Það er heimsmeistaramótaveisla framundan, ekki nóg með að heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum innanhúss fari fram í Nanjing í Kína dagana 21.-23. mars, heldur fer heimsmeistaramótið í eldri aldursflokkum innanhúss fram í Flórída í Bandaríkjunum dagana 23.-30. mars.
Hafsteinn Óskarsson (ÍR) og Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR) eru skráð til keppni á mótinu, en þau eru meðal okkar besta masters íþróttafólks og meðal þeirra bestu í sínum greinum í sínum aldursflokki á heimsvísu.
Hasfsteinn og Fríða Rún voru bæði meðal keppenda á Norðurlandameistaramótinu í eldri aldursflokkum sem fram fór í Osló um miðjan febrúar sl. Þar varð Fríða Rún tvöfaldur Norðurlandameistari í flokki 55-59 ára þegar hún sigraði 3000 m hlaupið og 400 m hlaupið. Auk þess varð hún önnur í 800 m hlaupinu og þriðja í 1500 m hlaupinu. Hafsteinn varð Norðurlandameistari í 800 m hlaupi í flokki 65-69 ára og þriðji í 200 m hlaupinu.
Hafsteinn mun keppa í undanriðlum í 800 m hlaupi í flokki 65 ára á sunnudaginn, 23. mars, kl. 15:45 (á staðartíma) og úrslitin í 800 m hlaupinu er svo á mánudeginum, 24. mars, kl. 17:35 (á staðartíma). Hann keppir svo í undanriðlum í 1500 m hlaupi föstudaginn 28. mars kl. 16:30 (á staðartíma) og úrslitin eru svo dagin eftir, laugardaginn 29. mars kl. 18:06 (á staðartíma).
Hafsteinn er ansi í framarlega í sínum greinum í sínum aldursflokki. Í 1500 m hlaupinu eru fjórir skráðir með betri tíma en hann, en hann hefur hlaupið á 4:58,91 mín, tveir eru með 10 og 15 sekúndna betri tíma en einn með aðeins rúmlega sekúndu betri tíma. Í 800 m hlaupinu er aðeins einn skráður með betri tíma en Hafsteinn, en sá tími er frá því í fyrravetur og sá keppandi er ekki með skráðan betri tíma en Hafsteinn í heimsafrekaskránni, þar sem Hafsteinn er efstur sem stendur. Það verður því spennandi að sjá hvort þessi eini verði kominn í í sitt fyrra form um helgina. Ef ekki gæti Hafsteinn hugsanlega velgt honum undir uggum.
Fríða Rún keppir í víðavangshlaupi í flokki 55 ára á sunnudaginn, 23. mars, kl. 10:15 (á staðartíma). Einnig hleypur hún 3000 m hlaup miðvikudaginn 26. mars kl. 15:20 (á staðartíma) og í undanriðlum 1500 m hlaupsins á föstudeginum 28. mars kl. 15:30 (á staðartíma) og eru úrslit 1500 m hlaupsins svo á laugardaginn 29. mars kl. 16:36.
Fríða Rún er í fremstu röð í sínum aldursflokki í heiminum sem stendur og verður væntanlega meðal þeirra fremstu í þessum þremur greinum sem hún tekur þátt í. Í 3000 m hefur hún hlaupið á 11:04 í vetur og eru tvær skráðar með betri tíma en hún, önnur mikið betri en hin örfáum sekúndum. Í 1500 m er ein skráð með 6 sek. betra en hún en síðan tvær með sama tíma (5:16.00). Þannig að það má búast við spennandi keppni á hlaupabrautinni.