Erna Sóley og Daníel Ingi frjálsíþróttafólk ársins 2024

Penni

9

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Erna Sóley og Daníel Ingi frjálsíþróttafólk ársins 2024

Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í Laugardalshöllinni fyrr í kvöld og var mikil gleði og stemming meðal þess frjálsíþróttafólks sem mætti. Veittur var fjöldi viðurkenninga til okkar besta og efnilegasta frjálsíþróttafólks, innan vallar sem utan, og farið yfir frjálsíþróttaárið 2024 í máli og myndum.

Frjálsíþróttafólk ársins

Stærstu verðlaun kvöldsins voru val á frjálsíþróttafólki ársins. Erna Sóley Gunnarsdóttir kúluvarpari úr ÍR var valin frjálsíþróttakona ársins og langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson úr FH var valinn frjálsíþróttakarl ársins.

Erna Sóley átti heldur betur eftirminnilegt ár og þar ber kannski helst að nefna þátttöku hennar á Ólympíuleikunum í París. Þetta voru hennar fyrstu Ólympíuleikar og endaði hún þar í 20. sæti með kast upp á 17,39 metra. Erna Sóley keppti einnig á EM í Róm í sumar og þar kastaði hún 16,26 m og endaði hún í 19. sæti. Erna Sóley bætti Íslandsmetið utanhúss á Meistaramóti Íslands á Akureyri í sumar þegar hún kastaði 17,91 m. Hún lenti í 2. sæti á NM í vor sem fram fór í Malmö þar sem hún kastaði 17,20 m. Hún náði frábærum árangri á HM innanhúss í Glasgow í vetur þar sem hún endaði í 14. sæti með kasti upp á 17,07 m. Erna lenti í 3. sæti á NM innanhúss í Bærum í Noregi í febrúar þar sem hún kastaði 17,52 m. Ekki amalegt ár að keppa á Íslandsmeistarmóti, Norðurlandamótum, Evrópumóti, Heimsmeistaramóti og Ólympíuleikum á einu og sama árinu. Vel gert Erna Sóley!

Daníel Ingi átti líka frábært ár og þar stendur upp úr Íslandsmetið sem hann setti á NM í Malmö í vor, þegar hann stökk 8,21 m og bætti þar með 30 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar um 21 cm. Með þessu stökki tryggði hann sér einnig Norðurlandameistaratitilinn og náði lágmarki inn á EM í Róm. Daníel Ingi keppti einnig á EM í Róm í sumar, og keppti þar í fyrsta skipti á stórmóti í fullorðinsflokki, og lenti þar í 14. sæti og var aðeins 3 cm frá því að komast í úrslit. Glæsilegur árangur hjá Daníel Inga!

Önnur verðlaun

Stigahæsta afrek ársins skv. stigatöflu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins

Daníel Ingi Egilsson, FH – 1183 stig fyrir Íslandsmetsstökk sitt í langstökki, 8,21 m, sem hann stökk á NM í Malmö í vor.

Besta spretthlaupsafrek (Jónsbikar)

Júlía Kristín Jóhannesdóttir, Breiðablik – 1037 stig fyrir að hlaupa 60 m grindahlaup á 8,56 sek. Það gerði hún á MÍ innanhúss í febrúar. Þessi tími er nýtt aldursflokkamet í flokki 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára stúlkna. Virkilega vel gert hjá henni Júlíu.

Ingibjörg Sigurðardóttir, ÍR – 1037 stig fyrir að hlaupa 400 m grindahlaup á 59,48 sek. Það gerði hún þegar hún sigraði í 400 m grindahlaupi á Eyrarsundsleikunum í Svíþjóð í júlí. Þetta var mikið bætingaár í 400 m grind hjá henni Ingibjörgu og í vor og sumar voru fréttir nánast vikulega af bætingum hennar. Frábært ár hjá Ingibjörgu.

