“Þannig að sigra sjálfan sig og skilja sjálfan sig betur er eitt af því sem maður lærir í íþróttunum“ Viðtal við Víði Reynisson, formann allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis

Penni

5

min lestur

Deila

“Þannig að sigra sjálfan sig og skilja sjálfan sig betur er eitt af því sem maður lærir í íþróttunum“ Viðtal við Víði Reynisson, formann allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis

Það er óhætt að gera ráð fyrir því að landsfólk allt þekki Víði Reynisson enda stóð hann brattur í brúnni á Covid tímum, en núna er hann kominn í annað hlutverk. Víðir er núna kominn á þing, og ekki nóg með það, heldur er hann kominn í ríkisstjórn. En hann er alþingismaður Samfylkingarinnar fyrir Suðurkjördæmi.

Víðir lenti því óheppilega atviki í byrjun febrúar þegar verið var að úthluta þingsætum á Alþingi að hann rekur sig illa í kantinn á ræðupúltinu með þeim afleiðingum að hann fellur til, en eins og ein skemmtileg fyrirsögn sagði “Frjálsíþróttirnar björguðu”.

Við ákváðum að grípa gæsina og hafa samband við Víði og ræddum um frjálsíþróttaiðkun hans og hvernig hún hefur nýst honum í gegnum árin, en ekki síður til að taka púlsinn á honum varðandi áherslur nýrrar ríkisstjórnar þegar kemur að íþróttamálum, enda er Víðir formaður allsherjar-og menntamálanefndar sem fer m.a. með íþróttamál í landinu.

Þess má einnig til gamans geta að Víðir ætlar að mæta á Bikarkeppni FRÍ á morgun í Kaplakrika og fylgjast með nokkrum greinum og veita verðlaun í lokin. Verður gaman að sjá hann á vellinum.

Jæja hvernig hafa fyrstu vikurnar í nýju starfi verið?

„Sko, þetta er eiginlega búið að vera skemmtilegra heldur en ég átti von á. Það var auðvitað dálítið löng bið frá því að kosningarnar voru og þangað til þingið kom saman, þannig að maður orðinn rosa spenntur að byrja og fara að takast á við verkefnin. Svo er þetta bara búið að vera mjög gaman og maður sér strax að þau verkefni sem snúa að þeim nefndum sem ég er í eru alveg gríðarlega fjölbreytt. Ég er í allsherjar-og menntamálanefnd og þar eru t.d. íþróttirnar. Við erum aðeins búin að snerta á því og horfa á þau mál og erum auðvitað í miklu samstarfi við mennta-og barnamálaráðherra sem fer með íþróttamálin, hún er búin að koma til okkar og fara yfir ýmislegt. Í þessari nefnd eru líka löggæslu-og öryggismálin sem ég þekki úr mínu fyrra lífi. Svo er ég líka í utanríkismálunum og það er auðvitað rosalega mikið að gerast í því í heiminum í dag. Þannig að þetta er bara skemmtilegt og alveg ofboðslega mikið af góðu fólki sem vinnur í kringum Alþingi, ritararnir í nefndunum, lögfræðingar sem eru ótrúlega klárt fólk og maður þarf að vera auðmjúkur þegar maður áttar sig á því hvað það er mikil vinna á bak við þetta allt saman. Við sem eru alveg ný í þessu, maður sá alltaf bara það sem var að gerast í þingsalnum og einstaka sinnum heimsótti ég nefndir út af vinnunni. Svo sér maður hvað þetta er mikið meira, það var einn sem sagði að þetta væri svona eins og risastór lífvera og það er eiginlega akkúrat þannig, þetta er risalífvera og það er mikið í gangi og mikið að gerast og ofboðslega mikið af fagfólki sem heldur utan um þetta að þetta sé allt saman rétt gert. Þetta er bara gaman“.

Byrjum bara á byrjununni, hver er þinn frjálsíþróttabakgrunnur?

„Sko, minn frjálsíþróttabakgrunnur, þegar ég var krakki þá æfði ég frjálsar. Ég er uppalinn í Vestmannaeyjum og þar var alltaf á sumrin íþróttanámskeið og þar gat maður valið um íþróttir og þar voru m.a. frjálsar, og voru fótbolti og frjálsar það sem ég æfði alltaf á sumrin. Síðan á veturna þá gátum við haldið áfram að æfa hástökk og langstökk án atrennu og það var það sem kom mér til góða í þessu atviki mínu á þinginu þegar ég rek tærnar svona skemmtilega í. Þar var eitthvað gamalt langstökk án atrennu sem tók sig upp. Langstökk án atrennu er auðvitað hægt að æfa alls staðar. Ef þú ætlar að vera í langstökki þá þarftu braut og gryfju til að lenda í, en langstökk án atrennu og hástökk var eitthvað sem við gátum alltaf æft á veturna. Ég var með frábæra íþróttakennara í Eyjum og þeir leyfðu okkur að prófa allt. Á fyrstu árunum eftir gos vorum við með mjög lítið íþróttahús og svo var byggt þetta fína íþróttahús, en það var bara verið að sníða eftir þeim aðstæðum sem voru hverju sinni. Fyrst um sinn var bara mjög lítill íþróttasalur, en það var samt hægt að æfa hástökk og það var hægt að æfa langstökk án atrennu“.

En hvað stökkstu langt?

„Veistu ég man það ekki, en ég var ágætur. Ég var ágætur í spretthlaupi, ég gat hlaupið dáldið hratt, og ég var ágætur í langstökki án atrennu. Einhver sprengikraftur“.

Nú elstu upp í Vestamannaeyjum þar sem er mjög sterk íþróttahefð, heldur þú að allt þetta íþróttauppeldi hafi hjálpað þér í þeim krefjandi störfum sem þú hefur valið þér?

„Já alveg pottþétt! Það er eitt af því sem ég held að maður búi alla ævi að. Maður hefur byggt upp einhvern svona grunn. Ef þú ætlar að gera eitthvað þá þarftu sjálfsaga og þú þarft seiglu, þarft að geta tekið ósigrunum og þarft að kunna að vinna líka. Þetta er eitthvað sem við lærum í íþróttunum og eitt af því mikilvæga sem við lærum þar. Það verða ekkert allir afreksíþróttamenn en það geta allir sigrað sjálfan sig og það er eitthvað sem ég hugsaði, sérstaklega í seinni tíð, að geta farið heim af æfingu og sagt í dag gat ég haldið boltanum á lofti 102 sinnum en ég gat það aðeins 80 sinnum í gær, en sá sem var bestur gat það 500 sinnum, en ég var ekki að miða mig við hann. Þannig að sigra sjálfan sig og skilja sjálfan sig betur er eitt af því sem maður lærir í íþróttunum“.

Langar líka aðeins að fá að spyrja út í íþróttamálin hjá nýrri ríkisstjórn. Forverar ykkar í ríkisstjórn lögðu talsverða áherslu á íþróttamálin með ráðningu afreksstjóra ÍSÍ og með hugmyndum um Afreksmiðstöð Íslands, launasjóð íþróttafólks o.fl. Hver verða ykkar áhersluatriði hvað íþróttir og íþróttafólk varðar?

„Við ætlum að halda áfram öllum góðum verkum sem hafa verið í gangi og þetta hefur einmitt verið rætt og ég veit að ráðherrann, Ásthildur Lóa, hefur kynnt sér þetta og eitt það fyrsta sem hún gerði var að vera viðstödd Íþróttamann ársins. Þó, eins og hún segir sjálf, hafi sjálf ekki verið mikið í íþróttum þá var pabbi hennar m.a. stjórnarmaður í Knattspyrnusambandinu í áraraðir, þannig að hún hefur íþróttatenginguna. Í grunninn erum við bara að halda áfram með öll góð verkefni sem hafa verið unnin og það er ekkert bakslag í því“.

Þó svo að áhersla ríkisstjórnarinnar sé hagræðing og er m.a. að fækka ráðuneytum, heldur þú að það verði einhvern tímann sérstakt íþróttamálaráðuneyti á Íslandi?

„Þetta er mjög góður punktur. Ef við skoðum aðeins t.d. tal um listir og menninguna og hvað það er að gefa til baka til samfélagsins og mikið rætt um það í kosningabaráttunni hversu miklu þessar skapandi greinar eru að skila inn. En svo sjáum það svo líka ef við tökum íþróttirnar, hversu miklu þær eru að skila. Það er mikil starfsemi í kringum íþróttir, ekki bara að búa til umhverfi fyrir börn, unglinga og fullorðið fólk til að æfa og keppa, heldur er þetta orðinn business líka og það eru fullt af tækifærum í því. Af hverju getum við ekki horft á þetta þannig að íþróttir verði stór hluti, bæði menningarlega, lýðheilsulega og jafnvel viðskiptalega. Það á aldrei að útiloka neitt“.

Finnst svo gott að þú nefnir íþróttir í menningarlegu samhengi, því íþróttir eru auðvitað mjög stór partur af íslenskri menningu og íslensku samfélagi.

„Með menninguna og íþróttir, við erum með fólkið sem að keppir, fólkið sem að þjálfar, sjúkraþjálfara, næringarráðgjafa og allskonar fólk í kringum það. Svo ertu með foreldra, ættingja og vini sem eru stuðningsfólk og úr því verður ákveðin menning. Ég hef fengið tækifæri til að stunda margar íþróttir og ég er alæta á íþróttir og finnst mjög gaman að horfa á allar íþróttir, alveg sama hvað það er. Þá sér maður að menningin á bak við hverja íþrótt er aðeins mismunandi og hún er auðvitað líka aðeins mismunandi á milli landa. Íþróttirnar eru stór partur af svo ofsalega mörgum, fólk á einhverja svona tengingu, sem er þá menningarleg, við íþróttir“.

Við þökkum Víði kærlega fyrir skemmtilegt spjall og óskum honum velfarnaðar í nýju starfi og nýjum verkefnum.

Penni

5

min lestur

Deila

“Þannig að sigra sjálfan sig og skilja sjálfan sig betur er eitt af því sem maður lærir í íþróttunum“ Viðtal við Víði Reynisson, formann allsherjar-og menntamálanefndar Alþingis

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit