200 m hlaupið, og hlaut hún 1112 stig. Stigahæsta afrek karla átti Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) en hann hljóp frábærlega í 60 m grindahlaupi þar sem hann kom í mark á tímanum 8,08 sek, sem gaf honum 1015 stig. Þess má geta að þessi tími Þorleifs er annar besti tími sögunnar í 60 m grindahlaupi innanhúss.
Það voru ÍR-ingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í stigakeppni félagsliða, eftir hörkuspennandi keppni við FH-inga. ÍR endaði með 49 stig og FH með 46 stig, Fjölnir varð svo í þriðja sæti með 31 stig.
Frábær árangur á virkilega skemmtilegu og vel heppnuðu Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum.
Erna Sóley á sterku móti í Tékklandi
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppti á sterku móti í Tékklandi á miðvikudaginn, 19. febrúar. Hún lenti þar í fjórða sæti með kast upp á 17,58 m. Úrslitin má sjá hér.
Karen Sif með flott stangarstökk á móti í Danmörku og persónulega bætingu
Karen Sif Ársælsdóttir (Breiðablik) keppti í stangarstökki á danska meistaramótinu um helgina og lenti í þriðja sæti þegar hún stökk 3,80 m, sem er persónuleg bæting um 5 cm, en hún átti best 3,75 frá því í lok janúar. Úrslitin má sjá hér.
Hvað er framundan?
Þá fer að líða að hinum hápunkti innanhússtímabilsins í frjálsíþróttum, en það er Bikarkeppni FRÍ sem fram fer nk. laugardag, 1. mars, í Kaplakrika.
Á sama tíma fer Bikarkeppni 15 ára og yngri fram, einnig í Kaplakrika.