Spretthlaupari ársins kvenna

Eir Chang Hlésdóttir, ÍR – Hljóp 200 m utanhúss á 24,30 sek (1007 stig) á NM U20 í Danmörku í sumar og innanhúss á 24.60 sek (1028 stig) á MÍ. Eir hljóp 400 m utanhúss á 55.01 sek (1012 stig) á NM í Malmö í vor og innanhúss á 55.52 sek (1028 stig) á RIG. Eir varð Norðurlandameistari U20 í 200 m og fékk bronsverðlaun í 400 m, varð Íslandsmeistari utanhúss í 200 m og 400 m og í 200 m innanhúss. Tíminn hennar í 400 m á NM, 55.01, var lágmark inn á HM U20 sem fram fór í Lima og keppti Eir þar í lok ágúst og náði sínum öðrum besta tíma í 400 m hlaupi. 

Spretthlaupari ársins karla

Kristófer Þorgrímsson, FH – Hljóp 100 m á 10,58 sek (1014 stig) og 200 m 21,29 sek (1025 stig) og bætti sinn persónulega árangur í báðum þessum vegalengdum og varð Íslandsmeistari í báðum greinum. Þessir tímar hans eru einnig aldursflokkamet í flokki 30-34 ára.

Stökkvari ársins kvenna

Birta María Haraldsdóttir, FH – Stökk 1,87 m í hástökki (1091 stig) á NM í Malmö í vor og bætti sinn persónulega árangur og setti aldursflokkamet í flokki 22 ára. Birta stökk 1,85 m eða hærra á þremur mótum á árinu og varð Smáþjóðameistari í sumar og vann til silfurverðlauna á NM í Malmö í vor. 

Stökkvari ársins karla

Daníel Ingi Egilsson, FH – Setti glæsilegt Íslandsmet í langstökki þegar hann stökk 8, 21 m á NM í Malmö í vor og bætti þar með 28 ára gamalt met um 21cm á. Er í 17. sæti á heimslistanum og 5. sæti á Evrópulistanum. Daníel varð Norðurlandameistari í langstökki í Malmö í vor og lenti í 14. sæti á EM í Róm í sumar.

Millivegalengdahlaupari ársins kvenna

Aníta Hinriksdóttir, FH – Hljóp 800 m á 2:03,85 (1094 stig) á móti í Belgíu í sumar og hljóp 1500 m innanhúss á 4:18,50 (1061 stig) á NM í Bærum í Noregi. Aníta vann silfurverðlaun á NM í Malmö í sumar í 800 m og gull í 1500 m. Þetta er besti árangur Anítu í 1500 m síðan árið 2019.

Millivegalengdahlaupari ársins karla

Baldvin Þór Magnússon, UFA – Setti Íslandsmet í 1500 m, bæði innanhúss og utanhúss. Innanhúss hljóp hann á 03:41,05 í frábæru hlaupi á RIG og utanhúss hljóp hann á 3:39,90 á móti í Englandi í sumar. Vann silfurverðlaun á NM innanhúss í Bærum í Noregi í 3000 m.

Kastari ársins kvenna

Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR – Setti Íslandsmet í sleggjukasti þegar hún kastaði 70,47 m (1101 stig) á bandaríska háskólameistaramótinu í Oregon í sumar og  varð þar einnig bandarískur háskólameistari (NCAA). Elísabet lenti í 15. sæti á EM í Róm í sumar með kast upp á 68,02 m, en þetta var hennar fyrsta stórmót í fullorðinsflokki. Hún er í 47. sæti á heimslistanum og í 23. sæti á Evrópulistanum. 

Kastari ársins karla

Sindri Hrafn Guðmundsson, FH – Kastaði spjótinu í ár 82,55 m (1137 stig) og var það á MÍ á Akureyri í sumar. Sindri vann silfurverðlaun á NM í Malmö í vor. Hann er í 32. sæti á heimslistanum og í 17. sæti á Evrópulistanum. Sindri keppti einnig á EM í Róm í sumar, sem var hans annað Evrópumeistaramót eftir EM í Berlín árið 2018, og lenti hann í 20. sæti. Mjög sterk endurkoma hjá þessum frábæra spjótkastara.

Fjölþrautarkona ársins

Ísold Sævarsdóttir, FH – Varð Norðurlandameistari U18 í sjöþraut á NM í þraut sem haldið var hér í Reykjavík í sumar og fékk þar 5583 stig. Ísold lenti svo í 5. sæti í sjöþraut á EM U18 í Slóvakíu í sumar með 5643 stig (1005 stig). Ísold setti einnig aldursflokkamet í flokki 17 ára í fimmtarþraut á MÍ í þraut í febrúar þar sem hún fékk 3970 stig.

Fjölþrautarkarl ársins

Þorleifur Einar Leifsson, Breiðablik – Íslandsmeistari í sjöþraut innanhúss þar sem hann fékk 5182 stig (966 stig). Stökk 7,09 í langstökki á RIG og var það bæting um hálfan meter. Var kandídat fyrir NM í þraut í sumar hér í Reykjavík en gat ekki keppt vegna meiðsla.

Óvæntasta afrekið

Birta María Haraldsdóttir, FH – Vann silfurverðlaun á NM í Malmö í vor með stórbætingu þegar hún stökk 1,87 m í hástökki.

Langhlaupari utan vallar, utanvegahlaupari og langhlaupari innan vallar ársins kvenna

Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR – Íslandsmeistari í 5 km, 10 km og 1/2 maraþoni. Glæsileg frammistaða á EM í utanvegahlaupum í Annecy í vor þar sem hún lenti í 6.sæti. Andrea sigraði öll utanvegahlaup sem hún tók þátt í á Íslandi í ár. Sigraði ISTRIA by UTMB í Króatíu sem er 42 km hlaup með 1000 m hækkun. Andrea varð einnig í ár Íslandsmeistari í 1500 m, 5000 m og 3000 m hindrun. 

Langhlaupari utan vallar ársins karla

Arnar Pétursson, Breiðablik – Tók þrjá Íslandsmeistaratitla í götuhlaupum, í 10 km, 1/2 maraþoni, maraþoni og varð Íslandsmeistari í Víðavangshlaupum hérna í Laugardalnum í vor og keppti fyrir Íslands hönd á NM í víðavangshlaupum fyrr í vetur.

Utanvegahlaupari ársins karla

Þorbergur Ingi Jónsson, UFA – Sýndi sterka frammistöðu á EM í utanvegahlaupum í Annecy Frakklandi í vor og lenti þar í 23.sæti. Náði stórkostlegur árangri í 100 km í Súlum Vertical í sumar þar sem var 3600m hækkun, en þar náði hann hæsta ITRA stigaskori sem nokkur Íslendingur hefur náð (898 stig). Sigraði 70 km hlaupið í Wildstrubel by UTMB í Sviss en þar var 3700 m hækkun. 

Langhlaupari innan vallar ársins karla

Baldvin Þór Magnússon, UFA – Auk Íslandsmetsins í 1500 m sem nefnt var hér að ofan, setti Baldvin Íslandsmet í 5000 m þegar hann hljóp á 13:20,34 á móti á Spáni í vor, sá tími var 34/100 frá beinu lágmarki inn á EM í Róm.

Hvatningarverðlaun langhlaupanefndar FRÍ kvenna

Hulda Fanný Pálsdóttir, FH – Náði besta tíma kvenna í maraþoni 03:01:40 árið 2024, í Frankfurt maraþoninu, og er þessi tími nýtt aldursflokkamet í U23. Einnig er þetta tíundi besti maraþontími kvenna frá upphafi. Sigraði sinn aldursflokk í Frankfurt maraþoninu og jafnframt nr. 70 af 2400 konum í hlaupinu. Sigraði einnig í hálfu maraþoni í Miðnæturhlaupinu.

Hvatningarverðlaun langhlaupanefndar FRÍ karla

Stefán Kári Smárason, Breiðablik – Sigraði 10 km í Miðnæturhlaupinu á mjög sterkum tíma, 33:16. Hljóp mjög gott hálfmaraþon á Akureyri 01:13:30 sem skilaði honum öðru sæti á Íslandsmótinu í hálfmaraþoni. Keppti fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupi sem fram fór í Finnlandi fyrr í vetur.

