Í gær, mánudaginn 25. nóvember, var ítalski frjálsíþróttaþjálfarinn Andrea Uberti með fyrirlestur og verklega kennslu í Fífunni í Kópavogi. Það var vel mætt á viðburðinn og voru rúmlega 30 áhugasamir þjálfarar og iðkendur mættir til að hlýða á Andrea og taka þátt í æfingum hans.
Andrea er ítalskur frjálsíþróttaþjálfari með mikla reynslu í þjálfun spretthlaupa, grindahlaupa og þraut. Í dag er hann m.a. að þjálfa langstökkvarann Birnu Kristínu Kristjánsdóttur.
Andrea er level 4 IAAF þjálfari í spretthlaupum, boðhlaupum og grindahlaupum, level 4 þjálfari í millivegalengdar-og langhlaupum frá ástralska frjálsíþróttasambandinu og sérfræðingur í fjölþrautaþjálfun frá ítalska frjálsíþróttasambandinu.
Hann hefur m.a. þjálfað Atletica Brescia á Ítalíu, sem eru samfelldir Ítalíumeistarar árin 2019-2024. Auk þessa þá hefur hann þjálfað í Ástralíu, Kúbu, Svíþjóð, Sviss og á Spáni. Hann hefur undandarin ár þjálfað þrjá ítalska grindahlaupara sem hafa keppt á alþjóðavettvangi og þ.ám Elenu Carraro sem varð ítalskur U23 meistari í 100 m grindahlaupi, vann silfur á EM U23 í Finnlandi 2023 og á ítalska meistaramótinu.
Áherslan hjá honum Andrea í gær var á grindahlaup og fór hann yfir lykilþætti í grindahlaupsþjálfun og fór yfir ýmisskonar áhugaverðar og skemmtilegar æfingar sem tengjast slíkri þjálfun.
Andrea ætlar að vera svo góður að senda okkur fyrirlesturinn sinn og verður hann settur inn á heimasíðuna og einnig einhver myndbönd frá verklegu kennslunni hans. Nánari upplýsingar um það koma seinna.
Við hjá FRÍ þökkum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna og vonum að þetta hafi verið gott og gagnlegt erindi og að þið hafið tekið eitthvað nýtt með ykkur inn í ykkar þjálfun og æfingar. Kærar þakkir einnig til hans Andrea fyrir að vera með þennan skemmtilega viðburð fyrir okkur.
Nokkrar myndir frá viðburðinum má sjá hér að neðan.