VIKAN: Ýmislegt frjálsíþróttatengt í gangi síðastliðna viku, bæði innan vallar sem utan

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: Ýmislegt frjálsíþróttatengt í gangi síðastliðna viku, bæði innan vallar sem utan

KRAKKALEIKARNIR Á SELFOSSI

Krakkakeikarnir fóru fram í Lindex höllinni á Selfossi laugardaginn 12. október. Krakkaleikarnir byggja á Kids‘ Athletics prógrammi Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Það var flottur hópur hressra íþróttakrakka sem tók þátt í Krakkaleikunum núna á laugardaginn og það var ekki að sjá annað að öll hafi skemmt sér vel. Íþróttaálfurinn mætti á svæðið og stýrði upphitun áður en keppnin sjálf hófst, og náði hann upp góðri stemmingu hjá krökkunum. Svo hófust leikar og gleðin og keppnisskapið tók völd. Krakkarnir tóku þátt í sjö frjálsíþróttagreinum sem margar voru settar upp á nýjan og skemmtilegan hátt. Tekið var þátt í grindaboðhlaupi, langstökki, kraftkast, 50 m spretthlaupi, þrístökksboðhlaupi, skutlukasti og fimm mínútna hringhlaupi.

Krakkaleikarnir á Selfossi voru vonandi bara fyrstu Krakkaleikarnir af mörgum og er það stefna og von FRÍ að gera Krakkaleikana að reglulegum viðburði um land allt og gera krakkafrjálsum hátt undir höfði með allskyns fræðslu-og kynningarefni.

Sjá nánar um Krakkaleikana á Selfossi hér.

ÞRIÐJA OG SÍÐASTA VÍÐAVANGSHLAUPIÐ Í BILI Í REYKJAVÍK OG Á AKUREYRI

Víðavangshlaup voru hlaupin bæði í Reykjavík og á Akureyri núna um helgina í fallegu, en köldu, haustveðri. Í Reykjavík var hlaupið við Borgarspítalann og á Akureyri var hlaupið í Kjarnaskógi. Þessi hlaup hafa vonandi verið góður undirbúningur fyrir næstu helgi, en þá fer fram Meistaramót Íslands í Víðavangshlaupum í Laugardalnum í Reykjavík.

Úrslit hlaupanna er hægt að skoða hér.

FLOTTUR ÁRANGUR Á BANDARÍSKA MASTERS MEISTARAMÓTINU Í HÁLFMARAÞONI

Það er vert að nefna hérna góðan árangur Hrannar Guðmundsdóttur á bandaríska masters meistaramótinu í hálfmaraþoni (Indy Half Marathon) sem fram fór laugardaginn 5. október í Indianapolis. Hrönn varð í 2. sæti í sínum aldursflokki (55-59 ára) á tímanum 1:32,24 klst., sem er besti tími íslenskrar konu í þessum aldursflokki. Hrönn var á sínum tíma landsliðskona í millivegalengdarhlaupum og setti Íslandsmet í 800 m hlaupi, 2:06,22 mín., sem er þriðji besti tími í 800 m hlaupi íslenskra kvenna frá upphafi. Hrönn er ÍR-ingur en æfir og keppir með Impala Racing Team í Kaliforníu.

HVAÐ ER FRAMUNDAN?

Helst ber að nefna Meistaramót Íslands í Víðavangshlaupum sem fram fer í Laugardalnum í Reykjavík laugardaginn 19. október nk. Skráning í hlaupið fer fram hér og er hægt að skrá sig þar til klukkutíma fyrir fyrstu ræsingu, sem er kl. 10. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri og er skráningargjaldið 1500 kr fyrir 13 ára og eldri.

Í lok mánaðar, laugardaginn 26. október, fer Meistaramót Íslands í maraþoni fram í Elliðaárdalnum. Meistaramótið í maraþoni er haldið sem hluti af Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara og eru því allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir eru til leiks undir merki aðildarfélags gjaldgengir til Íslandsmeistaratitils. Skráning í maraþonið er í fullum gangi hér.

Samhliða meistaramótinu verður boðið upp á Fjölskylduhlaup TM sem er ætlað yngri hlaupurum sem eru að stíga sín fyrstu skref í hlaupunum. Fjölskylduleiðin er um tveggja kílómetra skógarhringur í Elliðaárhólmanum. Þátttaka stendur öllum til boða og er gjaldfrjáls en það þarf að skrá sig hér. Öll börn fá þátttökuverðlaun eftir hlaup. Íþróttaálfurinn og vinir hans í Latabæ munu hjálpa öllum að hita upp fyrir hlaupið.

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: Ýmislegt frjálsíþróttatengt í gangi síðastliðna viku, bæði innan vallar sem utan

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit