Frábær vika að baki! Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) náði lágmarki á U23 í 100 m grindahlaupi á fyrsta móti tímabilsins. Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR) og Hafsteinn Óskarsson (ÍR) stóðu sig frábærlega á HM í eldri aldursflokkum. Svo náðist ýmiss annar góður árangur á mótum erlendis í vikunni. Utanhússtímabilið er að fara vel af stað hjá frjálsíþróttafólkinu erlendis.
Júlía Kristín með bætingu U23 lágmark í 100 m grindahlaupi
Júlía Kristín átti heldur betur frábært innanhússtímabil í ár þar sem hún raðaði inn persónulegum bætingum og bætti aldursflokkametið í 60 m grindahlaupi þrisvar sinnum Fyrst þegar hún hljóp á 8,55 sek á Robert Platt Invitational í byrjun febrúar, viku síðar (10. febrúar) hljóp hún svo á 8,48 sek á Charlie Thomas Invitational í Texas og svo um miðhan febrúar bætti hún aldursflokkametið í þriðja sinn þegar hún hljóp á 8,45 sek á Jarvis Scott Invite í Texas.
Hún var svo að hefja utanhússtímabilið sitt um helgina þegar hún keppti í 100 m grindahlaupi á móti í Bandaríkjunum og ekki annað hægt að segja að hún hafi byrjað af krafti en hún hljóp á 13,74 sek, sem er bæting um 3 sekúndubrot, en það sem meira er þá er þetta lágmark inn á EM U23 sem fram fer í Bergen í Noregi dagana 17.-20. júlí nk. Frábær árangur á fyrsta móti tímabilsins.
Þar með er Júlía Kristín fjórði íslenski keppandinn sem nær lágmarki á mótið en fyrir hafa þær Hera Christensen (FH), Birta María Haraldsdóttir (FH) og Eva María Baldursóttir (Selfoss) náð lágmörkum. Hera í kringlukasti og Birta María og Eva María í hástökki.
Frábær árangur á HM í eldri aldursflokkum
Okkar fólk, Hafsteinn Óskarsson (ÍR) og Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR) áttu heldur betur frábært mót á Heimsmeistaramóti eldri aldursflokka sem fram fór í Flórída dagana 23.-30. mars. Fríða gerði sér lítið fyrir og vann til verðlauna í þremur greinum af þeim fjórum sem hún keppti í og setti einnig eitt Norðurlandamet í sínum aldursflokki. Hafsteinn vann ein verðlaun og náði sínum besta árangri á HM. Sjá ítarlega frétt um árangur þeirra Fríðu og Hafsteins hér.
Íslenskir frjálsíþróttafólk á mótum erlendis
Sleggjukastarinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) gerði sér ferð alla leið til Melbourne í Ástralíu til að taka þátt í sterku móti þar sem kallast Maurie Plant Meet og endaði hún þar í 7. sæti með kast upp á 66,01 m. En sleggjukaststímabilið er rétt að byrja þannig að það er nóg framundan hjá henni Elísabetu og verður gaman að sjá hvað hún gerir í sumar, en hún átti frábært sumar í fyrra.
Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) var með góða persónulega bætingu í 1500 m hlaupi á móti í Bandaríkjunum, fyrsta mót tímabilsins hjá henni, þar sem hún hljóp á 4:31,46 mín, sem er bæting um hvorki meira né minna en rúmar átta sekúndur utanhúss. Frábært hjá henni Emblu og er þessi tími hennar sjöundi besti tíminn utanhúss hjá íslenskri konu.
Helga Þóra Sigurjónsdóttir (Fjölnir) sigraði hástökkið á Hurricane Collegiate Invitanional í Florída þegar hún stökk 1,79 m, sem er annar besti árangur hennar utanhúss en hún hefur stokkið hæst utanhúss 1,80 m. Þessi árangur Helgu Þóru er einnig mótsmet. Flottur árangur hjá Helgu Þóru.
Sigursteinn Ásgeirsson (ÍR) sigraði kúluvarpið á Adidas Trojan Challenge í Bandaríkjunum þegar hann var með persónulega bætingu og kastaði 16,75 m. Flottur árangur þar einnig.