Frjálsíþróttahluti Reykjavíkurleikanna fer fram næstkomandi mánudagskvöld, 27. janúar, í Laugardalshöllinni. Mótið hefst klukkan 19:30 og verður því einnig sjónvarpað á RÚV 2 og hefst útsending klukkan 19:30.
Hægt er að kaupa miða á mótið á corsa.is og kostar miðinn 1500 kr, ekki verður hægt að kaupa miða á staðnum.
Okkar fremsta frjálsíþróttafólk verður meðal keppenda ásamt öflugum erlendum keppendum frá Englandi. Lista yfir keppendur í hverri grein má sjá á Road to RIG, en beðið er eftir staðfestingu frá nokkrum varðandi þátttöku þeirra, þannig að um að gera að fylgjast grannt með listanum næstu daga.
Hápunkturinn á síðasta RIG var án efa 1500 m hlaup karla þar sem Baldvin Þór Magnússon (UFA) gerði sér lítið fyrir og stórbætti 44 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar, þegar hann hljóp á 3:41,05. Glæsilegt hlaup og árangur og lýsing Sigurbjörns Árna Arngrímssonar á hlaupinu er ekki síður eftirminnileg. Hlaupið verður örugglega ekki síður spennandi í ár en Baldvin mætir til keppni og er greinilega í hörkuformi þar sem hann var að enda við að bæta Íslandsmetið í 3000 m hlaupi. Hann fær hörkukeppni í hlaupinu þar sem tveir enskir hlauparar eru skráðir til leiks sem munu veita Baldvini góða keppni. Þetta eru þeir Thomas Bridger, en hans besti tími í 1500 m hlaupi er 3:40,34 frá síðasta sumri, og William Rabjohns, en hans besti tími er 3:41,79 einnig frá síðasta sumri.
Langstökkskeppnin lofar einnig mjög góðu hvað spennandi keppni varðar en þar eru þær stöllur Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) og Irma Gunnarsdóttir (FH) skráðar til leiks, en það er einn sentímeter sem skilur að þeirra besta árangur. En í fyrra stökk Birna Kristín 6,46 m (utanhúss) og Irma stökk 6,45 m (innanhúss). Svo mun enskur langstökkvari mæta til leiks sem á best 6,46 m, en það er Molly Palmer. Þannig að það má alveg vonast eftir spennandi sentímetrabaráttu í langstökkskeppninni.
Spretthlaupararnir úr FH, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Gylfi Ingvar Gylfason, mæta á brautina í 60 m hlaupi karla. Kolbeinn Höður er Íslandsmethafi í 60 m hlaupi innanhúss, en það er 6,68 sek frá því í janúar 2023. Kolbeinn á einnig besta tíma ársins í ár sem er 6,93 sek frá því á Stórmóti ÍR sem var um síðastliðna helgi. Gylfi Ingvar á annan besta tíma ársins, einnig frá Stórmótinu, þar sem hann hljóp á 6,98 sek, en besti tími Gylfa er 6,90 sek frá því í lok janúar 2024. Enski spretthlauparinn Dylan Williams mun veita þeim flotta samkeppni en hans besti tími er frá því núna í byrjun janúar þegar hann hljóp á 6,79 sekúndum.
Það verður einnig enskur keppandi í 60 m hlaupi kvenna og er það Jasmin Wilkins en hennar besti tími er 7,47 sek. frá því í fyrra en hennar besti tími í ár er 7,48 sek. Hún mun veita okkar hröðustu konum mikla keppni á hlaupabrautinni. Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) er með besta tímann af íslensku keppendunum en hún hljóp á 7,53 sek á Stórmóti ÍR um liðna helgi. Næstbesta tímann á María Helga Högnadóttir (FH) en hún hljóp á 7,57 sek á Aðventumóti Ármanns í desember sl. Þriðja besta tíma á svo Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) en hún hljóp á 7,63 sek á Stórmóti ÍR.
Það stefnir ekki í minna spennandi 400 m hlaup hjá konunum þar sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) er skráð til leiks og hún sýndi það um síðastliðna helgi að hún er í hörkuformi þegar hún bætti sinn persónulega árangur og hljóp á 54,84 sek. Auk Guðbjargar er m.a. Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) skráð til leiks en hún á best innanhúss 55,52 sek frá því í febrúar 2024, en hún hljóp einnig stórvel á Stórmóti ÍR um síðustu helgi þar sem hún hljóp á 55,63 sek. Þær munu svo fá góða samkeppni frá enskum hlaupara, Arabella Wilson, en hún á best 55,62 sek frá því í maí í fyrra.
Í 400 m hlaupi karla má búast við hörkukeppni milli liðsfélaganna úr ÍR, Sæmundar Ólafssonar og Ívars Kristins Jasonarsonar. Sæmundur á besta tíma ársins, 48,92 sek, og Ívar kemur stutt á eftir honum með ársbest 49,04 sek. Enski hlauparinn Oliver Parker mun veita þeim góða samkeppni en hann á best 49,50 frá því í september sl.
Ólympíufarinn, Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR), mætir í kúluvarpshringinn þegar kúluvarpskeppni mótsins fer fram. Erna átti frábært ár í fyrra þegar hún bætti m.a. Íslandsmetið utanhúss þegar hún kastaði 17,91 m sem eru einu sentímeter styttra en Íslandsmetið hennar innanhúss sem er 17,92 m.
Auk ofannefndra er fjöldi íþróttafólks skráður til leiks og um að gera að fylgjast vel með Road to RIG.
Tímaseðil mótsins má sjá hér.
Sjáum vonandi sem allra flesta í stúkunni á mánudagskvöldið, þetta stefnir í góða frjálsíþróttaveislu.