Það er heldur betur nóg framundan núna í nóvember, bæði hérna innanlands sem og á erlendri grundu. Það eru frjálsíþróttamót sunnan og norðan heiða og svo verður hlaupið í Finnlandi. Nóg um að vera.
Núna á laugardaginn, 2. nóvember, má búast við miklu fjöri í Hafnarfirðinum þegar Gaflarinn fer fram.
Svo verður heldur betur fjör í Laugardalnum laugardaginn 9. nóvember þegar Allir með leikarnir fara fram, en markmið þeirra er að fjölga tækifærum barna með fatlanir til íþróttaiðkunar.
Sunnudaginn 10. nóvember er svo komið að Norðurlandameistaramótinu í víðavangshlaupum en í ár fer það fram í Finnlandi. Ísland mun eiga fulltrúa í þremur flokkum á mótinu. Í karlaflokki keppa Baldvin Magnússon (UFA), Arnar Pétursson (Breiðablik) og Stefán Kári Smárason (Breiðablik). Í kvennaflokki keppa Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) og Íris Dóra Snorradóttir (FH). Svo munum við eiga fulltrúa í U20 í kvennaflokki en það er hún Helga Lilja Maack (ÍR).
Um miðjan mánuðinn, eða laugardaginn 16. nóvember eru svo Silfurleikar ÍR á dagskrá og fara þeir að venju fram í Laugardalshöllinni og eru fyrir börn og ungmenni 17 ára og yngri.
Svo í lok mánaðar, laugardaginn 30. nóvember, verður Minningarmót Óliverss haldið í Boganum á Akureyri og er það fyrir frjálsíþróttafólk á öllum aldri.