Ekki var seinni dagur Norðurlandamótsins í fjölþrautum síðri en sá fyrri og stóð íslenska frjálsíþróttafólkið sig vel í dag.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson endaði í 5. sæti í tugþraut U18 en hann hlaut 6733 stig og var hann aðeins 37 stigum frá þriðja sætinu. Þetta var alveg virkilega sterk og spennandi þraut í U18 flokknum og voru sjö keppendur sem fengu yfir 6500 stig. Heilt yfir var þetta flottur dagur hjá Hjálmari og það sem stendur upp úr eru kastgreinarnar tvær en hann var með annað lengsta kastið í kringlukasti þar sem hann kastaði 46,41 m og svo var hann með lengsta kastið í spjótkastinu en þar kastaði hann 57,57 m. og bætist það við sigur í kúluvarpinu í gær og annað sæti í hástökkinu, sjá nánar hér hvernig fyrri dagurinn var hjá Hjálmar. Hjálmar var með svakalega bætingu í þraut á þessu móti, og var hann m.a.s. búinn að bæta persónulega árangur sinn, frá því á NM í fjölþrautum í fyrra, eftir níu greinar. Fyrri árangur hans var 6161 stig þannig að um er að ræða næstum því 600 stiga bætingu. Hjálmar er á virkilega flottri og öflugri siglingu í þrautinni og verður gaman að fylgjast með honum á næstu misserum. Heildarúrslitin hans Hjálmars má sjá hér.
Ísold Sævarsdóttir gerði sér lítið fyrir og nældi sér í silfurverðlaun í sjöþraut U20 þar sem hún fékk 5490 stig og er það einnig lágmark inn á EM U20 sem fram fer í Tampere í Finnlandi dagana 7.-10. ágúst nk. Frábær árangur hjá henni Ísold. Dagurinn hennar Ísoldar var góður og byrjaði hún á því að stökkva 5,81 m í langstökki sem var annað lengsta stökkið í keppninni, svo var hún mjög nálægt því að rjúfa 40 m múrinn í spjótkasti (með 600 g spjótinu) en hún kastaði 39,71 m og svo endaði hún daginn á því að koma fyrst í mark í 800 m hlaupinu á 2:15,97 mín. Greinilegt að Ísold er í hörkuformi og á nóg inni fyrir komandi tímabil. Heildarúrslitin hennar Ísoldar má sjá hér.
María Helga Högnadóttir endaði í 12. sæti í sjöþraut kvenna með 4893 stig, sem er bæting um 100 stig. María Helga sýndi mikinn styrk í lokagreininni þegar hún kláraði 800 m þrátt fyrir smá meiðsli í ökkla. En eins og mörg vita þá er ekkert alltaf sjálfgefið að klára þraut og það er stundum sigur út af fyrir sig. Miðað við árangur Maríu þessa helgina þrátt fyrir þessi meiðsli þá á hún mikið inni og mun örugglega rjúfa 5000 stiga múrinn innan skamms. Heildarúrslit Maríu Helgu má sjá hér.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir endaði í 9. sæti í sjöþraut kvenna með 5238 stig, sem er um 150 stigum frá hennar besta árangri frá því í vor. Þetta var flott þraut hjá Júlíu Kristínu þar sem 100 m grindahlaupið hennar í gær stendur upp úr. En þess má geta að Júlía Kristín er ein þeirra íslensku keppenda sem taka þátt í EM U23 sem fram fer í Bergen í Noregi dagana 17.-20. júlí en þar keppir hún einmitt í 100 m grindahlaupi. Heildarúrslit Júlíu Kristínar má sjá hér.
Við getum sannarlega verið stolt af þessu flotta íþróttafólki sem stóð sig með mikilli prýði þessa helgina hérna í Gautaborg. Þau kláruðu öll sínar þrautir og með hinum fínasta árangri. Óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn sinn.