Í gær fór Meistaramót Íslands fram í hálfu maraþoni og voru þau Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) og Arnar Pétursson (Breiðablik) Íslandsmeistarar. Bæði kepptu þau á MÍ í 10km á þriðjudaginn síðasta og sigruðu það. Einnig tóku þau þátt á MÍ fullorðinna um síðustu helgi þar sem þau kepptu í 3000m hindrunarhlaupi, 1500m og 5000m hlaupi. Andrea sigraði í öllum sínum greinum og Arnar í tveimur af þremur sem þýðir að Andrea hefur samtals unnið fimm Íslandsmeistaratiltla í vikunni og Arnar fjóra.
Andrea hljóp hálft maraþon á tímanum 01:15:59 klst. sem er bæting en fyrra met hennar var 1:17,42 klst. sem er annar besti tími frá upphafi. Martha Ernstsdóttir á Íslandsmetið sem er 1:11:40 klst. frá árinu 1996.
“Ég er bara ótrúlega sátt með bætingu, ég var búin að ákveða að vera í þessari stráka grúbbu sem myndaðist, þó það væri kannski of hratt fyrir mig. Ég var beint fyrir aftan þá sem hljálpaði alveg rosalega mikið, bara takk Sigurjón og fleiri fyrir að veita mér skjól. Það gerði helling og maður fann alveg að þegar maður missti þá frá sér þegar aðeins átta km voru eftir þá var maður soldið einn, þá missti maður soldið hausinn og svona. En hörkubæting og titill þannig maður er ekki annað en sáttur sko. Ég er svo að fara í Dyrfjallahlaupið í 50km á laugardaginn sem er alls ekki til fyrirmyndar en stundum verður maður að gera eitthvað sem er gaman. Sigurjón Ernir er búinn að plata mig með sér. Maður rúllar það ekkert endilega all out og hvílir svo vel í viku áður en maður neglir á Laugarveginn,” sagði Andrea eftir hlaup í gær.
Halldóra Huld Ingvarsdóttir (FH) var önnur á tímanum 1:19:47 mín. sem er bæting en gamla metið er 1:20:07 klst. og Íris Anna Skúladóttir (FH) í þriðja á tímanum 1:24:11 klst.
Arnar hljóp hálftmararþon á tímanum 01:09:07 klst.
“Ég er svona allt í lagi ánægður með þetta, vaknaði með smá í hálsinum um morguninn þannig ég var ekki alveg 100% og var því ekki viss hvernig þetta myndi fara. Það gekk fínt til að byrja með en svo fekk ég smá ónota tilfinningu í magann þannig ég var ekki alveg viss hversu mikið ég gat keyrt á þetta. Vindurinn drap mig eiginlega, keyrði mig í jörðina. Ég ætlaði að fara undir brautarmetið mitt sem er 68:25 mín. en ég var á 01:09:07 klst. Þetta er bara mjög flott miðað við að vera búinn að hlaupa fimm keppnishlaup á sex eða sjö dögum. Þetta var bara frábær æfing í bankann, maður er allavega að tikka í öll boxin til þess að ná að hlaupa undir 2:19 klst. í maraþoni. Þetta er allt á þessari svokölluðu réttu leið sko,” sagði Arnar eftir hlaup.
Stefán Kári Smárason (Breiðablik) var annar á tímanum 1:13:30 klst. sem er bæting, gamla metið 1:17:42 klst. og Jörundur Frímann Jónasson (UFA) var þriðji á tímanum 1:13:52 klst.
Andri Már Óskarsson (HSK/Selfoss) hljóp á tímanum 1:42,22 sek. sem er besti árangur frá upphafi í flokki 12 ára pilta.
Úrslitin eru að finna hér.