Eins og við er að búast á þessum árstíma þá var nóg að gera á frjáslíþróttavellinum þessa vikuna, bæði innanlands og erlendis.
Frábær árangur á RIG
Frjálsíþróttahluti Reykjavíkurleikanna fóru fram síðastliðið mánudagskvöld, 27. janúar. Frábær árangur náðist í mörgum greinum á mótinu og þar ber helst að nefna frábært Íslandsmet Baldvins Þórs Magnússonar (UFA) í 1500 m hlaupi, þar sem hann bætti sitt eigið met um tæpa eina og hálfa sekúndu þegar hann hljóp á 3:39,67.
Ungi spretthlauparinn Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) átti líka frábært mót og bætti sig í 60 m hlaupi og 400 m hlaupi, auk þess sem hún sigraði 400 m hlaupið.
Stigahæstu afrek mótsins áttu 1500 m hlaupararnir Baldvin Þór Magnússon (UFA) og Aníta Hinriksdóttir (ÍR).
Ítarlega frétt um mótið má sjá hér.
Júlía Kristín með aldursflokkamet
Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) bætti eigið aldursflokkamet í 60 m grindahlaupi, í flokki U23, á móti í Bandaríkjunum (Robert Platt Invitational) um helgina, þegar hún hljóp á 8,55 sek. Júlía Kristín hélt utan til Bandaríkjanna síðastliðið haust til að hefja háskólanám við Rice University í Texas.
Helga Þóra, Guðbjörg Jóna og Daníel Ingi með flottan árangur á mótum um helgina
Hástökkvarinn Helga Þóra Sigurjónsdóttir (Fjölnir) keppti á móti í Bandaríkjunum um helgina og náði þar flottum árangri þegar hún sigraði hástökkskeppnina með stökki upp á 1,83 m.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) keppti í 200 m hlaupi á móti í Malmö í Svíþjóð um helgina og hljóp á fínum tíma, 24,16 sek og sigraði hlaupið.
Langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson (FH) keppti á móti í Póllandi um helgina og stökk þar 7,63 m og lenti í 4. sæti.
Nóg framundan
Svo er nóg framundan, bæði hér heima og erlendis.
- Á fimmtudaginn, 6. febrúar, fer fram 2. Nike mót FH í Kaplakrika. Sjá nánar um mótið hér.
- Um næstu helgi, 8.-9. febrúar, fer Meistaramót 11-14 ára fram í Kaplakrika. Sjá nánar um mótið hér.
- Næstkomandi sunnudag, 9. febrúar, fer fram Norðurlandameistaramótið innanhúss í Espoo í Finnlandi. Íslenskir keppendur verða nokkrir og keppa þeir í sameiginlegu liði Íslands og Danmerkur. Nánari frétt um mótið og íslensku keppendurna birtist innan skamms. Sjá nánar um mótið hér.