Í vikunni bárust þau gleðitíðindi að frjálsíþróttahöllin í Laugardalnum hefur hlotið vottun frá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu, eftir að umfangsmiklum endurbótum þar lauk núna í byrjun haust. Vottunin sem um ræðir er „WA certification for indoor facilities“. Þetta þýðir að frjálsíþróttahöllin er nú í sama gæðaflokki og þekkist annarsstaðar í heiminum og uppfyllir kröfur sem gerðar eru til keppnisaðstöðu. Vottunin gengur út á það að mót sem haldin eru í höllinni eru viðurkennd af Alþjóða frjálsíþróttasambandinu og telja þannig inn í stigakerfið, t.d. global calander mót.

Þau sem iðkuðu frjálsíþróttir snemma á þessari öld muna sjálfsagt mörg hver eftir spennunni og eftirvæntingunni sem var í loftinu þegar frjálsíþróttahöllin í Laugardal var tekin í notkun 2005 og gjörbreytti aðstöðu til æfinga og keppni, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ótrúlegt að hugsa til þess að komin séu nær 20 ár frá þessu! En eftir tæplega 20 ára notkun var eðlilega kominn tími á gagngerar endurbætur og heppnuðust þær virkilega vel. Lagt var nýtt tartanefni á allt gólfið, og var notað sama efnið og er í höllinni í Glasgow þar sem HM innanhúss var haldið í mars í ár, og er það dökkblátt og ljósblátt en ekki rautt og gult eins og áður. Einnig voru gerðar breytingar á aðstæðum fyrir þrístökk og langstökk sem og kúluvarp og sleggjukast.

Það er ekki annað að heyra en að frjálsíþróttaiðkendur séu ánægðir með þessar flottu endurbætur og verður virkilega gaman að fylgjast með æfingum og keppni í þessari endurbættu aðstöðu á nýju ári.