Seinni dagur Norðurlandameistaramóts U20 í Uppsala í Svíþjóð fór fram í dag. Íslensku keppendurnir áttu flottan fyrri dag í gær og dagurinn í dag var ekki síðri.
Það sem stendur upp úr eftir daginn er frábært 200 m hlaup Eirar Chang Hlésdóttur, en hún sigraði hlaupið þegar hún kom í mark á 23,42 sek, sem er hraðar en Íslandsmet hennar en vindurinn var +2,8 og því ekki um Íslandsmet að ræða. Frábær árangur hjá Eir sem hlaut bronsverðlaun í 100 m hlaupinu í gær.
Helga Lilja Maack keppti í 800 m hlaupi og kom þar í mark á 2:20,78 sek og hafnaði í 6. sæti.
Sara Kristín Lýðsdóttir stökk 11,59 m í þrístökki og hafnaði í 7. sæti.
Hekla Magnúsdóttir átti flotta kúluvarpskeppni og hafnaði þar í fjórða sæti með kast upp á 12,85 m, sem er bæting um 12 cm, og var hún aðeins þremur sentímetrum frá þriðja sætinu. Flottur árangur hjá henni Heklu.
Birna Jóna Sverrisdóttir lenti í 6. sæti í sleggjukasti en lengsta kast hennar var 49,39 m.
Arnar Logi Brynjarsson hafnaði í 8. sæti í 200 m hlaupinu en hann hljóp á 21,83 sek og er það bæting um 10 sekúndubrot, virkilega vel gert hjá Arnari Loga.
Þorvaldur Gauti Hafsteinsson bætti sig um rúmlega eina sekúndu í 800 m hlaupi utanhúss þegar hann kom áttundi í mark á 1:57,28 mín. Flott hlaup hjá Þorvaldi Gauta.
Sindri Karl Sigurjónsson keppti í sínu fyrsta 5000 m hlaupi í dag á braut og kom í mark á 15:48,52 mín og hafnaði í 8. sæti. Flott frumraun hjá þessum unga og efnilega hlaupara í greininni, en þess má geta að hann var eini keppandinn fæddur 2009 í hlaupinu, allir hinir eru fæddir 2006 og 2007. Sindri á því nóg eftir í unglingalandsliðsverkefnum.
Pétur Óli Ágústsson bætti sig í 400 m grindahlaupi um næstum því eina sekúndu þegar hann kom í mark á 57,57 sek og lenti hann í sjötta sæti. Vel gert hjá Pétri Óla.
Ívar Ylur Birkisson stökk 1,83 m í hástökki og endaði hann í 9. sæti.
Egill Atlason Waagfjörð stökk 13,18 m í þrístökki sem er hans lengsta stökk hingað til en vindurinn var heldur mikill, +3,4, en langt stökk hjá Agli engu að síður sem skilaði honum 8. sæti.
Þorsteinn Pétursson var með enga smá bætingu í kringlukastinu en hann kastaði lengst 47,38 m, en lengsta kast hans áður var 43,68 m, og hafnaði hann í 7. sæti. Frábært hjá Þorsteini, en þetta kast hann er sjöunda lengsta kast íslensks karlmanns frá upphafi með 1,75 kg kringlunni (piltar 18-19 ára)
Daníel Breki Elvarsson kastaði sitt ársbesta í spjótkastinu þegar hann kastaði 54,94 m og skilaði það kast honum 7. sæti.
Annar flottur dagur hjá þessu frábæra unga frjálsíþróttafólki. Við erum mjög stolt af unglingalandsliðinu okkar og virkilega gaman að Ísland skuli í ár hafa sent nánast fullskipað lið. Um helmingur íþróttafólksins keppti í sinni fyrstu alþjóðlegu keppni og fer þessi reynsla beint í reynslubankann þeirra.
Til hamingju öllsömul með ykkar árangur.
Heildarúrslitin má sjá hér.
Myndir frá NM U20 má sjá hér.