Stúlka ársins 19 ára og yngri

Ísold Sævarsdóttir, FH – Varð Norðurlandameistari U18 í sjöþraut á NM í þraut sem haldið var í Reykjavík í sumar og fékk þar 5583 stig. Ísold lenti svo í 5. sæti í sjöþraut á EM U18 í Slóvakíu í sumar með 5643 stig (1005 stig). Ísold setti einnig aldursflokkamet í flokki 17 ára í fimmtarþraut á MÍ í þraut í febrúar þar sem hún fékk 3970 stig.

Piltur ársins 19 ára og yngri

Arnar Logi Brynjarsson, ÍR – Stigahæsta afrek pilta á árinu. Var komin með lágmark í 200 m hlaupi fyrir EM U18, og hljóp margoft undir því lágmarki sem var 22.40, en meiddist því miður í vor og gat því lítið keppt í sumar.

Þjálfari ársins

Bogi Eggertsson, FH – Þjálfari Birtu Maríu og Ísoldar. Þær Birta María og Ísold hafa náð frábærum árangri á árinu eins og farið hefur verið yfir hér að framan og eins og við öll vitum þá er góður þjálfari einn af lykilþáttunum að góðum árangri og þar hefur Bogi sannarlega verið að standa sig vel með sínum iðkendum.

Hvatningarverðlaun unglingaþjálfara

Rúnar Hjálmarsson, Umf. Selfoss – Rúnar er yfirþjálfari frjálsíþrótta hjá Umf. Selfossi og þjálfar þar einnig meistaraflokk. Rúnar hefur náð virkilega góðum árangri með sínu Íþróttafólki og varð HSK/Selfoss Íslandsmeistari í flokki 15-22 ára innan-og utanhúss í ár með talsverðum yfirburðum, þriðja árið í röð.

Óvæntasta afrek 19 ára og yngri

Ísold Sævarsdóttir, FH – Ísold varð í ár Norðurlandameistari U18 í sjöþraut annað árið í röð, þegar hún sigraði sjöþraut U18 á NM í Reykjavík í sumar.

Besta afrek öldunga kvenna

Fríða Rún Þórðardóttir, ÍR – Náði stigahæsta árangri konu innan vallar þegar hún hljóp 1500 m á EM masters inni í mars, í Torun, Póllandi, á tímanum 5:12,76 í flokki 50-54 ára (1049 stig). Fríða bætti nokkur aldursflokkamet á árinu í flokki 50-54 ára. Hún setti nýtt aldursflokkamet í 3000 m hlaupi innanhúss þegar hún hljóp á 10:59, 65 á EM masters í Torun í Póllandi, í Í 5 km götuhlaupi þegar hún hljóp á 18:47,00 í Víðavangshlaupi ÍR í vor, í 3000 m hlaupi utanhúss þegar hún hljóp á 11:19,03 á Gautaborgarleikunum í Svíþjóð í sumar og í 1500 m utanhúss þegar hún hljóp á 05:13,47 á HM í masters í Gautaborg í sumar.

Besta afrek öldunga karla

Hafsteinn Óskarsson, ÍR – Náði stigahæsta árangri karla þegar hann hljóp 800 m, innanhúss, á tímanum 2:23,97 á 3. Nike móti FH (1009 stig) í febrúar. Hafsteinn setti einnig í ár aldursflokkamet í flokki 60-64 ára í 1000 m hlaupi þegar hann hljóp á tímanum 3:10,15 á Bónus móti FH í mars.

Nefnd ársins

Dómaranefnd FRÍ – Hefur kynnt glæsilegar nýjungar og í raun umbylting í fræðslu til dómara sem hafa vakið eftirtekt bæði innan lands sem utan. Formaður dómaranefndar, Björgvin Brynjarsson, hefur staðið sig með mikilli prýði og sýnt mjög mikinn metnað í að setja upp fræðsluefni og annað á mjög skýran og einfaldan máta. Auk þess hefur dómaranefndin verið virkur þátttakandi í gríðar mikilvægu verkefni um FRÍ Vottuð hlaup.

