VIKAN: Unga fólkið okkar stóð sig frábærlega á EYOF og NM U20 og fínn árangur á móti í Svíþjóð

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Unga fólkið okkar stóð sig frábærlega á EYOF og NM U20 og fínn árangur á móti í Svíþjóð

Liðin vika var frábær frjálsíþróttavika og sérstaklega hjá unga frjálsíþróttafólkinu okkar.

Ólympíuhátið Evrópuæskunnar (EYOF) í Skopje í Norður-Makedóníu

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fór fram í Skopje í Norður-Makedóníu dagana 20.-26. júlí en um er að ræða stærsta fjölíþróttamót Evrópu fyrir ungt íþróttafólk á aldrinum 14–18 ára, þar sem keppt er í fjölmörgum greinum og rík áhersla er lögð á jafnræði, vináttu og samstöðu.

Í ár voru fjórir frjálsíþróttakeppendur sem tóku þátt á mótinu og stóðu þau sig mjög vel, en aðstæður úti voru frekar erfiðar en mjög heitt var í Skopje þessa daga.

Patrekur Ómar Haraldsson keppti í 800 m hlaupi pilta og endaði hann þar í 21. sæti á tímanum 2:01,76 mín, sem er persónuleg bæting utanhúss um eina og hálfa sekúndu.

Benedikt Gunnar Jónsson keppti í kúluvarpi pilta og kastaði hann lengst 17,48 m og hafnaði í 9. sæti og var aðeins einu sæti frá því að komast í úrslit.

Bryndís Embla Einarsdóttir keppti í spjótkasti stúlkna og kastaði lengst 39,80 m og hafnaði í 14. sæti.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson keppti í tugþraut pilta og átti hann frábæra tugþraut. Hann var með besta árangurinn í tveimur greinum, kúluvarpi og kringlukasti, og bætti sinn persónulega árangur í fjórum greinum: hástökki, 400 m hlaupi, 110 m grindahlaupi og stangarstökki. Hjálmar hlaut í heildina 6706 stig og endaði hann í 8. sæti, en þess má geta að þetta er aðeins 27 stigum frá árangri hans á NM í þraut frá því um miðjan júní þar sem hann setti aldursflokkamet í flokki U18 pilta. 

Þetta var virkilega flott mót hjá þessu unga frjálsíþróttafólki en þetta var fyrsta alþjóðlega keppnin hjá Patreki, Benedikt og Bryndísi.

Nánar má lesa um árangur þeirra á EYOF hér, hér og hér.

Norðurlandameistaramót U20 í Uppsala í Svíþjóð

Um helgina, 26.-27. júlí, fór Norðurlandameistaramót U20 fram í Uppsala í Svíþjóð og í ár sendi Ísland í fyrsta sinn nánast fullskipað lið á mótið, en ekki sameiginlegt lið með Danmörku líkt og undanfarið. Íslensku keppendurnir stóðu sig mjög vel og þetta var alveg frábær hópur, bæði keppenda og þjálfara, og er þetta fyrirkomulag því komið til að vera þ.e. að Ísland sendi sitt eigið lið á NM U20.

Þetta var fyrsta landsliðsverkefnið hjá helmingi hópsins, önnur höfðu farið áður á NM U20 og enn önnur komin með talsverða alþjóðlega keppnisreynslu. Mörg voru að bæta sig vel í sínum greinum og við eignuðumst einn Norðurlandameistara og þrenn önnur verðlaun komu í hlut íslensku keppendanna.

Eir Chang Hlésdóttir átti frábært 200 m hlaup þar sem hún kom fyrst í mark á 23,42 sek, sem er hraðar en Íslandsmet hennar en vindurinn var +2,8 og því ekki um Íslandsmet að ræða. Eir vann 200 m hlaupið einnig á NM U20 í fyrra en þá kom hún í mark á 24,30 sek. Eir átti líka mjög flott 100 m hlaup en þar kom hún þriðja í mark á 11,79 sek, sem er hennar annar besti tími í 100 m hlaupi.

Ísold Sævarsdóttir átti einnig mjög flott mót og kom heim með tvenn verðlaun. Hún varð önnur í langstökki en þar stökk hún lengst 5,98 m, og var það bæting um 3 cm. Svo kom hún þriðja í mark í 100 m grindahlaupi á sínum öðrum besta tíma í greininni, 14,41 sek.

Eir og Ísold eru greinilega í alveg hörkuformi en þær eru báðar að fara á Evrópumeistaramót U20 sem fram fer í Tampere í Finnlandi dagana 7.-10. ágúst. Þar keppir Eir í 100 m og 200 m hlaupi og Ísold í sjöþraut.

Íslensku keppendurnir bættu sinn persónulega árangur í 14 af 28 greinum sem þau kepptu í, ekkert smá flottur árangur hjá þeim.

Lesa má um árangur íslensku keppendanna á NM U20 hér og hér.

Fínn árangur hjá íslensku frjálsíþróttafólki á Folksam GP í Gautaborg í Svíþjóð

Fimm íslenskir frjálsíþróttaiðkendur kepptu um helgina á Folksam GP í Gautaborg í Svíþjóð.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir heldur áfram að hlaupa frábært 400 m hlaup en hún kom þriðja í mark á 54,41 sek, sem er hennar annar besti tími í greininni og aðeins þremur sekúndubrotum frá sínum besta tíma, 54,38 sek.

Ívar Kristinn Jasonarson keppti í 400 m grindahlaupi og hljóp á 52,65 sek og kom fimmti í mark.

Kolbeinn Höður Gunnarsson varð ellefti í 100 m hlaupinu þegar hann kom í mark á 10,87 sek.

Irma Gunnarsdóttir stökk 13,16 m í þrístökki og lenti í 6. sæti.

Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir hljóp 800 m á 2:19,99 mín og endaði í 9. sæti.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Erna Sóley þriðja á sterku móti í Lúxemborg

Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti um helgina á sterku móti í Lúxembirg, CAS Meeting International, og kastaði þar lengst 16,93 m og hafnaði í 3. sæti.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Hvað er framundan?

DagsetningMótAldurshópurStaðsetning
30. júlí 2025Adidas Boost hlaupiðBlandaðHafnarfjörður
1.–3. ágúst 2025Unglingalandsmót UMFÍ11-18 áraEgilsstaðir
2. ágúst 2025Afmælismót KFA 1975–2025FullorðnirHjalteyri

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Unga fólkið okkar stóð sig frábærlega á EYOF og NM U20 og fínn árangur á móti í Svíþjóð

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit