Langstökkvarinn úr FH, Daníel Ingi Egilsson, var valinn frjálsíþróttakarl ársins í desember sl. eftir heldur betur frábært ár. Við kíktum á hann um daginn þegar hann kíkti til Íslands í stutt jólafrí og tókum smá spjall, en Daníel Ingi flutti til Svíþjóðar síðastliðið haust til að æfa undir handleiðslu eins besta langstökksþjálfara heims. Sjá skemmtilega frétt um það hér.
Til hamingju með titilinn frjálsíþróttamaður ársins, heldur betur verðskuldað eftir frábært og eftirminnilegt ár. Hvernig líður þér þegar þú lítur yfir árið 2024?
„Bara mjög vel. Gekk upp eins og mig langaði og ég náði öllum markmiðunum mínum á árinu.“

Hvernig var að keppa á Íslandsmeistaramótum, Norðurlandameistaramótum, Evrópumeistaramótum, á einu og sama árinu? Já og setja Íslandsmet?
„Það er alveg krefjandi að keppa á þremur stórum mótum á einu ári og setja Íslandsmet. En auðvitað alveg ógeðslega gaman að keppa á þessum mótum og njóta þess að keppa.“
Hvað stendur upp úr hjá þér á árinu?
„Það er erfitt að segja. Það er annað hvort að fá að keppa á Evrópumeistaramótinu í fyrsta skipti eða setja Íslandsmet. Ég get eiginlegt ekki valið á milli hvort stendur meira upp úr.“

Hvernig var upplifunin að keppa á EM? Svipað og þú bjóst við?
„Að upplifa að keppa á EM…þetta er miklu stærra en maður bjóst við. Maður finnur að það er einhver meiri stemming og skemmtun í loftinu þannig að það er bara ógeðslega gaman að fá að keppa á svona stórmótum.“
Hvar ertu að æfa og hvernig ganga æfingar?
„Ég er að æfa í Gautaborg í Svíþjóð og það gengur bara mjög vel. Það er frábært andrúmsloft, skemmtilegur hópur og mikið af nýjum, frábærum pælingum og hugmyndum sem ég hef aldrei prófað áður.“
Hvernig ertu stemmdur fyrir komandi keppnistímabil?
„Það er ekki alveg komið á hreint hvar ég keppi alþjóðlega, en það er allavega Meistaramót Íslands og Evrópumeistaramótið innanhúss. Það er svona tvennt sem ég veit af.“

Hvað er svo framundan hjá þér?
„Það verður spennandi að sjá hvernig tímabilið fer en ég er allavega mjög spenntur og vel stemmdur fyrir því.“
Viðtalið við Daníel Inga má horfa á hér í heild sinni.