Hópur ársins

EM Róm – EM hópurinn í ár samanstóð af frábærum hópi íþróttamanna, þjálfara og fararstjóra og heppnaðist þessi ferð með eindæmum vel. Í ár átti Ísland 8 keppendur sem er mesti fjöldi í 66 ár, eða síðan á EM 1958. Það voru glæsilegir fulltrúar sem tryggðu sér lágmark á EM í Róm og stóð íþróttafólkið okkar sig með stakri prýði og nýir fulltrúar sýndu að þau eiga sannarlega heima á stóra sviðinu. Á EM í Róm keppti eftirtalið íþróttafólk:

  • Dagbjartur Daði Jónsson I ÍR I Spjótkast 
  • Daníel Ingi Egilsson I FH I Langstökk 
  • Elísabet Rut Rúnarsdóttir I ÍR I Sleggjukast 
  • Erna Sóley Gunnarsdóttir I ÍR I Kúluvarp
  • Guðni Valur Guðnason I ÍR I Kringlukast 
  • Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir I ÍR I Sleggjukast 
  • Hilmar Örn Jónsson I FH I Sleggjukast 
  • Sindri Hrafn Guðmundsson I FH I Spjótkast

Aðeins 30 keppendur fengu keppnisrétt í þessum greinum og því mikið afrek að komast á þann lista. Þetta var fyrsta stórmót í fullorðinsflokki hjá Daníel, Dagbjarti, Elísabetu og Guðrúnu. Sindri keppti á EM árið 2018 í Berlín en Guðni, Hilmar og Erna eru komin með meiri stórmótareynslu og kepptu öll á EM í München árið 2022.

Miðlun ársins

RÚV Ólympíuleikar – RÚV á hrós skilið fyrir einstaklega faglega en einnig hvetjandi umfjöllun um frjálsar sem vakti athygli landsmanna. Ólympíukvöldin voru umtöluð fyrir skemmtilega nálgun á frjálsíþróttirnar, þar sem farnar voru nýjar leiðir, og var þessi interaktíva nálgun virkilega skemmtileg. Svo að sjálfsögðu stóðu útsendingarnar sjálfar frá frjálsíþróttakeppninni fyrir sínu með okkar allra besta Sigurbjörn Árna sem lýsanda með RÚV-mönnum.

Viðburður ársins

MÍ 15-22ja ára á Selfossi, frjálsíþróttaráð HSK – Virkilega fagleg framkvæmd innan vallar við mótið sjálft, en enn frekar fyrir mikilvæga skemmtun og samveru fyrir utan mót, sem er öðrum til fyrirmyndar. 

Abban

Gunnar Páll Jóakimsson – Fyrir einstakt framlag til frjálsíþrótta sem þjálfari efnilegustu hlaupara landsins, sjálfboðaliði sem vinnur að öflugri mótaframkvæmd, ein af driffjöðrum í að standa að samkomum eldri frjálsíþróttamanna, síðast en ekki síst gríðar mikilvægur liðsmaður í sögunefnd sem hefur náð að lyfta miðlun á söguefni upp í hærri hæðir þannig að eftir er tekið.

Abban er veitt framúrskarandi framlagi til upplyftingar og útbreiðslu frjálsíþrótta og er veitt til að heiðra minningu Aðalbjargar Hafsteinsdóttur, varaformanns FRÍ, sem lést fyrir aldur fram í ágúst 2023.

Glæsilegur hópur verðlaunahafa á uppskeruhátíðinni í kvöld og óskum við þeim öllum alveg innilega til hamingju með sínar viðurkenningar og verðlaun.

Myndir af öllum verðlaunahöfum og frá kvöldinu má sjá inn á Flickr síðu FRÍ.

Penni

9

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Erna Sóley og Daníel Ingi frjálsíþróttafólk ársins 2024

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit